fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Eyjan

Lífróður Trump: Tölfræðin bendir til vaktaskipta í Hvíta húsinu í janúar

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 23. júní 2020 08:30

Skjáskot/270towin.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vinalisti Donalds Trumps Bandaríkjaforseta styttist að því er virðist með hverjum deginum um þessar mundir. Hafa ýmsir framamenn í Repúblikanaflokknum auk hershöfðingja og embættismanna snúið baki við forsetanum með opinberum hætti.

Af fyrrum samstarfsmönnum forsetans sem vinna nú gegn baráttu hans um endurkjör fer mest fyrir John Bolton. Birtir hann í óútkominni bók sinni sláandi frásagnir af vafasömum embættisfærslum og vanhæfni Trumps. Einnig má nefna hershöfðingja sem hafa talað opinskátt gegn aðgerðum forsetans og forsetanum sjálfum en slíkt heyrði til algjörra undantekninga áður fyrr og hefur aldrei sést í þessum mæli. Hershöfðingjarnir Colin Powell, James „Mad Dog“ Mattis, Kelly, Milley, Allen, Myers, Dempsey, Thomas, Hayden, McRaven, Stavridis og Mullen hafa allir viðrað neikvæðar skoðanir sínar á forsetanum.

Forskot Biden eykst til muna

Skoðanakannanir hafa sveiflast frá Trump og stuðningur við forsetaefni Demókrata, Joe Biden, aukist til muna á sama tíma. Birtir Nate Silver, stofnandi stjórnmálaskýringasíðunnar 538, í dag samantekt skoðanakannana sem bendir til 9% forystu Biden. Eins og glöggt áhugafólk um bandarísk stjórnmál þekkir skipta skoðanakannanir á landsvísu litlu máli enda baráttan háð á ríkjavísu um kjörmenn. Þarf 270 kjörmenn til að sigra og mælist Biden með öruggan eða líklegan stuðning hjá 248 þeirra og vantar því aðeins 22 til að tryggja sér sigur. Trump á vísan stuðning 204 kjörmanna og vantar því talsvert meira uppá eða 66.

Augu framboðanna beinast því helst að þeim ríkjum þar sem forsetaefnin geta sótt sér þá kjörmenn sem uppá vantar með sem minnstum tilkostnaði. Þau ríki eru Arizona, Wisconsin, Pennsylvania, Norður Karólína og Flórída.

Sveifluríkin fimm

Trump hefur lítið gert til þess að vingast við kjósendur þessara ríkja undanfarið og ýmsar uppákomur á kjörtímabilinu vinna gegn honum. Til dæmis eru kjósendur í Arizona (11 kjörmenn) minnugir kergjunnar á milli Johns McCain, öldungadeildarþingmanns ríkisins, og Trumps. McCain lést á kjörtímabilinu en áður hafði McCain gefið það opinberlega út að hann vildi ekki að Trump yrði viðstaddur útför sína. McCain var gríðarlega vinsæll í ríkinu og á milli hans og Biden ríkti vinskapur úr öldungadeildinni sem líklegt er að Biden reyni að nýta sér í baráttunni.

Norður Karólína (15 kjörmenn) er suðurríki sem Hillary Clinton sigraði í kosningunum 2016, þó með aðeins um 3% mun. Hlutfallslega margir íbúar í ríkinu eru svartir sem eru talsvert líklegri til þess að styðja Biden. Sá stuðningur er þó ólíklegri til þess að skila sér í kjörkassann enda minnihlutahópar ólíklegri til þess að mæta á kjörstað. Það er því viðbúið að framboð Biden muni leggja höfuðáherslu á að koma þessum atkvæðum á kjörstað í nóvember.

Wisconsin (10 kjörmenn) og Pennsylvania (20 kjörmenn) eiga það sameiginlegt að vera dreifbýl ríki en með fjölmennar borgir inn á milli víðáttumikilla sveita. Borgirnar hafa í fyrri kosningum hallað að Demókrötum en sveitirnar að Repúblikönum. Í síðustu kosningum sigraði Trump Wisconsin með 0.77% atkvæða og Pennsylvania með 0.72%. Það er því ljóst að Trump má ekki við miklu á þessum vígvöllum.

Flórída (29 kjörmenn) hefur oftar en ekki verið sökudólgur mikillar óreiðu í kosningum og kosningabaráttum. Fylkið er viðáttumikið með þéttum sveitum og sterkar rætur til íhaldssamrar hugmyndafræði suðursins. Aftur á móti eru í Flórída einnig stórar borgir með stórum frjálslyndum háskólum og fjölmennum og áhrifamiklum minnihlutahópum. Má þar nefna Orlando, Gainesville, Tallahassee og auðvitað Miami. Þangað mun Biden sækja sinn stuðning. Donald Trump hefur eytt miklum frítíma sínum í ríkinu og á þar eignir þar sem hann dvelur. Trump gjörsigraði forval Repúblikana árið 2016 og sigraði Clinton með 1.2%. Þar, sem víðar, munu úrslitin ráðast á kosningaþátttöku minnihlutahópa.

Lífróður Trump

Biden myndi nægja það eitt að krækja í Flórída eða eitthver tvö önnur sveifluríki til að ná sér í þá kjörmenn sem upp á vantar. Trump aftur á móti þarf sigur í Flórída auk þriggja annarra sveifluríkja, eða að tapa Flórída en ná öllum hinum fjórum.

Ef líklegar sviðsmyndir eru settar upp og miðað við nýlegar og áreiðanlegar skoðanakannanir bendir mikill meirihluti mögulegra úrslita til sigurs Biden.

 

Fréttin birtist fyrst í helgarblaði DV.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“