Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist þakklátur og hrærður yfir stuðningsyfirlýsingu sem félagar hans í stjórn VR gáfu út í gærkvöldi þar sem afdráttarlausum stuðningi var lýst yfir við framboð Ragnars Þór til embættis forseta ASÍ.
Ragnar segir að það sé ekki alltaf auðvelt að fá yfir sig viðlíka ásakanir og lagðar voru fram í grein 12 leiðtoga úr verkalýðshreyfingunni sem birtist á fimmtudag þar sem Ragnar var sagður haldinn valdafíkn, hann gripi stöðugt til hótana og gengi á dyr ef hann fengi ekki sínu fram. Í þeirri grein var efast um getu Ragnars til að geta gegnt embætti forseta ASÍ af trúverðugleika. Eins var það dregið í efa að Ragnar gæti samhliða verið forseti ASÍ sem og formaður VR, en Ragnar Þór hefur gefi út að hann muni ekki segja af sér formennskunni í VR nái hann kjöri, heldur klára tímabil sitt sem formaður – enda kjaraviðræður að hefjast og því viðkvæmur tími til að skipta um leiðtoga.
Sjá einnig: Hjóla harkalega í Ragnar Þór – „Grípur stöðugt til hótana og gengur á dyr ef hann fær ekki sínu fram“
Stjórn VR sendi svo frá sér stuðningsyfirlýsingu í gærkvöldi þar sem afdráttarlausum stuðningi var lýst yfir með formanninum og tekið fram að sá maður sem lýst var í grein þessara 12 leiðtoga sé ekki sá Ragnar Þór sem stjórn VR hafi kynnst og þekkt undanfarin ár.
Ragnar segir þennan stuðning dýrmætan. Hann segir í færslu á Facebook:
„Það er ekki alltaf auðvelt að fá á sig ómaklegar ásakanir og rógburð sem eiga ekki við nokkur rök að styðjast. Og vera settur í þá stöðu að reyna að verjast þeim gagnvart fólki sem virðist blindað af óskiljanlegri og persónulegri heift.
En af verkum okkar erum við dæmd.
Þessi stuðningur er ómetanlegur og sýnir á hvaða stað við erum í VR og hversu langt við erum komin í okkar frábæra starfi.“
Ragnar segir að þegar hann hafi náð kjöri sem formaður árið 2017 hafi hann verið fimmti formaður félagsins á aðeins níu árum. Starfið hafði áður litast af. miklum og oft hatrömmum deilum. Stjórn VR hafi strax hafið vinnuna við að bæta úr þessu og spurt sig hvernig þau gætu unnið saman.
„Og ég segi Við, vegna þess að þú neyðir engan í samvinnu og samstarf. Árangurinn byggir á vilja, þolinmæði, virðingu, trausti og samvinnu allra. Það sem okkur tókst að gera í VR sýnir hvaða árangri er hægt að ná en líka hversu mikið verk er að vinna á vettvangi ASÍ. Þetta er vel hægt en verður auðvitað krefjandi fyrir alla sem að því koma.
En mikið er ég þakklátur og hrærður yfir þeim stuðningi sem þið í stjórn VR sýnið mér. Án ykkar væri þetta ekki hægt.
Mínar innilegustu þakkir til ykkar allra.“