Svona hefst pistill eftir Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, í Morgunblaðinu í dag en hann ber fyrirsögnina „Fjármálaráðherra ber ábyrgðina“.
Segir Helga Vala að framkvæmd sölunnar sé brot á jafnræðisreglu laga um sölumeðferð ríkis í fjármálafyrirtækjum og hafi ráðherrar verið nokkuð beygðir eftir að upp komst um þær aðferðir sem beitt var. „Sögðu að „velta yrði við hverjum steini“, að „útboðið hafi ekki staðið undir væntingum“ og „að hefja þyrfti rannsókn á því sem hefði misfarist“. Sjálfur gerandinn, fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson, fyrirskipaði ríkisendurskoðun að hefja rannsókn,“ segir Helga Vala.
Hún segir að síðan þessar athugasemdir féllu hafi stjórnarliðar snúið við blaðinu og spyrji nú hvert sé vandamálið, hvort fjármálaráðherra sé bannað að selja pabba sínum hlut í bankanum. Þeir bendi á að bæti við fjármuni í þjóðarbúinu og spyrji hvort stjórnarandstaðan vilji frekar sleppa því að styðja við öryrkja og efla heilbrigðiskerfið.
„Það liggur fyrir að fjármálaráðherra var að selja eign almennings sem hefur gefið af sér umtalsverðan arð til reksturs grunnþjónustunnar. Við fáum auðvitað andvirði sölunnar til ráðstöfunar en það er forkastanlegt að selja hlut, þar sem umframeftirspurn er fyrir hendi, á lægra verði,“ segir Helga Vala og bendir á að undanþága laganna um lokað útboð hafi verið réttlætt fyrir Alþingi með þeim hætti að verið væri að sækja vel efnaða langtímafjárfesta. Fjárfesta sem gætu jafnvel komið bankanum til aðstoðar ef það myndi harðna í ári. Einnig hafi verið sagt að sölumeðferðin yrði ódýrari.
„Þetta útboð var ekki framkvæmt á jafnræðisgrundvelli og er það skýrt brot á lögum. Ef allir sem uppfylla sett skilyrði geta boðið í og fengið úthlutað í samræmi við það þá er jafnræðis gætt. Svo var alls ekki í þessu tilviki heldur voru sérvaldir fimm söluaðilar sem höfðu samband við sinn kúnnahóp og aðra ekki. Þau sem uppfylltu öll skilyrði, en voru ekki á lista þessara tilteknu seljenda, gátu því ekki boðið í. Jafnræðis var ekki gætt. Ef hinir handvöldu kaupendur hefðu svo allir uppfyllt skilyrðin um stórkaup til lengri tíma þá hefði mátt segja að a.m.k. það skilyrði hefði verið uppfyllt. Svo var heldur ekki því meðal kaupenda eru rúmlega 50 aðilar sem keyptu fyrir lægri fjárhæðir og þurftu sumir jafnvel að slá lán fyrir kaupunum,“ segir Helga Vala.
Hún rifjar því næst upp að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi sagt að gagnsæi þurfi að ríkja við sölu á ríkisfyrirtækjum en ljóst sé að ríkisstjórnin njóti ekki nauðsynlegs trausts til þess verks.
„Það þarf að fara ofan í saumana á öllu ferlinu, hverjir fengu að selja, hverjir voru fengnir til ráðgjafar fyrir milljónatugi án útboðs og loks hverjir fengu að kaupa á sérkjörum. Það eina sem enginn vafi leikur á er að fjármálaráðherra ber lagalega og pólitíska ábyrgð og því ber honum að víkja án tafar,“ segir hún síðan að lokum.