fbpx
Laugardagur 04.apríl 2020
Eyjan

Sóley sakar Vigdísi um popúlisma: „Borgarfulltrúinn virðir hvorki valdmörk sín né hlutverk“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 28. febrúar 2020 19:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi forseti borgarstjórnar Reykjavíkur, ritar harðorða grein á Vísir.is í dag sem fjallar um popúlisma. Sóley segir að uppgangur popúlisma byggist á sjálfumglöðum og ósvífnum einstaklingum sem skilgreini meinta elítu og ali á tortryggni gagnvart henni. Donald Trump Bandaríkjaforseti sé fullkomið dæmi. Sólveig skrifar:

„Aðferðin er í grunninn einföld. Hann varpar kerfisbundið rýrð á opinberar stofnanir, gefur til kynna að þær séu í raun hin spillta elíta, og þar með fjarlægir hann sjálfan sig frá sama stimpli – hann er svarið við spillingunni, það er hann sem kjósendur eiga að setja traust sitt á en ekki kerfið sem er samansett af spilltu stjórnmála- og embættisfólki sem blekkir og lýgur að almenningi.“

Sóley víkur síðan að popúlisma á Íslandi og tekur þar fyrir ónefndan borgarfulltrúa. Ljóst er af lýsingunum að hún á þar við Vigdísi Hauksdóttur, borgarfulltrúa Miðflokksins. Vigdís hefur gengið gífurlega hart fram í gagnrýni á störf meirihluta borgarstjórnar og gagnrýnt jafnt borgarfulltrúa sem embættistmenn borgarinnar. Skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra hefur kært Vigdísi fyrir einelti. Þess má geta að Vigdís opnaði umræðu um braggamálið haustið 2018 sem DV fór síðan ofan í saumana á en þar var um að ræða framúrkeyrslu upp á hundruð milljarða.

Vigdís Hauksdóttir

Lýsing Sóleyjar á borgarfulltrúanum er eftirfarandi:

Í Borgarstjórn Reykjavíkur eru þó raunverulegar blikur á lofti þar sem framganga eins borgarfulltrúa minnir óþægilega á sjálfumglaða leiðtoga popúlismans erlendis. Gífuryrði um neyðarástand, spillingu, blekkingar, lögbrot, lygar og pretti borgarfulltrúa eru daglegt brauð, sett fram á óheflaðan og óvandaðan hátt og oft fullkomlega óháð sannleiksgildi. Því til viðbótar er starfsfólk borgarinnar smánað, tortryggt og sakað um vanhæfni og spillingu á opinberum vettvangi án þess að það eigi möguleika á að bera hönd fyrir höfuð sér.

Borgarfulltrúinn virðir hvorki valdmörk sín né hlutverk, sem felst í stefnumótun og ákvarðanatöku í samstarfi við aðra kjörna fulltrúa. Henni ber að beina gagnrýni sinni að samstarfsfólki sínu á vettvangi borgarstjórnar en ekki starfsfólks sem hefur það eina hlutverk að framfylgja ákvörðununum. Enn síður skeytir borgarfulltrúinn um þá staðreynd að málfrelsi hennar er meira en embættisfólks sem verður að gæta hlutleysis til að geta unnið með kjörnum fulltrúum allra flokka. Eini möguleikinn sem þau hafa er að senda erindi til forsætis- og/eða siðanefndar. Að grípa til varna á opinberum vettvangi myndi rýra trúverðugleika þeirra og setja þau í mjög erfiða stöðu gagnvart öllum kjörnum fulltrúum, bæði nútíðar og framtíðar.

Almennt viðkvæði við framgöngu borgarfulltrúans er að gera grín að óhefluðu orðfæri, gífuryrðum og rökleysu. Að afskrifa hana sem einhvers konar furðufugl. Vissulega gefur hún tilefni til slíks, þó betur færi á því að brugðist væri af alefli við þessum markvissu og öguðu popúlísku vinnubrögðum. Fyrir henni vakir það eitt að grafa undan trausti almennings gegn opinberum stofnunum og hrekja starfsfólk úr stjórnkerfinu svo hægt verði að fylla stöðurnar með fólki sem henni er þóknanlegt að afloknum næstu kosningum. Skilgreina elítu og almenning og skapa gjá sem hún ein getur brúað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta ætlar Hafnarfjarðarbær að gera vegna Covid 19 – Aðgerðir bæjarstjórnar samþykktar

Þetta ætlar Hafnarfjarðarbær að gera vegna Covid 19 – Aðgerðir bæjarstjórnar samþykktar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þingmaður Samfylkingarinnar segir erfitt að hlýða Víði – „Hlýðninni eru takmörk sett“

Þingmaður Samfylkingarinnar segir erfitt að hlýða Víði – „Hlýðninni eru takmörk sett“