Laugardagur 06.mars 2021
Eyjan

Bjarni segir að málflutningur gegn bankasölunni sé „hvorki frumlegur né burðugur“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 28. janúar 2021 10:53

mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Síðustu vikur hafa heyrst kunnuglegar raddir þess efnis að bankasala sé ótímabær, þó málflutningurinn sé hvorki frumlegur né burðugur,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þar fer hann yfir þau áform ríkisstjórnarinnar að selja allt að fjórðungshlut úr Íslandsbanka.

„Því er haldið fram að bankinn standi svo höllum fæti vegna kórónukreppunnar að ekkert fáist fyrir selda hluti, en í sömu andrá sagt að reksturinn gangi svo vel að ríkið megi með engu móti missa slíkar mjólkurkýr,“ segir Bjarni um málflutning þeirra sem tala gegn bankasölunni.

Þá minnist Bjarni á umræðu um miklar lánafrystingar hjá Íslandsbanka en bendir á að þær séu nær alfarið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum enda hafi áhersla stjórnvalda „einmitt legið hvað þyngst í að byggja undir öfluga viðspyrnu og gjaldfærni þegar birtir til.“ Þá segir hann það fjarstæðu að væntanlegir eigendur hluta í bankanum muni þvinga fram aðför að veðum ferðaþjónustufyrirtækjanna.

Bjarni bendir á að hvergi í Evrópu séu umsvif ríkisins á fjármálamarkaði meiri en hérlendis. Hann segir í upphafi greinar sinnar:

„Alls eru yfir 400 milljarðar af almannafé bundnir í bankarekstri, sem sagan sýnir að er í eðli sínu áhættusamur og sveiflukenndur. Hvergi í Evrópu eru umsvif ríkisins á markaðinum jafn mikil og hér.

Í nágrannalöndum okkar er almenn samstaða um að ríkið sé ekki rétti aðilinn til að leiða baráttuna í sífellt harðnandi samkeppnisumhverfi og almannafé sé betur varið í
uppbyggilegri verkefni. Áherslu eigi að leggja á traust og öruggt regluverk, sem dragi úr áhættusækni, en tryggi öfluga þjónustu við heimili og fyrirtæki.“

Segir fjármálaráðherrann að með sölu á hlut úr Íslandsbanka verði stigið lítið skref í þá átt að færa íslenskt bankakerfi nær því sem þekkist í nágrannalöndum okkar:

„Til hefur staðið að draga úr áhættu ríkisins í bankarekstri um árabil. Söluáformin koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, eigendastefnu ríkisins og eru í samræmi við niðurstöður Hvítbókar frá 2018, þar sem breiður hópur óháðra sérfræðinga lagði drög að heildstæðri framtíðarsýn fyrir íslenskt fjármálakerfi. Í henni kemur fram að ekki sé ákjósanlegt að sami aðili sé ráðandi á markaðnum líkt og ríkið er í dag.“

Bjarni bendir enn fremur á að lagaumhverfi og eftirlit með fjármálastarfsemi sé allt annað en var hér fyrir bankahrunið mikla haustið 2008:

„Undanfarin ár hefur eftirlit með bönkum og kröfur til þeirra verið hert verulega. Þar má nefna reglur um eiginfjárhlutföll og laust fé banka, bann við lánum með veði í eigin bréfum, takmarkanir á fyrirgreiðslum til tengdra aðila, strangar hæfniskröfur virkra eigenda og stjórnenda og stórefld starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Þetta verður að hafa hugfast, enda víða talað líkt og aðstæður séu óbreyttar frá árunum fyrir efnahagshrun haustið 2008. Laga- og eftirlitsumhverfi bankastarfsemi er gjörbreytt og umræðan þarf að vera í takt við veruleikann í dag, ekki veruleikann sem þekktist upp úr aldamótum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gerir upp ævintýralegt kjörtímabil – „Allt sem gerðist lítur út fyrir að hafa ekki getað orðið öðruvísi“

Gerir upp ævintýralegt kjörtímabil – „Allt sem gerðist lítur út fyrir að hafa ekki getað orðið öðruvísi“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Björn Bjarna segir réttarríkið trufla Eflingu í aðför að einkafyrirtækjum – Lýsir einræðistilburðum Sólveigar Önnu

Björn Bjarna segir réttarríkið trufla Eflingu í aðför að einkafyrirtækjum – Lýsir einræðistilburðum Sólveigar Önnu