Laugardagur 06.mars 2021
Eyjan

Egill og Biggi lögga deila um mikilvægi bóluefnis fyrir Íslendinga – „Hlægilegt að ætla að slá sig til riddara góðmennskunnar“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 12. janúar 2021 19:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein áleitnasta spurning þessara daga sem nú fara í hönd er sú hvenær nægilegt bóluefni gegn kórónuveirunni kemur hingað til lands svo hægt verði að ná hjarðónæmi með bólusetningum. Eftir það væri hægt að aflétta öllum samkomutakmörkunum hér á landi og umfram allt opna landið fyrir ferðamönnum án takmarkana á landamærum, því þjóðin væri orðin ónæm fyrir veirunni. Ísland er í samfloti með Evrópusambandinu varðandi bóluefnakaup og miðað við stöðuna eru ekki horfur á því að nægilegt bóluefni berist á landinu fyrir árslok, hvað þá fyrir vorið.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefásson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, freista þess nú að afla nægilegs bóluefnis frá Pfizer í gegnum framkvæmd rannsóknar á framgangi hjarðónæmis og áhrifa afléttingar sóttvarnatakmarkana í takt við bólusetningar. Staðan í viðræðum þeirra félaga við Pfizer er óljós.

Fjölmiðlamaðurinn þekkti, Egill Helgason, viðrar það sem hann kallar óvinsæla skoðun í málinu, í eftirfarandi pistli sínum á Facebook:

„Þetta er kannski ekki vinsæl skoðun en ég fæ ekki séð að við Íslendingar eigum sérstakt tilkall til að vera á undan öðrum þjóðum varðandi bólusetningu við kóvíd. Það hefur sýnt sig að með góðu skipulagi og innviðum höfum við getað haldið faraldrinum í skefjum. Margar þjóðir hafa þurft að grípa til miklu harðari aðgerða. Nú er ástandið hér gott meðan neyð ríkir víða annars staðar– við eigum að geta haldið því þannig með því gæta landamæranna vel. Þar finnst manni reyndar að pólitíkin dragi aðeins lappirnar miðað við tillögur sóttvarnalæknis. Auðvitað væri gott að fá bólusetningu sem fyrst. En þetta tal um okkur og bólusetninguna – það er svolítið eins og það byggi á gömlu hugmyndinni að Íslendingar séu nú svo sérstök þjóð og eigi þetta einhvern veginn frekar skilið en aðrir…“

Birgir Guðjónsson, sem þekktur er undir nafninu Biggi lögga, er ekki sammála Agli og svarar honum. Biggi bendir á að þjóðin sé það fámenn að bóluefnaþörfin sé magnlega mjög lítil í heildarsamhenginu:

„Í heildarfjölda framleiddra skammta er nánast hlægilegt að ætla að slá sér til riddara góðmennskunnar og segja að einhver annar megi fá skammtinn á undan. Ef við, þessi örþjóð norður í ballarhafi, getum fengið þessa nokkurþúsund skammta aðeins fyrr en t.d. betur borgandi þorp í Bandaríkjunum í þágu vísindanna þá sé ég ekkert að því að þyggja það. Og fyrir utan visindalegan ávinning er félagslegur og hagrænn ávinningur gífurlegur miðað við það litla magn sem við þurfum. Við erum í þeirri stöðu að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil, hagkerfi, heilbrigðiskerfi, félagslegt kerfi og alla þá innviði sem þarf í sjálfstætt þjóðfélag sem er umlukið engu öðru en hafinu sjálfu. Þessir örfáu skammtar munu því miður ekki fara til fátækari landa eða landa þar illa gengur. Þannig gerast kaupin bara ekki á eyrinni. Ef svo væri þá væri þessi barátta og meint kurteisi verðug.“

Egill svarar þessu og ítrekar að hann telji Íslendinga enga kröfu eiga á að vera á undan öðrum í bóluefnakapphlaupinu:

„Ef menn telja það vera í þágu vísinda að sprauta þessa þjóð með bóluefni, þá er það bara gott og blessað, annars eigum við enga sérstaka kröfu á að vera á undan öðrum – enda mannslífið varla verðmætara hér en í bænum í Bandaríkjunum eða t.d. Suður-Afríku þar sem veiran grasserar nú af áður óþekktum krafti og fjöldi fólks er að deyja.“

Birgir bendir hins vegar á að hver sé sjálfum sér næstur, það sé mannlegt eðli:

„Hvert mannslíf er vissulega jafn dýrmætt, nema þegar kemur að manni sjálfum og þeim sem standa manni næst. Það er bara eðli okkar að líta veröldina þannig. Og aftur, það er harla óliklegt, því miður, að þessir skammtar færu þá hraðar til Suður Afríku. En já, þessi umræða snýr engu að síður aðallega og nær engöngu að vísindalegum ávinning. Þar græða vonandi allir.“

Sú ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að leita ekki annarra leiða til öflunar bóluefnis meðfram samfloti með ESB, þjóðasambandi sem Íslendingar eru ekki aðilar að, hefur vakið harða gagnrýni. Í pistli á vef Hringbrautar er krafist afsagnar heilbrigðisráðherra vegna málsins. Þar segir meðal annars:

„En heilbrigðisráðherra hefur haldið innkaupum bóluefnis í heljargreipum ráðuneytisins til þess að geta stýrt þessu sjálf. Um hreint fúsk hefur verið að ræða enda eru starfsmenn ráðuneytisins eða ráðherrann ekki með neina þekkingu á stórinnkaupum eða á lyfjamarkaði í heiminum. Þetta fólk þekkir væntanlega einungis til innkaupa fyrir venjuleg heimili. Það er fáránlegt að umboðsfyrirtækjum lyfjaframleiðendanna á Íslandi hafi ekki verið hleypt að borðinu til að sjá um þessi innkaup og nýta þekkingu og viðskiptasambönd sín til hagsbóta fyrir íslenska þjóð þegar svo mikið liggur við.“

 

Þess má geta að fjölmargir taka þátt í líflegum umræðum undir pistli Egils Helgasonar á Facebook. Lesa má það allt með því að smella á tengilinn hér að neðan:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“

Ólga hjá fjölmiðlum í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi blandar sér í málið – „Ekki nota Olgu og hennar lífsviðurværi sem svipu!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sagan um saklausa símtalið

Sagan um saklausa símtalið