LOGOS lögmannsstofa hefur tekið í notkun lausn hugbúnaðarfyrirtækisins Justikal sem gerir stofunni kleift að senda öll gögn til héraðsdómstóla á rafrænu formi og eykur þar með skilvirkni við vinnslu dómsmála svo um munar.
Hingað til hafa gögn verið send til dómstóla á pappír þrátt fyrir miklar tækniframfarir. Með innleiðingu nýrra laga nr. 55/2019 og með úrræðum dómstóla í heimsfaraldrinum hafa rafrænar gagnasendingar nú verið leyfðar í takt við stafvæðingu samfélagsins. Með þessum breytingum minnkar pappírsnotkun og akstur með gögn sem skilar sér í umhverfisvænni rekstri.
„Þetta skref er hluti af sjálfbærnistefnu LOGOS sem mun spara tíma og auka skilvirkni starfsfólks stofunnar. Þetta er einnig hluti af því að veita framúrskarandi þjónstu, en með Justikal geta viðskiptavinir okkar í framtíðinni fylgst með framvindu sinna mála fyrir dómstólum og fengið sjálfvirkar tilkynningar um leið og einhverjar breytingar verða,“ segir Benedikt Egill Árnason lögmaður, eigandi og framkvæmdastjóri LOGOS.
Fyrir áramót lauk Justikal 400 milljón króna fjármögnum með Eyri Vexti fyrir áframhaldandi þróun og markaðsstarfi en félagið hefur áform um útrás á fleiri markaði í Evrópu.
„Við erum mjög stolt að fá LOGOS til liðs við okkur og hlökkum til samstarfsins. Kerfið mun gera lögmönnum LOGOS og viðskiptavinum þeirra kleift að fara nýjar og betri leiðir þegar kemur að meðferð dómsmála. Sjálfbærni og umhverfismál eru í miklum forgangi hjá okkur og því gott að finna sterkan samhljóm LOGOS með gildum okkar,““segir Margrét Anna Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Justikal.
Í dag er mikið magn gagna eingöngu til á stafrænu formi, t.d. rafrænt undirrituð gögn sem ekki er hægt að prenta út án þess að glata heilindum hinnar rafrænu undirritunar. Í málsmeðferð fyrir dómstólum verður að vera hægt að taka við, sannreyna og varðveita þessi gögn. Það er mikilvægt að málsmeðferð fyrir dómstólum sé í takt við þá stafrænu þróun sem hefur átt sér stað. Lausn Justikal er hönnuð fyrir fartölvur, spjaldtölvur og farsíma. Hún þjónar því afar vel bæði lögmönnum LOGOS við rekstur dómsmála og gerir viðskiptavinum stofunnar kleift að vera ávallt upplýstir um stöðu þeirra mála, hvar og hvenær sem er.