fbpx
Miðvikudagur 28.október 2020
Eyjan

Deilurnar um Sundabraut – Mögulega önnur stórframkvæmd brýnni

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 25. september 2020 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason, sagn- og lögfræðingur, skrifar pistil í helgarblað DV sem nefnist Á þingpöllum. Í pistli vikunnar fer hann yfir deilurnar um Sundabrautina sem eru ekki eins nýjar af nálinni og margir gætu haldið.

__________________________

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri setti Sundabraut á dagskrá á dögunum þegar hann lét svo um mælt á opnum fjarfundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að sér fyndist „alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum“.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa

Ummæli seðlabankastjóra vöktu hörð viðbrögð. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, fann að því að seðlabankastjóri væri að tjá sig um Sundabraut þar sem hann væri „ekki sérfræðingur í vegagerð, borgarþróun, umhverfismálum, eða álíka“ og bætti því við að sér fyndist „eiginlega galið“ að seðlabankastjóri væri að tjá sig um brúarsmíði.

Flokkssystir Smára, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir borgarfulltrúi, hafði þetta um málið að segja:

„Hann fer að verða ansi hár staflinn af hrokafullum körlum með random sérfræði-menntun sem þykjast geta fullyrt af mikilli vissu um hluti sem eru langt utan þeirra sérfræðisviðs og sem þeir hafa í raun frekar takmarkaða þekkingu á. Án þess að nokkur hafi raunverulega beðið um þeirra álit á því máli.“ Þá velti hún því upp í Silfri Egils á sunnudaginn var hvort rétt væri að hámarkshraði á Sundabraut yrði 50 km á klukkustund. Hér kveður sannarlega við nýjan tón.

Ásgeir ræddi málið í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í kjölfar fundar efnahagsnefndar þingsins og þar kom fram að hann hefði nefnt Sundabraut sem dæmi þar sem nú væri lag að fjárfesta í samgöngukerfinu vegna þess að vextir væru lágir, lægð í efnahagslífinu og ríkissjóður gæti því fengið mun hagstæðari tilboð í verkið en fyrir fáeinum misserum. Um væri að ræða fjárfestingu sem yki framleiðslugetu hagkerfisins og myndi nýtast til langs tíma.

Gömul hugmynd

Hugmyndin um Sundabraut kom fram fyrir bráðum hálfri öld en talsvert hefur verið deilt um útfærslu, innri og ytri leið svokallaða, og eins hvort grafin skuli jarðgöng. Markmiðið með Sundabraut er að stytta ferðatíma til og frá höfuðborginni, sér í lagi vestur á land, upp á Akranes og inn í Grundartangahöfn. Þá myndi Sundabraut bæta flæði umferðar á höfuðborgarsvæðinu og öryggi, meðal annars ef hættuástand skapast þannig að rýma þurfi borgina.

Nú liggur öll umferð austur og norður úr borginni um Ártúnsbrekku „í einni trekt“. Með Sundabraut gæti atvinnusvæði Reykjavíkur stækkað og orðið heildstæðara. Þar á meðal yrði hægt að hefja stórfellda atvinnuuppbyggingu í Gufunesi og Álfsnesi þar sem finna má mikið vannýtt landsvæði en vegtengingar skortir.

Margt óklárað

Sundabraut yrði þjóðvegur í þéttbýli og því á forræði ríkisvaldsins, þó svo að Reykjavíkurborg fari með skipulagsvaldið og taki endanlega ákvörðun um framkvæmdina. Ýmsir fleiri þjóðvegir í þéttbýli hafa verið á skipulagi lengi en ekki verið lokið við.

Áður fyrr var gert ráð fyrir svokallaðri Fossvogsbraut sem var hugsuð sem stofnbraut þvert í gegnum Fossvogsdalinn. Hún átti að tengjast öðrum þjóðvegi suður fyrir Öskjuhlíð, svokölluðum Hlíðarfæti, og liggja í austur, suður með Elliðaám, alla leið inn á Vesturlandsveg. Ekkert mun verða af þessum framkvæmdum en vegtengingin suður fyrir Öskjuhlíð var eitt skilyrða þess að Landspítalanum yrði komið fyrir við Hringbraut — enda má öllum ljóst vera að Kringlumýrarbraut og Miklabraut eru fyrir löngu sprungnar á álagstíma.

Brú yfir Skerjafjörð

Þetta leiðir hugann að annarri framkvæmd sem ætti að getað sameina sjónarmiðin um þéttingu byggðar miðsvæðis og greiðari umferð bíla um borgarlandið, en það er brú yfir Skerjafjörð. Sú hugmynd hefur raunar aldrei komist formlega inn á skipulag en dr. Trausti Valsson skipulagsfræðingur og Gestur Ólafsson, skipulagsfræðingur og arkitekt, komu fram með þessa hugmynd fyrir bráðum hálfri öld.

Skerjafjörðurinn er örgrunnur og brú í framhaldi af Suðurgötu og yfir á Álftanes yrði því að mestu leyti á uppfyllingum.

Með brú á þessum slóðum mætti skapa hringtengingu á höfuðborgarsvæðinu: Tengja stóru íbúðasvæðin í Garðabæ og Hafnarfirði við atvinnusvæðin miðsvæðis í Reykjavík, en um leið byggja upp stórt íbúðahverfi miðsvæðis á Álftanesi. Brúarmannvirki á þessum stað myndi létta verulega á Miklubraut og Kringlumýrarbraut og auka öryggi. Því miður hefur þessi tillaga lítt komist á dagskrá og að líkindum ræður þar mestu skipting höfuðborgarsvæðisins í lögsagnarumdæmi: Skipulagsmálin á svæðinu hafa ekki verið hugsuð nægilega í heild sinni — þvert á landamæri sveitarfélaga.

Jafnvel hagkvæmari en Sundabraut

Nefnt hefur verið að Sundabraut henti vel í einkaframkvæmd, enda hafa notendur val um annan kost. Sömu sögu er að segja af Skerjafjarðarbrú — eða Skerjabraut — sem myndi tengjast í norðri inn á Suðurgötu og suðri við Álftanesveg. Hér væri mögulega kominn fram fjárfestingarkostur sem gæti breikkað eignasafn lífeyrissjóða landsins: Þeir fengju þá tækifæri til fjárfestinga í innviðum. Fyrir liggur að Skerjabraut yrði mun einfaldara mannvirki í framkvæmd en Sundabraut, sem þyrfti annaðhvort að fara um hábrú eða jarðgöng, og því vel þess virði að kostir hennar yrðu kannaðir til hlítar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sakar fólk um að tengja allt lögreglufólk við rasisma – „Óhugnanlegt að sjá hvernig ráðist er á konuna“

Sakar fólk um að tengja allt lögreglufólk við rasisma – „Óhugnanlegt að sjá hvernig ráðist er á konuna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir frítt áfengi vera ástæðuna fyrir því að borgarstarfsmenn vilja aðstöðu á Vinnustofu Kjarvals – „Svarið er Hennessy VSOP“

Segir frítt áfengi vera ástæðuna fyrir því að borgarstarfsmenn vilja aðstöðu á Vinnustofu Kjarvals – „Svarið er Hennessy VSOP“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Ingi segir skrifstofufólk hafa leyft opnun líkamsræktarstöðva

Björn Ingi segir skrifstofufólk hafa leyft opnun líkamsræktarstöðva
Eyjan
Fyrir 1 viku

Katrín segir almenning hafa verið svikinn – „Hrægammar sem græða svo á neyðinni“

Katrín segir almenning hafa verið svikinn – „Hrægammar sem græða svo á neyðinni“