fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Meirihlutinn svarar Guðmundi með yfirlýsingu -„Rangt sem haldið er fram að starfslokin tengist snjóflóðunum“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 28. febrúar 2020 17:23

Guðmundur við ráðhúsið á Ísafirði. Mynd: Ágúst G. Atlason / gusti.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er rangt sem haldið er fram að starfslokin tengist snjóflóðunum á Flateyri og Súgandafirði og það er rangt að bæjarstjóri hafi átt að vera strengjabrúða bæjarstjórnar;“

segir í yfirlýsingu frá meirihlutanum á Ísafirði í kjölfar viðtals Guðmundar Gunnarssonar, fyrrverandi bæjarstjóra, við Mannlíf í dag. Þar er hann sagður hafa brotið heiðursmannasamkomulag sem hann sjálfur hafi stungið upp á, en hann sakaður um ómálefnalega umræðu, sem skaði sveitarfélagið og það verði ekki látið hjá líða.

Er einnig vitnað í sveitarstjórnarlög þar sem kveðið er á um að sveitarstjórn megi ráða sér framkvæmdastjóra sem annist framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar:

„Ef framkvæmdastjóri sveitarfélagsins hefur aðra sýn á rekstur, stefnumótandi sýn eða stjórnun sveitarfélagsins en lýðræðislega kjörnir fulltrúar þá er ljóst að leiðir þurfa að skilja.“

Þá segir einnig að leitt sé ef Guðmundur hafi ekki skilið í hverju starfið fólst:

„Ef marka má síðari frásagnir Guðmundar virðist sem hann hafi í upphafi ekki gert sér ljóst hvert stjórnsýslulegt eðli starf bæjarstjóra er og að það hafi ekki uppfyllt persónulegar væntingar hans. Það er leitt til þess að vita. Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur verið samstíga í störfum sínum frá upphafi kjörtímabilsins. Það á einnig við um þá ákvörðun að ráða ópólitískan bæjarstjóra. Öllum ummælum um annað er vísað til föðurhúsanna. Við hörmum fjölmiðlaumfjöllun Guðmundar og ummæli hans um sveitarfélag okkar og samfélagið. Við vonum að þeirri umfjöllun fari að ljúka, ekki síst íbúanna vegna og þeirra krefjandi verkefna sem bíða okkar allra handan við hornið.“

Sjá nánarGuðmundur ljóstrar upp um starfslokin:„Var verið að leita að strengjabrúðu“

Yfirlýsingin í heild sinni

Á undanförnum vikum hefur talsverð fjölmiðlaumræða farið fram um starfslok Guðmundar Gunnarssonar sem bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Ekki síst hefur þessi fjölmiðlaumræða verið að frumkvæði Guðmundar sjálfs. Við gerð starfslokasamnings við Guðmund, var það hans ósk að trúnaður skyldi ríkja um ástæður starfslokanna. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti það og hefur fram að þessu virt þann samning.

Kjörnir fulltrúar sæta gjarnan gagnrýni fyrir störf sín. Það er eðlilegur fylgifiskur starfsins og í raun fagnaðarefni þegar fram fara málefnalegar umræður ekki síst þegar þær fela í sér ábendingar um úrbætur.

Þegar sú, um margt ómálefnalega umræða, sem fram hefur farið í kjölfar starfsloka bæjarstjóra, er farin að beinast að og skaða sveitarfélagið og íbúa þess verður ekki setið hjá lengur.

Guðmundur Gunnarsson ákvað sjálfur að hætta og segja skilið við sveitarfélagið þegar þörfin var hvað mest fyrir samstöðu. Ekkert fékk breytt þeirri ákvörðun hans og því skildu leiðir.

Þrátt fyrir margvíslegar sögusagnir, ekki síst frá Guðmundi sjálfum, er því rétt að leiðrétta nokkrar yfirlýsingar.
Það er rangt sem haldið er fram að starfslokin tengist snjóflóðunum á Flateyri og Súgandafirði og það er rangt að bæjarstjóri hafi átt að vera strengjabrúða bæjarstjórnar.

Það er ljóst að bæjarfulltrúar sækja umboð sitt til kjósenda. Það umboð og vald hafa lýðræðislega kjörnir fulltrúar og nota það til stefnumótandi ákvarðana fyrir sveitarfélagið. Það umboð þurfa kjörnir fulltrúar að endurnýja á fjögurra ára fresti. Þetta vald kjörinna fulltrúa er staðfest í sveitarstjórnarlögum. Þar er enn fremur kveðið á um að sveitarstjórn ráði sér framkvæmdastjóra sem annist framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar. Ef framkvæmdastjóri sveitarfélagsins hefur aðra sýn á rekstur, stefnumótandi sýn eða stjórnun sveitarfélagsins en lýðræðislega kjörnir fulltrúar þá er ljóst að leiðir þurfa að skilja.

Ef marka má síðari frásagnir Guðmundar virðist sem hann hafi í upphafi ekki gert sér ljóst hvert stjórnsýslulegt eðli starf bæjarstjóra er og að það hafi ekki uppfyllt persónulegar væntingar hans. Það er leitt til þess að vita.

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hefur verið samstíga í störfum sínum frá upphafi kjörtímabilsins. Það á einnig við um þá ákvörðun að ráða ópólitískan bæjarstjóra. Öllum ummælum um annað er vísað til föðurhúsanna.

Við hörmum fjölmiðlaumfjöllun Guðmundar og ummæli hans um sveitarfélag okkar og samfélagið. Við vonum að þeirri umfjöllun fari að ljúka, ekki síst íbúanna vegna og þeirra krefjandi verkefna sem bíða okkar allra handan við hornið.

Daníel Jakobsson

Marzellíus Sveinbjörnsson

Hafdís Gunnarsdóttir

Kristján Þór Kristjánsson

Sif Huld Albertsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt