„Þetta er í fullum gangi. Núna er sérfræðihópur frá okkur að funda með sérfræðingum SA og við erum að undirbúa farveginn fyrir atlögu að frekari viðræðum,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en skriður er að komast að nýju á viðræður samtakanna við Samtök atvinnulífsins. Upp úr viðræðunum slitnaði fyrir nokkru í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans.
Eins og komið hefur fram náði Starfsgreinasambandið (SGS) 14 mánaða samningi við SA um síðustu helgi. Sá samningur felur í sér töluverðar krónutöluhækkanir en hefur verið gagnrýndur. Ragnar segist ekki hafa gagnrýnt samninginn efnislega heldur lagt áherslu á að hreyfingin vinni meira saman.
Aðspurður segir Ragnar að VR sé með aðrar áherslur en SGS. „Við erum með aðra nálgun, það er þannig í okkar kröfugerð. Það breytir því ekki að hreyfingin á að geta unnið á breiðari grunni í sameiginilegum málum eins og gagnvarrt stjórnvöldum og gagnvart viðsemjendum okkar í ýmum málum sem geta stutt við svona samning.“
Aðspurður hvort hann telji að félagsmenn SGS muni samþykkja nýgerðan kjarasamning segist hann enga tilfinningu hafa fyrir því og það sé ekki hans að meta það. „Ég reikna þó frekar með því en hitt,“ segir hann.
Ragnar segir að VR leggi áherslu á prósentuhækkanir eða blandaða leið. „Okkar áherslur hafa fyrst og fremst verið niðurstaða kröfugerðar sem við unnum og sem um 6.000 félagsmenn tóku þátt í að móta. Þar er áherslan á millitekjuhópana.“
En nást samningar fyrir jól?
„Það er ómögulegt að segja en tíminn er orðinn knappur. Þetta er flóknara en bara launaliðurinn, það eru fleiri atriði sem spila inn í. Við erum með sérkjarasamninga og fleira sem þarf að ganga frá líka. Þetta er ekki eitthvað sem hægt er að draga upp úr hatti og skrifa undir. Það tekur tíma að koma samningi saman og líka að kynna hann og kjósa um hann.“