Dómur féll í Landsrétti þann 18. nóvember sl. þar sem úrskurður Neytendastofu um meint ólögmæti smálána var felldur úr gildi. Taldi Landsréttur lánafyrirkomulag danska smálánafyrirtækisins eCommerce í fullu samræmi við lög og dæmdi Neytendastofu til þess að greiða smálánafyrirtækinu samtals 2.000.000 kr. í málskostnað fyrir héraðsdómi og Landsrétti. eCommerce hefur rekið fyrirtækin Hraðpeningar, Kredia, Múla og fleiri vörumerki.
„Það sem við vissum allan tímann og fullyrtum var rétt. Smálán veitt af dönsku fyrirtæki heyrðu undir dönsk lög og voru lögleg allan tímann á Íslandi eins og annarsstaðar í Evrópu,” segir Haukur Örn Birgisson hæstaréttarlögmaður, sem flutti málið fyrir hönd eCommerce.
Aðdraganda málsins má rekja til þess að árið 2019 komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að lán danska félagsins eCommerce væru ólögleg þar sem lánssamningar vísuðu til þess að dönsk lög ættu að gilda um lánastarfsemina. Taldi Neytendastofa að íslensk lög ættu að gilda en íslensk lög höfðu að geyma ákvæði um hámarks lántökukostnað á meðan dönsku lögin gerðu það ekki. Danska félagið kærði niðurstöðu Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem staðfesti fyrri niðurstöðu. Ákvað danska félagið því að bera úrskurðurinn undir dómstóla, sem nú hafa dæmt danska félaginu í vil og fellt úrskurð Neytendastofu úr gildi. Liggur því nú fyrir endanlegur dómur þess efnis að lánin voru lögmæt.
Mikið tjón hlaust bæði af því að félagið þurfti að una niðurstöðu Neytendastofu og breyta viðskiptamódeli sínu. Ákvarðanir Neytendastofu eru stjórnvaldsákvarðanir þar sem hægt er að sekta ef ekki er farið eftir ákvörðunum. Öll útistandandi lán voru því endurreiknuð og lækkuð til að koma í veg fyrir sektir ásamt því að ný lán voru með lægri kostnaði en fyrir. Þar til viðbótar beyttu Neytendasamtökin, VR stéttarfélag og hinir ýmsu stjórnmálamenn sér fyrir því að samstarfsaðilar þessara fyrirtækja myndu hætta samstarfi enda starfsemin ólögleg. Það var gert þrátt fyrir að fyrirtækin hefðu breytt í takt við ákvörðun Neytendastofu. Til að mynda gaf VR út að það myndi greiða lögfræðikostnað þeirra sem greiddu eingöngu höfuðstól lána og myndu taka til varna gegn frekari innheimtu frá félaginu. F
ormaður Neytendasamtakanna setti sig í samband við samstarfsfyrirtæki eCommerce þar sem hann hvatti þau til þess að hætta samstarfi við eCommerce þar sem félagið væri að stunda ólögmæta starfsemi. Í tölvupóstum sínum til erlendra fyrirtækja kallaði formaðurinn starfsemina „illegal predatory lending“. Samstarfsaðilar fyrirtækisins hafa því legið undir ámælum og pressu, sem leiddi til þess að þeir slitu samstarfi sínu við félagið. Að lokum neyddist félagið til þess að hætta rekstri og lánasafnið var selt til innheimtufyrirtækis.
„Það sem þetta mál hefur haft í för með sér er að rekstur fyrirtækis sem stundaði lögleg viðskipti lagðist af og löglegt kröfusafnið var selt til innheimtufyrirtækis. Ýmsir aðilar fóru fram úr sér í umræðunni og nú liggur fyrir að ekki var innistæða fyrir yfirlýsingum þeirra. Þarna hefur því orðið mikið tjón fyrir aðila sem var hafður að rangri sök. Næstu skref hljóta að felast í því að sækja bætur fyrir tjón sem af hefur hlotist, á hendur þeim aðilum sem bera ábyrgð á tjóninu,“ bætir Haukur við.