fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Gunnar Bragi vill fá að sjá bóluefnasamningana – „Það voru mistök að treysta Evrópusambandinu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 13. janúar 2021 13:00

Gunnar Bragi Sveinsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það blasir hins vegar við öllum að það voru mistök að treysta Evrópusambandinu fyrir hagsmunum Íslendinga í þessu máli í stað þess að gera sjálfstæða samninga eða í það minnsta tryggja varaleið og semja sjálfir við framleiðendur bóluefna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður og formaður þingflokks Miðflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

Ljóst er að Gunnar lítur svo á að þessi meintu mistök geti orðið íslensku efnahagslífi mjög dýrkeypt því ef marka má orð Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þá verður bólusetningum ekki lokið fyrr en seint á árinu, miðað við stöðuna eins og hún lítur út nú. „…þá eru áætlanir ríkisins, líkt og fjármálaáætlun og fjárlög, lítils virði og kórónukreppan dregst á langinn með tilheyrandi kostnaði og þjáningu fyrir landsmenn,“ segir Gunnar í grein sinni.

Gunnar rekur í stuttu máli ástæður þess hve illa hafi tekist til hjá ESB að afla nægilegs magns bóluefnis nógu hratt:

„Ef marka má erlenda fjölmiðla þá virðist vandi ESB m.a. vera sá að þeir sem ábyrgðina báru stóðu ekki undir henni. Því voru of litlir fjármunir til reiðu til bóluefnakaupa og of seint farið af stað. Einnig hefur komið fram að lönd innan ESB héldu „sínum fyrirtækjum“ á lofti og settu kvaðir um að kaupa af þeim þó langt sé í afhendingu þeirra lyfja. Að endingu var skrifræðið enn einu sinni ESB til trafala á meðan Bretar gátu einfaldlega flýtt sínu ferli og samþykkt lyfin.“

Gunnar hefur kallað eftir því að fá afhenta bóluefnasamninga:

„Undirritaður hefur kallað eftir því að fá afhenta þá samninga sem gerðir hafa verið um kaup á bóluefnum. Beiðni um það barst heilbrigðisráðuneytinu 4. janúar sl. Líklega eru
þetta miklir og langir samningar því langan tíma virðist taka að skanna þá inn og senda. Nú kann að vera að samningarnir séu staðlaðir af hálfu ESB og í þeim sé að finna
ákvæði sem á einhvern hátt festa stjórnvöld í ferlinu og ef svo er þá er þeim mun athyglisverðara að stjórnvöld skrifi undir slíkt. Sérstaklega í ljósi þess að Íslendingar eru ekki aðilar að ESB og ættu að hafa tækifæri til þess að gæta að eigin hagsmunum.

Stjórnvöld verða nú þegar að upplýsa allt er varðar afhendingartíma lyfjanna og hvenær bólusetningu verður lokið. Ef það er rétt sem fram hefur komið hjá okkar helstu sérfræðingum, t.d. Kára Stefánssyni, að bólusetningum verði ekki lokið fyrr en seint á árinu þá eru áætlanir ríkisins, líkt og fjármálaáætlun og fjárlög, lítils virði og kórónukreppan dregst á langinn með tilheyrandi kostnaði og þjáningu fyrir landsmenn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt