fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Jón Baldvin segir ásakendur um kynferðisofbeldi heltekna af hatri og hefndarhug – Ásakanirnar rýri trúverðugleika alvöru kynferðisofbeldis

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 19. janúar 2021 10:30

Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Baldvin Hannibalsson fer mikinn í aðsendri grein í Fréttablaðinu í morgun. Tilefni greinarinnar er viðtal Ingunnar Láru Kristjánsdóttur blaðamanns við þær Rögnu Björg Björnsdóttur, Sigurbjörgu Jónsdóttur og Elísabetu Sif Helgadóttur. Viðtalið birtist í helgarblaði Fréttablaðsins síðastliðna helgi.

Í viðtalinu stíga konurnar fram og lýsa kynferðislegu ofbeldi og áreitni sem þær urðu fyrir af hendi Jóns Baldvins. Ásakanirnar eru í sjálfu sér ekki nýjar, en í viðtalinu komu þær fram undir nafni í fyrsta sinn.

Jón Baldvin svarar þessum ásökunum í blaði dagsins og segir þær, eins og áður, upplognar. Þá finnur hann ýmislegt að vinnubrögðum blaðamannsins. Segir Jón blaðamanninn ekki hafa gefið svörum sínum nægilega góð skil í greininni. Þess má geta að Jón Baldvin hefur komið fram í fjölmörgum blaðaviðtölum, rekur eigin bloggsíðu, hefur komið fram í sjónvarpsviðtölum á Hringbraut og í fær, í krafti stöðu sinnar sem fyrrverandi ráðherra, formaður stjórnmálaflokks og sendiherra, aðsendar greinar sínar iðulega birtar í dagblöðum landsins. Þennan vettvang hefur hann ítrekað notað til þess að verja sig fyrir ásökunum um að hafa beitt fjölmargar konur kynferðislegu ofbeldi.

Jón Baldvin skrifar:

Blaðamaður beindi nokkrum fyrirspurnum til mín um efnið, sem var óhróður um mína persónu, og krafðist svara í tímapressu. Hún fékk svör svo til samstundis, enda hafa þau legið fyrir lengi, aðgengileg fyrir áhugasama. En þótt blaðamaður hafi beðið um og fengið svör, stakk hún efni þeirra undir stól og lét nægja að vísa til þess, hvar þau mætti finna. Vegna þessara vítaverðu vinnubragða beini ég þeirri sjálfsögðu kröfu til ritstjóra Fréttablaðsins, Jóns Þórissonar, að hann birti svörin í næsta tölublaði Fréttablaðsins. Af tillitssemi við ritstjóra fylgja svörin hér með, í styttri útgáfu.

Jón birtir svo svar sitt til blaðamanns í heild sinni. Þar segir hann sögunum ætlað að ræna hann og konu sína, Bryndísi Schram, mannorði sínu og útskúfa þau úr íslensku samfélagi. Ásakanirnar um kynferðisofbeldi, sem Jón kallar „sögurnar,“ eru uppspuni eða fá ekki staðist, segir hann.

Jón heldur þá fast í sögu sína að hann hafi ekki stigið fæti inn í Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu árið 1996. „Ég er sagður sauðdrukkinn og síðbúinn veislugestur. Undir lokin er ég sagður hafa kallað yfir salinn: „Mig mig vantar kvenmann“. Þegar ekki var orðið við þessum óskum, á ég að hafa ruðst fram í eldhús og áreitt þar unga stúlku undir lögaldri. Yfirmaður staðarins á að lokum að hafa skorist í leikinn og vísað mér á dyr,“ skrifar Jón.

Jón vísar þarna til viðtalsins en hann er sagður hafa verið staðinn að verki við að brjóta 18 þúsund krónu koníaksglös áður en hann galaði: „Mig vantar kvenmann!“ rétt eins og Jón lýsir sjálfur. Undir þessa frásögn tekur stúlkan sem þá var undir lögaldri, undir nafni.

Jón víkur þá að öðrum ásökunum í hans garð og, aftur, eru þær allar uppspuni frá rótum. Öllu alvarlegra, segir Jón, er að falskar ásakanir í hans garð grafa undan trúverðugleika ásakana um „raunverulegt kynferðisofbeldi.“ Tiltekur Jón Baldvin sérstaklega nauðganir, heimilisofbeldi og kúgun á vinnustöðum, sem „raunverulegt kynferðisofbeldi.“

Pistli sínum lýkur Jón svo á varnaðarorðum til Íslendinga:

Er svo komið málum í okkar þjóðfélagi, að við stöndum uppi varnarlaus frammi fyrir skipulagðri aðför að æru og heiðri, af hálfu fólks, sem af ýmsum ástæðum er heltekið af hatri og hefndarhug? Mínu mannorði í þetta sinn, þínu kannski á morgun.

Ætlum við virkilega að láta þetta yfir okkur ganga? Eða lifir enn vonin – þótt á veiku skari sé – um að leita megi réttlætis frammi fyrir óháðum dómstólum?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki