Lítil dós af Carlsberg bjór kostar nú 188 krónur, en kostaði 289 krónur áður. Lækkunin nemur 37 prósentum. Morgunblaðið greinir frá. Haft er eftir Guðmundi Pétri Ólafssyni, sölu- og markaðsstjóra Ölgerðarinnar í Morgunblaðinu í dag að þetta sé gert í ljósi þeirra sérstöku tíma sem nú séu uppi.
Hinsvegar er það einnig haft eftir Guðmundi að krónutala bjórverðsins sé vísun í ártalið 1880, þegar vísindamaðurinn Emil C. Hansen er sagður hafa umbylt bruggaðferðum lagerbjórs á rannsóknarstofu Carlsberg og deilt með öðrum bruggmeisturum.
Guðmundur segist eiga von á góðum viðbrögðum við tilboðinu og nefnir að framleiðslan hafi verið aukin verulega miðað við sama tíma í fyrra, en Carlsberg sé með um 1.5% hlutdeild af markaði hér og sé meðal 20 söluhæstu tegunda ríkisins.
Töluverð aukning hefur orðið í sölu áfengis í verslunum ÁTVR eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst.
Þess skal beint til lesenda að fara varlega í neyslu áfengis nú sem endranær, ekki síst ef börn eru á heimilinu.