Það er óhætt að segja að nokkur æsingur hafi myndast á Alþingi í dag í kjölfar ræðu sem Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti undir liðnum Störf þingsins. Ásmundur gerði fjölmiðlamanninn Gísla Martein Baldursson og jóladagatal Ríkisútvarpsins að umræðuefni sínu í ræðunni sem um ræðir en hann hjólaði í hvort tveggja.
„Misnotkun, óskammfeilni og dónaskapur er orðin viðtekin venja dagskrárgerðarmannsins Gísla Marteins og gesta hans í ríkisreknum fjölmiðli. Það er engu eirt og þeir sem verða fyrir niðurlægingu og ruddaskap dagskrárgerðarmannsins hafa engin tækifæri til að svara fyrir sig eða bera hönd fyrir höfuð sér. Þess vegna tala ég hér,“ sagði Ásmundur.
„Nýlega var ráðist á forstjóra Útlendingastofnunar í jóladagatali barna á Ríkisútvarpinu. Þáttagerðarkona, gestur í þætti Gísla Marteins, ræddi áramótaheit og að hún vildi leika vonda konu á árinu og lýsti því yfir að hún hefði fengið það uppfyllt þegar hún fékk að leika forstjóra Útlendingastofnunar í jóladagatali barna á RÚV. Hvers eiga börnin og starfsmenn ríkisins að gjalda? Gísla Marteini fannst þetta greinilega algjör snilld, lýsti þessu þannig að þarna væri verið að blanda saman list og pólitík.“
Ásmundur segir að þarna hafi verið ráðist með grófum hætti að starfsheiðri ríkisstarfsmanns sem vinnur embættisstörf sín samkvæmt lögum og reglum. Þá ákvað Ásmundur næst að spóla einnig í Pírata „Það er ekki aðeins hér á Ríkisútvarpinu sem uppi veður fólk sem misnotar og mistúlkar. Hér á Alþingi viðurkenna Píratar brot á trúnaðarreglum Alþingis. Annað er útilokað, virðulegi forseti, en að siðanefnd Alþingis taki fyrir trúnaðarbrot þingmanna og snupri þá fyrir gróf brot á trúnaðarreglum Alþingis,“ sagði hann.
„Við erum þjóðkjörin og getum ekki orðið uppvís að því að brjóta trúnað gagnvart gestum okkar og samstarfsfólki, gagnvart þjóðinni. Við erum þjóðkjörin og getum ekki orðið uppvís að því að brjóta trúnað gagnvart þessu fólki.“
Að lokum sagði Ásmundur að þolinmæði í samfélaginu sé orðin lítil fyrir því að dagskrárgerðarfólk á ríkisfjölmiðli og þingmenn „misfari með stöðu sína og vald á jafn grófan hátt og hér hefur gerst“. Það sé krafa hans að Ríkisútvarpið „rétti pólitíska slagsíðu“ og fari að þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemina.
Þessi ræða kveikti heldur betur í þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem nýttu sinn ræðutíma í liðnum Um fundarstjórn í að svara Ásmundi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði til dæmis að Ásmundur hafi ráðist „mjög gróflega“ og með „mjög ósvífnum hætti“ að dagskrárgerðarfólki RÚV. „Þetta er svolítið takturinn núna hjá Sjálfstæðisflokknum, að vera á innsoginu, vera ofboðslega misboðið, kannski út af því að Ríkisútvarpið er ekki lengur nefnt Bláskjár. Kannski er það þess vegna sem þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er svona misboðið,“ sagði hún.
„En það er ekki hægt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að nota þetta púlt endalaust til að ráðast að dagskrárgerðarfólki Ríkisútvarpsins eða akademískum starfsmönnum háskóla eins og stundum hefur verið eða bara almennt listafólki því það er aðför að tjáningarfrelsinu. Það er aðför að því sem við viljum að þetta samfélag standi fyrir, að við þolum, guð minn góður, í þessu púlti, og er maður nú búinn að fá eitt og annað á sig, að það sé gert grín að okkur. En svo koma menn hingað, háheilagir, og er misboðið, skrifa einhverjar færslur á Facebook og segja: Það verður að stöðva þetta, það verður að stöðva þennan óþjóðalýð í Ríkisútvarpinu eða hvar sem er í samfélaginu undir merkjum opinberra starfsmanna. Þetta gengur náttúrlega ekki, virðulegi forseti, og ég held að við verðum aðeins að taka okkur taki og hafa aðeins meiri húmor heldur en þetta.“
Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir orð Þorgerðar og sagði að þetta væri byrjað að vera mynstur hjá Sjálfstæðisflokknum. „Við heyrum fólk sem jafnvel hefur unnið á vegum Sjálfstæðisflokksins og verið kjörnir fulltrúar reyna að grafa undan almannasamtökum með því að kalla þau pólitísk öfgasamtök,“ sagði hann og hvatti Ásmund til að koma upp í pontu og biðjast afsökunar á ummælum sínum.
Andrés Jónsson, þingmaður Pírata, kom svo næstur og ræddi nánar um jóladagatalið, sagði það vera skemmtilegt og að það vekji fólk til umhugsunar. „Það er gott fyrir börn, það er gott fyrir foreldra og það er gott fyrir okkur öll sem horfum á það. Það vill svo til að í því eru dregnar upp svona dálítið skýrar myndir af tilfinningunum sem bærast í fólki í samfélaginu,“ sagði Andrés.
„Hvernig búum við til karakter sem við tengjum öll strax við að sé vondur? Forstjóri Útlendingastofnunar er bara ágæt myndlíking fyrir það vegna þess að sú stofnun er hreinasta og tærasta birtingarmynd mannvonsku ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gagnvart innflytjendum. Þar birtist allt það sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir og gegn fólki á flótta. Ekki myndi ég vilja vera sú manneskja og ég skil vel að leikarinn sem tekur að sér það hlutverk átti sig á því að þetta er ekki neinn engill sem viðkomandi er að fara að leika. En að þurfa að sitja undir því að vera dreginn hér í svaðið af hæstvirtum þingmanni Ásmundi Friðrikssyni — það nær náttúrlega ekki nokkurri átt.“
Þá skaut Andrés á Ásmund fyrir að mæta sjaldan í pontuna til að tjá sig. „Hann lætur sér yfirleitt duga að sitja í hliðarsölum eða hér úti í sal og hreyta ónotum í fólk, trufla fólk í ræðum eins og við gerðum að umtalsefni hér í fundarstjórn í gær þannig að kannski er hann að skána þótt skoðanirnar séu það ekki.“
Ásmundur fékk þá tækifæri til að svara fyrir sig en hann furðaði sig á því að verið væri að tala um listræna túlkun. „Ég spyr okkur hér inni: Er það listræn túlkun að níða skóinn af opinberum starfsmönnum, jafnvel fjölskyldufólki sem þarna kemur? Ég þekki það á eigin skinni þegar barnabörnin hringdu og spurðu hvað karlinn í sjónvarpinu væri að meina. Þegar maður er ásakaður um þjófnað, er það listræn túlkun?“
Þá sagði Ásmundur að hann vissi ekki hvað formaður Viðreisnar ætli að ganga langt í að verja umrædda listræna túlkun.
Að lokum skaut Ásmundur til baka á Andrés. „Svo skulum við bara vitna í þann ræðumann sem var á undan mér, hvort það hafi nú verið falleg lesning sem þar fór fram, enda er nú lítið að marka það sem þaðan kemur.“
Vert er að taka það fram að þessi orðaskipti milli Ásmundar og Andrésar hófust ekki í dag, í gær var nefnilega sérstök umræða um ummæli sem Ásmundur lét falla úr hliðarsal Alþingis á meðan þingmaður fór með ræðu. Andrés gagnrýndi Ásmund harðlega fyrir það í gærkvöldi og spurði hvort verið væri að gera grín að þinginu.
„Þetta eru náttúrlega ólíðandi ummæli. Þetta er ámælisvert, að stjórnarliðar séu svo niðursokknir í eigin þagnarbindindi að þeir komi hingað með dónaskap í hliðarsal, baulandi á þingmenn í pontu að þingmenn séu að gera grín að þinginu þegar við erum að nýta okkur hinn sjálfsagða rétt sem við höfum til að tjá okkur í pontu. Ég veit ekki, það er kannski fullseint að forseti áminni hæstvirtan þingmann um þetta, en ég geri það þá í hjartanu af því að þetta voru skítleg ummæli.“
Lenya Rún Taha Karim, þingmaður Pírata, var næst upp í pontu, og gerði það að umtalsefni sínu hvað hún hefði gaman að þessu öllu saman. „Það er algjör veisla að koma hingað inn, sérstaklega á tímum eins og þessum,“ sagði Lenya.
„Hér var ég áðan í störfum þingsins og ætlaði að fara með ræðu en hæstvirtur þingmaður Ásmundur Friðriksson var á undan mér og fór með skemmtilega ræðu sína um RÚV og nafngreindi dagskrárgerðarmann þar og hreytti í hann orðum.“
Þá spurði Lenya hvort þetta væri venjan. „Er þetta eitthvað sem er gert vanalega hér á okkar hæstvirta Alþingi, að nota ræðupúlt Alþingis til að koma skoðunum okkar á framfæri til að mynda um Ríkisútvarpið sem er styrkt af ríkinu? Og síðast þegar ég vissi var fjármálaráðherra í Sjálfstæðisflokknum? Ég bara spyr, forseti: Er þetta venjulegt?“
Lenya botnaði ræðuna með því að hrósa stemningunni á þinginu í dag. „En það er samt líka gaman að sjá samstöðuna hér og sjá að þingmenn taka þetta ekki í mál og það er bara ágætisandi í hópnum í dag. Það er svo gaman að sjá stjórnarþingmenn koma upp í pontu hér og tala og líka hreyta stundum orðum úr sér þarna í hliðarsalnum. En ég hef bara gaman af þessu.“