fbpx
Laugardagur 09.nóvember 2024
Eyjan

Börn í Kópavogi send úr mygluðum skóla yfir í myglað hús – Bærinn greitt tæpar 25 milljónir í leigu á árinu

Eyjan
Laugardaginn 3. september 2022 07:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skólabörn úr Kópavogsskóla sem sækja þurftu kennslustundir utan skólans vegna myglu sem hafði komið þar upp, voru send í kennslustofur í Fannborg 2, en sú bygging hafði verið skráð fokheld vegna myglu árið 2019 og var metin í bágbornu ástandi með mjög skert burðarþol ári síðar. 

Fyrsta hæð Fannborgar 2 er notuð fyrir vistun fatlaðra ungmenna í Kópavogsbæ. Þessu vakti Fréttablaðið athygli á vikunni.  Í júní árið 2019 óskaði eigandi Fannborgar 2, Árkór ehf., sem keypti eignina af Kópavogsbæ, eftir því að eignin yrði skráð sem fokheld þar sem húsnæðið væri ónýtt sökum myglu.

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins sýna nýjust mælingar að mygla finnist í húsnæðinu, en mælingar voru framkvæmdar af Sýni ehf. í ágúst á þessu ári og fundust þar ummerki um myglu 1. hæð, þó í rými þar sem ekki er notað undir dagvistunina.

Í svörum Kópavogsbæjar til Fréttablaðsins kom fram að Heilbrigðiseftirlitið hafi verið kallað til áður en starfsleyfi var veitt fyrir dagvistuninni og hafi eftirlitið framkvæmt sjónmat og rakamælingu og farið hafi verið af tilmælum Heilbrigðiseftirlitsins, húsnæðið þrifið, málað og loftræstikerfi yfirfarið. Hafi þessi úrræðið þó einugis farið fram á fyrstu hæð hússins. Sagði Kópavogsbær ennfremur að enginn umgangur væri í húsinu og að efri hæðir væru ekki í notkun.

Í kjölfar fréttar Fréttablaðsins bárust miðlinum athugasemdir frá bænum þar sem fram kom að fyrsta hæð Fannborgar væri ekki lengur metin fokheld. Hún hafi aftur verið skráð fullgerð þegar húsnæðið var tekið í notkun fyrir Kópavogsskóla í vor, hins vegar hafi láðst að breyta skráningu á þeim tíma, heldur hafi það verið gert í ágúst. Engin mygla hafi fundist í þeim hluta hússins sem væri í notkun og Heilbrigðiseftirlitið hafi gefið út starfsleyfi fyrir fyrstu hæð hússins í mars.

Önnur hæð líka í notkun

Samkvæmt heimildum DV var þó önnur hæð hússins í notkun í vor. Þá nýtti bærinn kennslustofur á fyrstu og annari hæð Fannborgar undir nemendur 6.-10. bekkjar Kópavogsskóla, en mygla hafði komið upp í skólanum og því þurfti að finna nemendum tímabundið húsaskjól.

Í svörum Kópavogsbæjar til DV segir að þegar Kópavogsskóli fékk húsnæðið sér til handa í vor hafi það ekki verið í notkun í nokkurn tíma. Til að tryggja að húsnæðið væri ekki heilsuspillandi hafi eftirfarandi verið gert:

„Skýrsla sem gerð var árið 2019 af Verkís var yfirfarin ákveðið að nota ekki þau rými á annarri hæð þar sem grunur eða staðfestur grunur var um myglu.

Þessi rými voru lokuð og/eða skermuð af. Enginn umgangur er um rými á efri hæðum, 3. og 4. hæð, og meðan skólastarf fór fram í húsnæðinu var stigagangi norðanvert lokað á móts við 2. hæð til að forðast umgang milli hæða og loftflæði á milli rýma. Efri hæðir hafa ekki verið notaðar af Kópavogsbæ. Lyfta hússins hefur ekki verið í notkun og loftun er upp úr lyfturými með útsogi.

Áður en Kópavogsskóli hóf starfsemi sína var Heilbrigðiseftirlit kallað til og sjónmat gert á húsnæðinu ásamt rakamælingum. Farið var að ráðleggingum Heilbrigðiseftirlits, húsnæðið var þrifið, málað og loftræstikerfi hússins yfirfarið. BG þjónustan, sem hefur sérhæft sig í hreinsun myglu, var fengin í þrifin. Að því loknu kom Heilbrigðiseftirlitið að nýju og gaf í kjölfarið út starfsleyfi, sem er í gildi út ágúst. Ekki þótti ástæða til að taka sýni eftir þessar aðgerðir og úttekt heilbrigðiseftirlits. Óskað hefur verið eftir aðkomu Heilbrigðiseftirlitsins á ný áður en starfsleyfi rennur út.“

Samkvæmt skýrslu Verkís var tilgreindur einn staður á fyrstu hæð, í anddyri við lyftu, þar sem aðgerða væri þörf og var það lagað og þrifið.

Almenn ánægja var með húsnæðið í Fannborg 2 meðal nemenda og starfsfólks Kópavogsskóla.

Þess má geta að ný loftgæðamæling á 1.hæð sýnir góðar niðurstöður fyrir fyrstu hæðina. 

Bærinn hefur greitt tæpar 25 milljónir í leigu fyrir myglað hús í bágbornu ástandi

Í svörum kemur jafnframt fram að Kópavogsbær hafi ekki notað húsið eftir að það var skráð fokhelt nema fyrir Kópavogsskóla. Nú hafi skráningu fyrir fyrstu hæð verið breytt og hefur verið tekin í notkun fyrir eftirskólaúrrræði fyrir fatlaða einstaklinga og í bígerð sé að nota fyrstu hæðina einnig undir skólaúrræðið Tröð.

Það sem af er ári hefur Kópavogsbær greitt Árkór 24.780.179 kr. fyrir Fannborg 2.

Samkvæmt húsaskráningu sem unnin var í tengslum við gerð deiliskipulags fyrir meðal annars Fannborgarreitinn svonefnda árið 2020, var ástand og upprunaleg gerð bygginga könnuð sem og varðveislugildi metið. Þar kemur eftirfarandi fram um ástand Fannborgar 2: „Bágborið ástand gerir það að verkum að byggingin er talin ónýt, meðal annars af myglu og skertu burðarvirki“

Þar kemur eins fram að úttekt frá verkfræðistofunni Ferli „kom í ljós að húsið hefur mjög skert burðarþol og hafa þar einnig komið í ljós mygluskemmdir.“

Hæpnar forsendur

Þetta hefur þó verið dregið í efa. Íbúi í Fannborg 9, Vinir Kópavogs og 36 aðrir aðilar með lögheimili í Kópavogi kærðu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs um að samþykkja deiliskipulag, meðal annars á Fannborgarreiti. Í kærunni er það dregið í efa að húsnæðið í Fannborg sé ónýtt.

„Fullyrðingar í húsakönnun að byggingin í Fannborg 2 sé ónýt vegna myglu byggi á hæpnum forsendum, en þess megi geta að húsnæðið sé að hluta í notkun fyrir skrifstofur,“ segir í samantekt  úrskurðarnefndar um kæruna. Þar er því haldið fram að burðarþol húsins sé í samræmi við önnur hús sem byggð voru á sama tíma. Ekki sé að finna réttlætanlegan rökstuðning fyrir því að Fannborg 2 sé ónýt.

Láta kærendur að því liggja að það hafi hentað bænum að húsnæðið væri ónýtt til að girða fyrir sjónarmið um varðveislu þess á grundvelli menningarsögu, en um eitt sögufrægasta hús Kópavogs er að ræða. Þar var Félagsheimili vígt árið 1959 og komu sex félagasamtök að byggingu þess, Framfarafélagið Kópavogur, Kvenfélag Kópavogs, Ungmennafélagið Breiðablik, Skátafélagið Kópar, Slysavarnafélag Kópavogs og Leikfélag Kópavogs.

Í samantekt um áðurnefnda kæru segir:

„Í minnisblaði frá Mannviti, dags. 28 apríl 2017, sé ekki að finna rökstuðning fyrir því að Fannborg 2 sé ónýt bygging. Niðurstaða matsins sé illa rökstudd og gildishlaðin, enda framkvæmd af aðila á vegum lóðaréttahafa sem hafi hag af því að nýtingarstuðull á reitnum verði sem hæstur.“ 

Hver sem raunin er með Fannborg 2 virðist svo vera að þar hafi verið rekin starfsemi jafnvel eftir að eignin var skráð sem fokheld vegna myglu. Kópavogur hafi eins, þrátt fyrir að hafa fyrir nokkrum árum samþykkt breyttu skráninguna, talið vel hægt að nýta húsnæðið þegar á þurfti að halda. Kannski væri jafnvel hægt að segja að Fannborg 2 sé eins konar köttur Schrödinger – bæði mygluð og ómygluð í senn og ónýt en samt hæf undir skólastarfsemi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Hundum boðið í bíó
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hildur vill skera niður „grobbsjóð borgarstjóra“

Hildur vill skera niður „grobbsjóð borgarstjóra“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Gengi rafmynta í hæstu hæðum vegna kosninganna

Gengi rafmynta í hæstu hæðum vegna kosninganna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framboð Harris hvetur stuðningsmenn til að halda ró sinni – „Okkur líður ágætlega með það sem við sjáum“

Framboð Harris hvetur stuðningsmenn til að halda ró sinni – „Okkur líður ágætlega með það sem við sjáum“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Flestir vilja Sigmund Davíð sem forsætisráðherra

Flestir vilja Sigmund Davíð sem forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Kristrún skýtur föstum skotum – „Bjarni Benediktsson og félagar reyna að beina athyglinni frá þeirra eigin vanhæfni“

Kristrún skýtur föstum skotum – „Bjarni Benediktsson og félagar reyna að beina athyglinni frá þeirra eigin vanhæfni“