Nýsköpunarfyrirtækið Empower, hefur ráðið þær Öddu Guðrúnu Gylfadóttur og Hönnu Alexöndru Helgadóttur sem sérfræðinga í stafrænni örfræðslu og efnissköpun. Empower vinnur að þróun hugbúnaðarlausnarinnar Empower Now, sem styður fyrirtæki og stofnanir á sviði jafnréttis og fjölbreytni með mælaborði, markmiðasetningu og örfræðslu. Fyrirhugað er að setja hugbúnaðinn á alþjóðamarkað á næsta ári.
Adda Guðrún Gylfadóttir starfaði áður sem rannsakandi hjá Vörðu – rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins. Hún er með MSc gráðu í félagsfræði frá Oxford-háskóla og BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands.
Hanna Alexandra Helgadóttir starfaði áður sem framleiðandi við ýmis skapandi verkefni fyrir sjónvarp, tónleika og viðburði, meðal annars fyrir Sjónvarp Símans. Hún lauk nýverið námi í stafrænni hönnun og listrænni stjórnun frá Hyper Island í Stokkhólmi.
„Fyrirhugað er að setja hugbúnaðarlausn okkar, Empower Now, á alþjóðamarkað haustið 2023. Við erum að byggja upp sterkt samstillt teymi sérfræðinga og ætlum okkur að vera leiðandi alþjóðlega í stafrænum lausnum á sviði jafnréttis og fjölbreytni á vinnustöðum. Þekking, reynsla og ástríða Öddu Guðrúnar og Hönnu Alexöndru kemur til með að styðja við þá vegferð okkar og við erum mjög ánægð að fá þær í teymið. Það eru spennandi tímar framundan hjá Empower,“ segir Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, framkvæmdastjóri og meðeigandi Empower.