fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Brynjar sakar Jón Þór um óheiðarleika – „Slík framkoma er ekki boðleg að mínu viti“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 4. mars 2021 14:30

Brynjar Níelsson, Jón Þór Ólafsson og Jakob Bjarnar Sigurðsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar  Alþingis, upplýsti í viðtali við RÚV í gærkvöld að nýjar upplýsingar hafi komið fram á fundi nefndarinnar með Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Fundurinn snerist um símtöl milli Höllu og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra á aðfangadag og var Halla spurð út í þau.

Símtölin komu í kjölfar frétta fjölmiðla á aðfangadagsmorgun þess efnis að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefði verið staddur í samkvæmi í Ásmundarsal, þangað sem lögregla var kölluð til vegna gruns um brota á sóttvarnareglum. Í dagbók lögreglu sem send er reglulega á fjölmiðla var sagt að „háttvirtur ráðherra“ hefði verið á meðal gesta í samkvæminu. Sú upplýsingagjöf lögreglu er ekki í samræmi við vinnureglur lögreglu þar sem upplýsingar eru allajafna ópersónugreinanlegar.

Áslaug hefur upplýst að hún hafi spurt um upplýsingagjöf lögreglu í símtölunum en þau voru tvö. Deilt hefur verið á þessa framgöngu dómsmálaráðherra en margir telja hana þó fullkomlega eðlilega.

Jón Þór sagði í viðtali við RÚV að fundurinn með Höllu hefði verið bundinn trúnaði. Hann upplýsti þó að nýjar upplýsingar hafi komið fram á fundinum:

„En þær upplýsingar sem við fengum bæði hjá dómsmálaráðherra og lögreglustjóranum gefa tilefni til þess að við þurfum að athuga þetta nánar, til þess að sinna okkar eftirlitshlutverki, sem við höfum fengið staðfest frá nefndarsviði og öllum aðilum að það er innan okkar lögsögu. Þannig að það þarf að skoða málið nánar. Þannig að við erum að skoða hvaða sviðsmyndir eru í stöðunni. Eitt er það að nefndin haldi áfram að skoða þetta sjálf. Önnur sviðsmynd sem fordæmi eru fyrir er að nefndin geri hlé á sínum störfum til þess að skapa það færi að umboðsmaður meti sjálfur hvort hann ætli að hefja frumkvæðisathugun á málinu.“

Jón Þór sagði að það væri skylda nefndarinnar að skoða málið og upplýsa um það: „Það er náttúrulega sjálfsagt að ráðherra tali við sína undirmenn. Nú er matið það hvort einhver óeðlileg afskipti hafi átt sér stað við rannsókn lögreglu á máli. Rannsókn var klárlega hafin og nú er spurning hvort þessi samskipti fólu í sér einhver óeðlileg afskipti af rannsókninni, og hvar dómsmálaráðherra er varðandi þá línu. Og það er okkar skylda að skoða það og upplýsa.“

Óstjórnleg löngun til að koma höggi á andstæðing

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður þessarar sömu nefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, er afar ósáttur við framgöngu Jóns Þórs í þessu viðtali við RÚV og segir hann hafa farið með rangfærslur og rangtúlkanir á því sem fram fór á fundinum. Í pistli um málið á Facebook, segir hann:

„Eftir að ráðherrann og lögreglustjórinn höfðu mætt fyrir nefndina á lokuðum fundi, sem trúnaður gildir um, og upplýstu um samskipti sín í þessum símtölum komu tveir nefndarmenn fram í fjölmiðlum, og annar þeirra formaður nefndarinnar, með dylgjur og rangtúlkanir um það sem fram kom á fundinum. Slík framkoma er ekki boðleg að mínu viti og lýsir ekki miklum drengskap í garð gesta og annarra nefndarmanna að nýta það sem fer fram á lokuðum fundum til rangfærslna og rangtúlkana á orðum gesta í óstjórnlegri löngun til að koma höggi á pólitískan andstæðing.“

Brynjar telur raunar að fundurinn hafi verið tilefnislaus og að svo virðist sem sumir í nefndinni noti hana til að koma höggi á pólitíska andstæðinga:

„Ég hef margsinnis fengið verðlaun fyrir þolinmæði og umburðarlyndi gagnvart alls kyns vitleysu og dellumauki. Þó hefur hallað verulega undan fæti hjá mér í þessum efnum eftir setu mína í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á þessu kjörtímabili. Svo virðist sem að hluti nefndarmanna í stjórnarandstöðu haldi að þeim hafi verið falin einhver allsherjar lögsaga og taka reglulega upp mál í fullkomnu tilgangsleysi til að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

Nú síðast kröfðust þessir lögsögumenn að nefndin tæki til skoðunar tvö símtöl sem dómsmálaráðherra átti við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar frétta sem byggðist á sérkennilegri dagbókarfærslu lögreglunnar, án þess að nokkuð hafi komið fram í frásögn lögreglustjórans eða ráðherrans af símtölunum sem gaf tilefni til þess. Hvorki ráðherra né lögreglustjóri telja að nokkuð óeðlilegt væri við símtölin enda alþekkt að yfirmaður dómsmála, sem ber ábyrgð á lögregluembættum, afli upplýsinga um mál sem hann er krafinn svara um. Sama á við stofnanir sem heyra undir aðra ráðherra.“

„Bíddu nú aðeins hægur gæskur“

Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísir.is, blandar sér í umræður undir færslu Brynjars, og bendir á að Áslaug hafi ekki svarað blaðamönnum þó að hún hafi hringt í lögreglustjóra vegna málsins:

„Bíddu nú aðeins hægur gæskur. Ráðherra hringir í lögreglustjóra á aðfangadegi vegna einskonar þjónustu við blaðamenn?! Ég hef starfað við blaðamennsku í þrjátíu ár og hef aldrei nokkru sinni heyrt af öðrum eins liðleika gagnvart pressunni. En Guð láti á gott vita, bravó. En ákveður svo, eftir að hafa hringt tvisvar í lögreglustjóra að svara hinum dularfulla og ágenga blaðamanni á aðfangadegi engu. Sko, ég átta mig á því að ykkur Sjálfstæðismönnum er fullkunnugt um að enginn stjórnmálamaður hefur farið flatt á því að vanmeta greind almennings… en er þetta ekki svona með því draslaralegasta sem boðið hefur verið uppá?“

Brynjar segir að engu máli skipti þó að símtölin hafi átt sér stað á aðfangadag og ekkert hafi komið fram sem bendir til óeðlilegra afskipta Áslaugar:

„Að það hafi verið aðfangadagur hefur enga þýðingu í þessu máli. Fréttamenn láta engan í friði þótt jólin séu. Hefur ekkert komið fram sem gefur okkur ástæðu til að ætla að ráðherrann hafi haft einhver óeðlileg afskipti af rannsókn málsins. Þetta eru bara dylgjur sem hafa enga stoð í framburði þeirra sem eiga í hlut að máli.“

Jakob segir daginn einmitt hafa þýðingu því fjölmiðlar séu þá komnir á sjálfstýringu: „Þá er nánast enginn á vakt og búið að leggja daginn upp. Sama hvaða ritstjórn það er. Og sá blaðamaður sem hringir sérstaklega í dómsmálaráðherra með þetta erindi, á þessum degi ætti að fá öll blaðamannaverðlaun sem í boði eru; fyrir ofurbjartsýni.“

Brynjar segir að símtölin hafi einmitt verið eðlileg í ljósi þess að allir fjölmiðlar voru að flytja fréttir af málinu.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus