Sem kunnugt er þá hafa yfirvöld sett saman smitrakningarforrit sem gerir þeim kleift að hafa meiri yfirsýn yfir þá sem eru smitaðir, en hægt er að greina ferðir þeirra með appinu, og sjá hvort þeir hafi verið nálægt ósmituðum og öfugt.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lofar appið fyrir verndun persónugreinanlegra upplýsinga, en telur að ýmislegt megi þó betur fara:
„Ég setti upp smitrakningarforrit Almannavarna. Nýju persónuverndarlögin eru mjög góð hvað þetta varðar. Án þeirra hefði ég ekki komið nálægt þessu. Það eru nokkur atriði sem vantar upp á, eins og að kóðinn sé opinn. Aðallega til þess að hægt sé að skoða hvernig gögnin eru meðhöndluð yfir netið. Það væri öruggara ef ekki væri hægt að senda þau beint úr appinu heldur þyrfti notandi að vista þau og senda í aðskildu ferli. Það myndi gera vinnuna í kringum gagnavinnslu aðeins meiri en öruggari gagnvart notanda. Varnaglarnir eru hins vegar góðir og deiling gagna krefst samþykkis.“
Björn Leví bætti við í samtali við Eyjuna að betra hefði verið að nota Bluetooth tengingu í stað GPS:
„Ég var að pæla í hlutum eins og af hverju þarf að nota GPS. Af hverju ekki bara Bluetooth til dæmis þar sem nást betri upplýsingar um hvaða aðra síma viðkomandi „hittir“. Það skiptir í raun minna máli nákvæmlega hvar viðkomandi er (og því síður þörf á GPS) en meira máli hverja viðkomandi hittir. Af hverju er svo valið að geta beðið um gögnin í gegnum netið? Það býður upp á „bakdyr“
segir Björn Leví og spyr einnig hverjir séu ábyrgir fyrir því að fylgjast með notkun gagnanna og hvort virkt gæðaeftirlit sé með samkeyrslu gagnanna.“