Ákveðin óánægja er með þetta innan Framsóknarflokksins að sögn Morgunblaðsins. Segir blaðið að innan flokksins sé fólk á báðum áttum um framhaldið. Bent hafi verið á að helsta kosningamál flokksins hafi verið að gera breytingar í borgarstjórn og erfitt geti reynst gagnvart kjósendum flokksins að hlaupa beint í fangið á gamla meirihlutanum. „Þá þyrfti vægi Framsóknar augljóslega að vera mjög mikið og sýnilegt,“ er haft eftir heimildarmanni innan flokksins.
Morgunblaðið segir að það fari ekki síður í taugarnar á fólki að gamli meirihlutinn sé að þröngva Framsókn í meirihlutasamstarf með „klækjastjórnmálum“. Sá er það sagði sagði að flokkurinn sé ekki skuldbundinn til að fara í meirihlutasamstarf við gömlu meirihlutaflokkana bara vegna þess að þeir útiloki aðra kosti. „Við getum vel verið í minnihluta líka,“ sagði hann.