fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

„Ólíðandi lögbrot sem enginn á að komast upp með, ekki heldur Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri,“ segir Árni

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 21. desember 2021 07:00

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu hefur Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, verið sakaður um ritstuld. Fyrst steig Bergsveinn Birgisson, rithöfundur, fram og sakaði hann um ritstuld og í kjölfarið steig Árni H. Kristjánsson, sagnfræðingur, fram og bar Ásgeir sömu sökum.

Árni skrifar grein í Fréttablaðið í dag, sem ber fyrirsögnina „Sekt Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, þar sem hann fjallar um meintan ritstuld Ásgeirs. Hann segir meðal annars að Ásgeir hafi viðurkennt ritstuld úr verki Árna, Hugsjónir, fjármál og pólitík. Saga Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis í sjötíu og sjö ár í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins: „Ég get engu svarað um þetta. Ég kom að þessu verki í raun á lokastigum, var einn margra höfunda að skýrslunni og fékk afhent efni sem mér var sagt að væri í eigu nefndarinnar. Ég veit ekki meira um málið,“ sagði Ásgeir við Fréttablaðið nýlega.

Hann víkur síðan að skrifum Ásgeirs á Facebooksíðu sína þann 17. desember síðastliðinn þar sem hann skrifaði meðal annars: „Aldrei í mínum villtustu ímyndunum hvarflaði að mér að þessi skrif í umboði og undir höfundarrétti Alþingis okkar Íslendinga myndu leiða til þess að ég yrði sakaður um ritstuld á forsíðu dagblaðs – 8 árum síðar. Enda er þá þjófsnautur minn í þessu máli öll íslenska þjóðin – sem á höfundarrétt á öllum rannsóknarskýrslum Alþingis.“

Árni víkur því næst að forsögu málsins sem er að hann sleit óformlegu samstarfi við Rannsóknarnefnd Alþingis snemma árs 2012 vegna kröfu nefndarinnar um höfundarrétt á rannsóknum hans um sparisjóði. Hann hafi ekki skrifað undir samstarfssamning við nefndina, né aðrar skuldbindingar og hafi aðilar skilið í góðu. „Þar sem starfsmenn nefndarinnar höfðu undir höndum handrit mitt að Sögu SPRON, sem sýnishorn af vinnubrögðum mínum, þá sló ég formlega eftirfarandi varnagla: „Ég fer vinsamlega fram á það að nefndin og Vífill [Karlsson] skili mér þeim gögnum sem ég lét af hendi. Einnig vil ég undirstrika að starfsmönnum nefndarinnar er óheimilt með öllu að nýta gögnin við skrif sín,“ segir hann.

Hann segir að rannsóknarnefndin hafi síðan stillt Ásgeiri Jónssyni upp sem arftaka hans og sé það staðfest í greinargerð nefndarinnar.

„Sem kunnugt er, og staðfest er af sérfróðum matsmönnum (prófessorum í lögfræði og sagnfræði) á vegum Alþingis, þá virti nefndin bann um að nota handrit mitt að vettugi. Handritið gekk á milli skýrsluhöfunda og var nýtt óspart við skrif Rannsóknarskýrslunnar. Eins og nærri má geta þá átti ólöglegt athæfið að fara mjög leynt eins og sést í tölvupósti dr. Vífils Karlssonar, hagfræðings og starfsmanns nefndarinnar, er hann sendi handrit mitt áfram innan nefndarinnar með orðunum: „Trúnaðarmál. Lætur þetta ekki fara lengra.“,“ segir Árni síðan um framvindu mála.

Háskólamenntaðir fræðimenn

Árni segir að Ásgeir Jónsson telji sig hafa verið í rétti til að nýta handrit hans og beri því við að það hafi verið í eigu rannsóknarnefndarinnar. „Hafa ber í huga að Ásgeir og skýrsluhöfundur eru háskólamenntaðir fræðimenn og hafa m.a. starfað sem kennarar við æðri menntastofnanir. Þeim var því fullljóst að með því að nýta handrit mitt þá voru þeir að þverbrjóta höfundalög nr. 73/1972 þar sem refsiramminn er frá sektum til allt að tveggja ára fangelsis. Því er ekki að undra að skýrsluhöfundar hafi lagt sig fram við að breiða yfir glæpinn. Þess var vandlega gætt að nafn mitt og bókar minnar, sem kom út hálfu ári á undan Rannsóknarskýrslunni, kæmu hvergi fram,“ segir hann síðan.

Hann víkur síðan að því sem hann segir vera yfirklór Ásgeirs um að handritið hafi verið í eigu Rannsóknarnefndarinnar og notkun þess því heimil og spyr af hverju starfsmenn nefndarinnar hafi þá breytt tilvísunum sem hann notaði í handriti sínu? Hvers vegna hafi átt að fara leynt með handritið þegar það var sent á milli nefndarmanna?

„Svörin eru augljós og hafa verið staðfest af sérfróðum matsmönnum – Ásgeir Jónsson og fleiri skýrsluhöfundar eru uppvísir að ritstuldi úr verki mínu,“ segir hann.

Hann segist hafa vakið athygli á málinu 2014 en það hafi ekki fengið mikla athygli því Alþingi hafi ekki viljað að það kæmist í hámæli því það hafi brugðist eftirlitsskyldu sinni með rannsóknarnefnd sem missti tökin á verkefninu og séu ítrekaðar frestanir, himinhár kostnaður og rangar niðurstöður til vitnis um það.

„Ég var beittur miklum órétti í skjóli Alþingis og það er mikilvægt að hið sanna í öllu málinu komi í ljós. Því er ég með í smíðum stóra grein, sem mun birtast í fagtímariti, þar sem málið verður rakið ítarlega. En mergur málsins er að ritstuldur er ólíðandi lögbrot sem enginn á að komast upp með, ekki heldur Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri,“ segir hann að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki