Sigurður Hafsteinn Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Torfhús Retreat. Hann þekkir vel til hjá fyrirtækinu eftir að hafa stýrt opnun þessa lúxushótels árið 2019. Torfhús Retreat er staðsett í Biskupstungum þar sem torfbærinn og landslagið, ásamt íslenskri matar- og baðmenningu, eru í aðalhlutverki við að skapa ógleymanlega upplifun fyrir gesti.
Sigurður kemur til Torfhús Retreat frá Icelandair þar sem hann var sérfræðingur á fjármálasviði en þar áður hafði hann meðal annars starfað fyrir hið þekkta hótel Six Senses á eyjunni Koh Yao Noi í Tælandi. Hann er með meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og hefur BA-gráðu í Hospitality Administration frá hinum virta skóla Swiss Hotel Management School. Þess má einnig geta að Sigurður hefur lokið prófi til löggildingar í verðbréfaviðskiptum.
Það er mikill fengur fyrir Torfhús Retreat að fá Sigurð með alla sína þekkingu og reynslu til að stýra rekstri Torfhús Retreat sem byggir á þeirri hugmyndafræði að sýna virðingu fyrir umhverfinu, íslenskri arfleifð og menningu. Þarna hefur verið byggt upp fallegt athvarf þar sem gestir hvaðanæva að úr heiminum njóta friðar, kyrrðar og hefðbundinnar íslenskrar gestrisni. Sigurður hefur þegar tekið við hinu nýja starfi.