Stjórn VR lýsir yfir fullum stuðningi við framboð formanns félagsins, Ragnars Þórs Ingólfssonar, til forseta ASÍ, en stjórnin sá sig knúna til að birta stuðningsyfirlýsingu í ljósi greinaskrifa stjórnarfólks í 12 aðildarfélögum ASÍ á dögunum þar sem framboð Ragnars var harkalega gagnrýnt.
Sjá einnig: Hjóla harkalega í Ragnar Þór – „Grípur stöðugt til hótana og gengur á dyr ef hann fær ekki sínu fram“
Stjórn VR segir að í greinaskrifum hafi verið veist að formanni VR „með afar ósmekklegum hætti“ og vildi stjórn VR því koma því á framfæri að þeim manni sem var lýst í grein 12 leiðtoga verkalýðsfélaga innan ASÍ, væri ekki sá maður sem stjórnin þekkir.
„Þetta er ekki sá Ragnar Þór sem við þekkjum mörg býsna vel eftir margra ára stjórnarsetu saman í stjórn VR. Ragnar Þór hefur verið formaður VR í næstum þrjú kjörtímabil frá því að hann var kosinn formaður félagsins árið 2017. Hann hefur endurnýjað sitt umboð frá félagsmönnum á tveggja ára fresti og ávallt fengið mjög góðan stuðning í embætti formanns.“
Stjórn VR segir að fyrirkomulag stjórnar sé þannig að helmingur stjórnar er kosinn árlega til tveggja ára og því skipti miklu máli að vanda til verka innan stjórnarinnar svo góður liðsandi myndist og styrkleikar fái að njóta sín.
„Við stjórnarfólk í VR erum ólíkur hópur og alls ekki alltaf sammála og vissulega langir stjórnarfundir oft á tíðum en Ragnari Þór hefur tekist að byggja upp góðan liðsanda í hópi stjórnar þar sem frjáls og opin skoðanaskipti eiga sér stað og allar raddir fá að heyrast. Ragnar Þór hefur verið öflugur formaður VR og stjórn VR lýsir yfir fullum stuðningi við framboð hans til forseta ASÍ.“