fbpx
Laugardagur 16.janúar 2021
Eyjan

Ávarp forseta Íslands: Þurfum bjartsýni en ekki skýjaborgir

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 1. janúar 2021 15:04

Guðni Th. Jóhannesson. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta var nú meira árið, þetta ár sem nú er liðið í aldanna skaut. „Og aldrei það kemur til baka,“ syngjum við gjarnan á gamlárskvöldi. Eflaust fögnuðu mörg okkar þeirri laglínu sérstaklega í þetta sinn. Ársins verður án efa minnst fyrir veiru og veikindi, sóttvarnir og búsifjar,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í nýársávarpi sínu til landsmanna á RÚV.

Forsetinn fór yfir ýmis áföll á árinu og minnti í leiðinni á að það hafi verið ýmislegt fleira en kórónuveirufaraldurinn sem herjaði á okkur: „Fleira var þungbært. Snemma árs féllu snjóflóð vestra, í sumar varð mannskæður bruni í Reykjavík, nú eru okkur í fersku minni skriðuföllin miklu áSeyðisfirði og er þá ekki allt talið.“

Hann sagði jafnframt að ársins yrði ekki síður minnst fyrir seiglu og þrek landsmanna en áföllin sem dunið hafa á samfélaginu:

„Saman mættum við mótbyr. Oft gafst því ástæða til að þakka mikilsverð störf fólks í þjóðarþágu. Það gerði ég síðast á fullveldisdaginn, kvaðst þá myndu nefna farsóttina sem minnst í þessu nýársávarpi en horfa frekar fram á veg. Þó læt ég ekki hjá líða hér og nú að ítreka þakkir til heilbrigðisliðs landsins, til starfsfólks í skólum okkar, verslun og þjónustu, til lögreglu og slökkviliðs, landhelgisgæslu og björgunarsveita, til allra sem við reiðum okkur á þegar vá steðjar að.

Einnig lofa ég áfram þá samstöðu og samkennd sem almenningur sýndi ‒ og sýnir enn. Ársins verður ekki síður minnst fyrir seiglu og þrek landsmanna, og þar gengu eldri borgarar okkar einatt á undan með góðu fordæmi. Margt megum við, hin yngri, læra af þeim sem reynt hafa sitthvað á langri ævi.“

Forsetinn horfir bjartsýnn til framtíðar vegna tilkomu bóluefnis gegn COVID-19 auk þess sem þjóðin standi betur að vígi í glímunni við náttúruöflin eftir að hafa tekist á við áföll liðins árs, fyrir svo utan auðlindirnar sem við búum yfir annars vegar úr náttúrunni en hins vegar í atgervi æskufólks okkar:

„Og nú er nýtt ár runnið upp. Dagur er að rísa, með birtu og yl. Senn fær þjóðarskútan vind í seglin, um það er ég handviss. Bóluefnið er lent, bjargræði sem við þurfum að koma áfram hingað til lands með öllum tiltækum ráðum. Þessi lausn á ærnum vanda er öflugur vitnisburður um gildi alþjóðasamvinnu, um gildi vísinda og þekkingar þegar rétt er á málum haldið.

Nú stöndum við líka betur að vígi í glímu okkar við náttúruöflin en fyrr á tíð. Það segir sína sögu að allmörg undanfarin ár hefur enginn sjómaður drukknað við Íslandsstrendur. Ekki er langt síðan við urðum að una því að fjöldi manns hlyti vota gröf á hverju ári.

Áfram getur landið verið óblítt, satt er það. En samt er það gjöfult og gott. Saman eigum við ríkar auðlindir til sjávar, sveita og heiða. Þær þurfum við að nýta áfram á sjálfbæra og vistvæna vegu. Svo eru óröskuð víðerni auðlind á sinn hátt, bæði í augum okkar sjálfra og ferðamanna sem munu streyma hingað á ný þegar aðstæður leyfa. Tímabundin fjarvera þeirra gefur okkur jafnframt tækifæri til að ígrunda vel og undirbúa hvernig við viljum helst taka á móti erlendum gestum ár af ári, í góðri sátt við land og þjóð.

Eins ríkar eru auðlindir hugar og handar. Já, ég er handviss um að við fáum byr í seglin, og eins viss er ég um að það sem mun fleyta okkur áfram á þessari öld er hugvit og nýsköpun. Hvarvetna þurfum við hugarorkufrekan iðnað,  virkjun mannsandans! Við þurfum hugvit og nýsköpun í landbúnaði og útvegi, okkar gamalgrónu greinum, hugvit og nýsköpun í ferðaþjónustu og orkunýtingu, hugvit og nýsköpun á sviðum sem við þekkjum ekki endilega núna en ungmenni samtímans munu gera að sínum fyrr en varir ‒ ungmenni sem hafa um stundarsakir búið við gerbreytt skólastarf, skertar tómstundir og annan ama en staðið sig með sóma. Gangi ykkur áfram vel, glæsilegu fulltrúar framtíðarinnar.“

Í lok ávarp síns sagði forsetinn að við þurfum bjartsýni en ekki skýjaborgir, bjartsýni byggða á raunsæi. Stuttist hann þar við ljóð eftir skáldið Gyrði Elíasson:

„Í Hugarfjallinu yrkir Gyrðir Elíasson fallega um bata og batavon. Ég les ljóðið líka þannig að það snúist um bjartsýni byggða á raunsæi – og einmitt það finnst mér íslensk þjóð þurfa við þessi tímamót, ekki skýjaborgir en því síður drunga og deyfð. Það er bjart fram undan. Um leið og ég árna ykkur öllum heilla fyrir hönd okkar Elizu læt ég kvæðið Bata vera lokaorð þessa ávarps á þessum fyrsta degi nýs árs:

Að koma
hægt
inn í birtuna

Einsog að
leggja frá
sér vasaljós
á döggvotu
túni um nótt
að haustlagi

Og stíga
hikandi
inn í geislann.

 

 

Útsending ávarpsins er ekki tiltæk á vef RÚV þegar þetta er skrifað en afrit af ávarpinu í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sparnaður Svandísar sagður lífshættulegur – „Hvernig verðmetum við líf yfir 30 kvenna?“

Sparnaður Svandísar sagður lífshættulegur – „Hvernig verðmetum við líf yfir 30 kvenna?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Leiðarahöfundur Moggans kennir RUV um lokun fréttatíma Stöðvar 2

Leiðarahöfundur Moggans kennir RUV um lokun fréttatíma Stöðvar 2
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Brynjar blandar sér í ritskoðunar-umræðuna – „Þetta er örugglega heimsmet í tvískinnungi og hræsni“

Brynjar blandar sér í ritskoðunar-umræðuna – „Þetta er örugglega heimsmet í tvískinnungi og hræsni“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Einlægur ráðherra opnar sig – „Ég ákvað að hætta að gráta í skól­an­um. Það var virki­lega erfitt“

Einlægur ráðherra opnar sig – „Ég ákvað að hætta að gráta í skól­an­um. Það var virki­lega erfitt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Leiðari Moggans vekur úlfúð – „Enginn sætt öðru eins einelti og Trump“

Leiðari Moggans vekur úlfúð – „Enginn sætt öðru eins einelti og Trump“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dökkar horfur í atvinnumálum – Líkur á miklu atvinnuleysi í vor

Dökkar horfur í atvinnumálum – Líkur á miklu atvinnuleysi í vor