Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skoraði á utanríkisráðherra Sádi-Arabíu að láta baráttufólk fyrir mannréttindum tafarlaust úr haldi á fundi þeirra í Genf nú síðdegis. Guðlaugur Þór tekur þátt í 43. lotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem hófst í dag. Hann átti einnig fundi með fulltrúum Sameinuðu þjóðanna og annarra ríkja.
Á fundi með Faisal Bin Farhan Alsaud, utanríkisráðherra Sádí-Arabíu, ræddi Guðlaugur Þór sérstaklega stöðu mannréttindamála þar í landi. „Ísland leiddi gagnrýni 36 ríkja á sádiarabísk stjórnvöld fyrir um ári síðan, sem vakti athygli víða um heim. Mér fannst mikilvægt að fá tækifæri til að halda þeim sjónarmiðum á lofti með beinum hætti enda er mikilvægt að geta rætt málin jafnvel þótt mikið beri á milli,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum. „Ég hvatti ráðherrann til að halda áfram úrbótum á stöðu kvenna í ríkinu og sleppa umsvifalaust baráttufólki fyrir mannréttindum sem situr í fangelsi.“
Meðfylgjandi mynd er frá fundinum.