fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Eyjan

Helgi í helgarviðtali – „Aldrei segja aldrei“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 8. nóvember 2020 20:30

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftirfarandi er helgarviðtal sem birtist 30. október í helgarblaði DV

Vindar haustsins feykja laufblöðum um götur borgarinnar og boða væntanlegar breytingar. Bráðum verður borgin skreytt jólaljósum og árið 2021 nálgast með ógnarhraða og með því alþingiskosningarnar næsta haust. Stjórnmálamenn eru því í óðaönn að þurrka rykið af kosningaloforðum sínum og pressa sparigallana til að heilla kjósendur á nýju ári. En ekki Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann hugar heldur að nýjum og spennandi tækifærum enda mun hann ekki sækjast eftir að halda sæti sínu á þingi.

Hér má sjá Playmo-skipið í bakgrunni
Mynd/Sigtryggur Ari

Á flótta í skjálfta

Það er varla hægt að hefja samtalið öðruvísi en að víkja að viðbrögðum Helga fyrir nokkru er jarðskjálfti reið yfir höfuðborgarsvæðið. Helgi stóð þá í ræðustól á Alþingi og vakti myndskeið af honum hlaupa í burtu töluverða lukku í netheimum

„Það eru nokkrir fjölmiðlamenn búnir að spyrja mig: „Hvernig var þetta?“ Þetta er til á filmu og hægt að sjá hvað gerðist þarna. Það þýðir ekkert annað en að hafa húmor fyrir þessu. Ég held að fólki finnist bara fyndið að horfa á fólk bregðast við jarðskjálftum. Það var líka gert grín að Steingrími J. fyrir að vera sallarólegur og Kötu Jak. fyrir að rétt svo bregðast við. Þetta var náttúrulega engin smásmíði þessi jarðskjálfti. Það væri áhugavert og fyndið að sjá viðbrögðin ef það væru allir landsmenn á myndbandi að bregðast við. Síðan er að koma annar, stærri, innan fárra ára,“ segir Helgi Hrafn, sem er þeim kosti gæddur að geta gert grín að sjálfum sér. Það sást bersýnilega í sjónvarpsþætti Gísla Marteins Baldurssonar næsta föstudagskvöld, þegar Helgi Hrafn skokkaði án orða í gegnum upptökuver RÚV meðan á þættinum stóð.

Helgi yfirgefur Alþingi en ekki stjórnmálin
Mynd/Sigtryggur Ari

Farinn en ekki hættur

Helgi Hrafn kveður þingstörfin á næsta ári en segist þó ekki vera að hætta á þingi. „Fólk lítur á það sem ég sé að hætta, því í venjulegu starfi þá vinnurðu þar til þú hættir. En í stjórnmálum ertu að bjóða þig fram fyrir ákveðið tímabil. Það þarf ekki breytingu til að hætta á þingi, það þarf breytingu til þess að halda áfram.

Ef þú ætlar að ráða þig til þess að skrifa bók þá myndir þú ekki segja að þú værir að hætta sem rithöfundur þegar bókin er búin. Þú bara kýst kannski ekki að skrifa nýja.“

Helgi segir að þó að hann stígi út af þingi sé hann ekki að stíga út úr stjórnmálum. „Ég verð áfram í flokknum og vonandi meira en áður. Það er ýmislegt í grasrótinni sem ég hef verið að sinna og langar að sinna meira, þá sér í lagi tæknimálum. Ég sé fyrir mér að gera meira af því.

Þingmennskan, andstætt því sem margir halda, er mjög tímafrek og óútreiknanleg. Það er rosalega erfitt að ráðstafa tíma sínum þegar maður er í þingstörfum, vegna þess að þú veist aldrei með góðum fyrirvara hvað þú þarft að gera,“ segir Helgi, en hann er sjálfmenntaður forritari.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helgi segir skilið við þingstörfin. Hann bauð sig ekki fram í kosningunum 2016 og hefur því aldrei setið á Alþingi tvö kjörtímabil í röð

„2016 var afskaplega hamingjusamt ár. Svo náttúrulega komu strax aftur kosningar og þá ákvað ég að bjóða mig aftur fram. Þá taldi ég mig vera búinn að fá minn skerf af borgaralega lífinu aftur. En svo hef ég bara dauðsaknað þess líka. Það er svo fínt að vera bara óbreyttur borgari.“

Ekki þarf þetta þó að þýða að Helgi sé farinn af Alþingi fyrir fullt og allt. „Aldrei segja aldrei,“ segir hann og bendir á að hann hafi ekki lagt í vana sinn að gera áform í lífi sínu mörg ár fram í tímann.

Helgi forritar til að slappa af
Mynd/Sigtryggur Ari

Forritun sem afslöppun

Helgi Hrafn hefur verið í sjálfboðastarfi í tæknimálum hjá Pírötum um nokkurt skeið.

„Ég forrita til að slappa af. Ég byrjaði að forrita þegar ég var barn. Ellefu eða tólf ára. Ég byrjaði þegar pabbi byrjaði að kenna mér forritun. Forritun er rosalega náttúruleg fyrir mér. Það er allt annað, held ég, að læra eitthvað svona ungur vegna þess að þá verður það bara hluti af því hvernig þú skilur heiminn, frekar en eitthvað sem þú tileinkar þér eftir á. Nákvæmlega eins og að læra tungumál. Það er ekkert mál fyrir mig að tala ensku því ég lærði hana svo ungur, það er mun erfiðara fyrir mig að tala spænsku því ég var eldri þegar ég lærði hana.“

Þó svo að Helgi hafi tilkynnt að hann ætli ekki að halda áfram á Alþingi, segir hann vel hægt að nýta það ár sem hann á þar eftir. Hins vegar taldi hann rétt að tilkynna um þessa ákvörðun sína tímalega svo aðrir í flokknum hefðu færi á að sækja fram í hans stað. „Það er svo mikilvægt að við fáum nýtt fólk inn, að við séum alltaf að endurnýjast.“

Stjórnarskráin og forréttindablinda

Á komandi ári eru mörg málefni sem hann væri til í að sjá komast áfram á þingi, en þó verður róðurinn harður þar sem þeir ófyrirsjáanlegu tímar sem nú ríkja vegna kórónuveirunnar kalla á að Alþingi vinni að stóra samhenginu, frekar en því smærra.

„Málefni sem ég vildi sjá eitthvað komast áfram er auðvitað stjórnarskráin. Ég myndi líka vilja sjá opna nefndafundi, sér í lagi fyrir fjölmiðla. Slíkt er gert til dæmis á Nýja-Sjálandi og þar er það engan veginn umdeilt.“

Varðandi málefni nýju stjórnarskrárinnar segir Helgi þetta vera spurningu um að Ísland taki afstöðu til þess hvað við sem þjóð og sem þjóðríki viljum standa fyrir. Hver okkar grunngildi eru og hvað er það sem skiptir okkur höfuðmáli. Stjórnarskráin núna sé að mestu komin frá Dönum. Ísland og Íslendingar séu uppteknir af því að vera sjálfstæð, en hugi ekki að því hvað eigi að gera við þetta sjálfstæði. Hvað stöndum við fyrir og hvað föllum við fyrir?

„Stjórnarskrármálið snýst að mínu mati um það, að Ísland standi fyrir eitthvað. Einhver yfirlýsing um hvað lýðveldið Ísland vill vera. Það til dæmis að við sitjum öll við sama borð, að við viljum hafa jafnt samfélag og það sé okkur mikilvægt.“

Íslendingar hafi aldrei þurft að berjast af hörku fyrir þeim mannréttindum sem við höldum í heiðri. Við höfum fengið mannréttindaákvæðin okkar að utan, á grundvelli baráttu sem var háð í öðrum löndum. Því vanti ákveðinn skilning og virðingu fyrir þessum réttindum sem við höfum og tilhneigingin sé sú að reyna fremur að skýra mannréttindaákvæði út frá lagalegum sjónarmiðum fremur en hugmyndafræðilegum. Ísland sé haldið ákveðinni forréttindablindu.

„Forréttindablinda er víða. Þetta frjálslynda lýðræðiskerfi. Þetta kom fyrir Ísland en ekki frá Íslandi. Það er í sjálfu sér ekki gagnrýni á Ísland, það þýðir bara að við ættum að huga aðeins betur að því af hverju við erum lýðræði. Af hverju höfum við tjáningarfrelsi? Af hverju viljum við réttarríki? Hvað er gott við það? Það sem við höfum unnið okkur til frægðar er sjálfstæðið frá Danmörku og við erum svo föst í því að við þurfum að verja það með kjafti og klóm, eins og það sé einhver hætta á því að Danir taki aftur yfir Ísland. Það er engin hætta á því. Við erum orðin fullorðin þjóð og við megum haga þessu þjóðríki okkar eins og okkur sýnist. Þetta er stundum svona eins og 18 ára unglingurinn sem er endalaust að reyna að sanna að hann sé orðinn fullorðinn. Það þarf bara einhver að segja: Þú ert orðinn fullorðinn, við náum því!“

Nú má guðlasta – þó helgi sé ekki sérstaklega hrifinn af því
Mynd/Sigtryggur Ari

Stjórnmál sem póker

Að sigra heiminn er eins og að spila á spil, mælti skáldið. Helgi Hrafn slær á svipaða strengi þegar hann ræðir um stjórnmálin á Íslandi.

„Ég hugsa stundum um pólitík eins og var sagt um póker, þetta snýst ekki endilega um að vinna eða tapa, heldur um að taka réttar ákvarðanir. Það finnst mér mikilvægast í pólitík og í því að takast á við vandamál almennt. Það er að taka rétta ákvörðun. Síðan getur ákvörðun alltaf reynst slæm eftir á að hyggja, eða eitthvað mistekist sem þú reyndir, en ef maður einbeitir sér að því að taka rétta ákvörðun sem oftast, þá held ég að það gangi betur en annað.“

Helgi segir að það sé tilhneiging hjá stjórnmálamönnum á Íslandi til að fara aðeins eftir eigin sannfæringu, án tillits til þess hvað kjósendur þeirra vilji. Helgi horfir ekki á stjórnmálin með þeim augum.

„Ég lít svo á að ég sé þarna til að leiða í gegn vilja annarra. Ég get alveg greitt atkvæði á móti máli sem ég persónulega er hlynntur eða með máli sem ég er á móti, ef stefna flokksins er afdráttarlaus um það. Og ég geri það alveg hiklaust, því það er hluti af minni sannfæringu að ég sé kosinn til að gera það. Það er eitthvað sem ég hef gefið út að þannig ætli ég að vinna, og þá er það mín sannfæring.

Þetta er líka bara spurning finnst mér um heilindi. Við erum að vinna fyrir skjólstæðinga, ekki fyrir okkur sjálf. Þetta er svo einfalt, þetta er svo augljóst finnst mér, en leiðinlegt hvernig stjórnmálamenn láta eins og þeir geti ekki sjálfir mögulega gert hlutina ef þeir eru ósammála þeim. Eins og þú getir ekki farið út með ruslið vegna þess að þér finnist það ógeðslegt. Þú bara getur það víst og þarft bara að gera það.“

Nú má guðlasta

Aðspurður hverju hann sé stoltastur af á þingferlinum segir Helgi að það sé afnám á banni við guðlasti

„Í dag má góðfúslega guðlasta á Íslandi. Ég er nú ekkert sérstaklega hlynntur guðlasti en mér finnst algjört lykilatriði að það megi, vegna þess að ef þú getur ekki guðlastað þá getur þú ekki talað um trúarbrögð þannig að það móðgi neinn og ef þú getur ekki talað um trúarbrögð þannig að það móðgi neinn þá getur þú ekki talað um trúarbrögð og ef þú getur ekki talað um trúarbrögð þá getur þú ekki sagt hvað þér finnst. Bara það að ég segi það að Múhameð var ekki spámaður og ég get sýnt fram á það, þá er ég búinn að móðga rosalega mikið af fólki mjög, mjög djúpt og ef það fólk getur þaggað niður í mér með löggjöf, með því einu að taka það nógu fjandi nærri sér, þá er komið þöggunartól. Það er ekki í lagi.“

Grimmt einelti

Einelti hefur verið töluvert til umræðu undanfarna vikur eftir að móðir 10 ára drengs, Ólívers Ísleifssonar, greindi frá hrottalegu einelti sem hann varð fyrir frá skólafélögum sínum. Blaðamaður spyr hvort Helgi Hrafn hafi reynslu af einelti, sem þolandi, gerandi eða sem vitni. Helgi situr hljóður drykklanga stund áður en hann svarar.

„Ég var að vona að við værum komin lengra en það sem hefur birst í fréttum undanfarið. En eineltismál Ólívers sem hefur verið í umræðu í fjölmiðlum, ég hefði getað skrifað nákvæmlega þetta sama ellefu ára gamall. Bara orðrétt. Það er ekkert af þessu sem kom ekki fyrir mig. Ég varð fyrir mjög grimmu einelti og þekki þetta mjög vel.“

Helgi telur að orðið einelti sé misnotað í dag og notað yfir tilvik sem ættu réttilega ekki að flokkast sem einelti.

„Einelti er, eins og ég skil hugtakið, að vera einn á móti öllum öðrum. Þess vegna geri ég greinarmun á einelti og eineltistilburðum. Ein manneskja getur verið með eineltistilburði sem koma niður á öllum. En sá eini einstaklingur er mjög valdalaus ef hinir ákveða að hætta að taka skítinn. Einstaklingur sem er lagður í einelti, hann hefur ekkert að fara. Hann hefur engan vin, hann hefur enga vörn vegna þess að það er hópurinn sem er á móti. Þannig að ef maður reynir eitthvað þá verður það yfirleitt bara verra.“

Helgi Hrafn segir einelti birtast víðar en í skólakerfinu. Hjá fullorðnu fólki taki það gjarnan á sig aðra mynd. Til dæmis í athugasemdakerfum og í ofsóknum á netinu, á einstaklinga sem eru með umdeildar skoðanir eða segja eitthvað í hugsunarleysi.

„Það er bara mjög algengt og það er vandamál. Það er ekki alveg jafn ógeðslegt og þetta Ólíversmál eða sá aldur almennt. En það er af sama meiði. Og þetta er ekki í lagi, þetta á ekki að vera svona, þetta er ekki rétt. Þetta er rangt.“

Helgi hefur reynslu af einelti
Mynd/Sigtryggur Ari

Sviptir þig voninni

„Móðir Ólívers nefndi eitt þarna í sinni grein sem ég kannast líka við. Sem er það að einhvern tímann þá hringdu einhverjir strákarnir í hann og vildu hitta hann. Og hann varð rosalega spenntur. Hugsaði með sér: „Hey, kannski á ég þarna séns á einhverju félagslífi,“ varð spenntur og fór að hitta strákana sem svo gerðu grín að honum

Þetta tekur af þér að geta vonað. Þannig að ef einhver hringir í þig, strákur eða stelpa sem þú ert skotinn í, býður þér á deit eða vill hitta þig, þá er það fyrsta sem þú hugsar að kannski ætli þessi manneskja að meiða þig.

Annað sem gerist líka, sem ég gat lesið á milli línanna hjá Ólíver. Það er sko þegar þú síðan rekst á einhvern sem er til í að vera vinur þinn, nema hvað að þessi nýi vinur þinn hann sér hvað hinir gera. Hvernig þeir taka þig fyrir í frímínútum, niðurlægja þig, berja þig kannski í klessu eða þannig. Þá hættir nýi vinurinn að tala við þig vegna þess að hann vill ekki lenda í sömu stöðu. Hárrétt viðbrögð því hann myndi lenda í sömu stöðu. Þannig virkar einelti. Þú ert einn.

Einelti er vont vegna þess hvað það kennir þér, ekki vegna þess hvað gerist. Þú ert laminn í klessu – þú jafnar þig. Marblettirnir fara. En þegar þú ert búinn að læra það á þessum aldri, 10-12 ára þegar þú ert rétt að detta inn í kynþroskann, rétt að öðlast nýja sýn á mannlega hegðun, þessar lexíur eyðileggja fyrir fólki að geta tekið þátt í mannlegu samfélagi.“

Heppinn að eiga góða að

Helgi segist heppinn með bakland og að hafa haft færi á því að vinna úr þessari lífsreynslu. Hann hafi því verið óhræddur þegar hann bauð sig fram á Alþingi, jafnvel þó að með því yrði hann opinber persóna og ætti þá á hættu að verða skotmark.

„Ég er svo heppinn að eiga gott fólk að, mér hefur einhvern veginn tekist að eiga við afleiðingar eineltisins í gegnum tíðina. Þegar ég bauð mig fram 2013 þá var ég rosalega meðvitaður um það hvað ég gæti verið að setja mig út í. Og gerði það samt. Ég gerði það aftur 2017. Þannig að ég er mjög vel brynjaður. Ég er mjög vel að mér í félagslegu mótlæti. Ef allir ákvæðu að gera grín að mér þá kann ég að takast á við það, bæði tilfinningalega og í viðbrögðum. Ég veit alveg hvað ég á að gera og hvað ég á ekki að gera.

Ég held að fullt af þolendum eineltis detti í þá gryfju, mjög skiljanlega, að taka allt mjög nærri sér. Það er mjög hættulegur staður til að vera á, mjög óhollur. Það þarf að geta tekið þátt í lífinu þó maður hafi lent í vondri reynslu. Það er rosalega mikilvægur hluti af því að leyfa sárunum að gróa

Og eins sko kaldhæðnislegt og það er, þá á eineltið sjálfsagt sinn þátt í að mér tekst það vel. Vegna þess að maður lærir alls konar varnir. Sálfræðilegar varnir.“

 

Skilaboð til foreldra

Þannig að það sem drepur þig ekki styrkir þig?

„Já, ef það drepur þig ekki. Enda getur það drepið mann. Getur mjög léttilega drepið mann. Ég hef verið í aðstöðu til að geta tekist á við afleiðingar eineltisins í seinni tíð, á unglings- og fullorðinsaldri. Það hefði hins vegar ekki rosalega mikið þurft út af að bregða.“

Til foreldra þolenda eineltis vill Helgi beina eftirfarandi skilaboðum: „Algjörlega skilyrðislaus ást er lykilatriði og að krakkar fái að gera það sem þau vilja gera. Fái að sinna áhugamálum sínum. Ef krakkinn þinn vill fara í ballett, settu hann í ballett. Ef hann vill spila á píanó, leyfðu honum að spila á píanó. Það er ákveðið haldreipi, að vita að þú getir eitthvað þó enginn annar sjái það. Ég veit alveg hvað ég get gert. Ég þarf ekki að leyfa þér að heyra lögin sem ég hef samið á píanó. Þau eru mín. Ég bjó þau til, ég var þarna þegar ég bjó þau til. Þetta hjálpaði mér svolítið í æsku og ég myndi mæla með því að foreldrar leyfi börnum sínum að rækta það sem þau geta séð að sé þeirra og enginn getur tekið af þeim.“

Allt í heiminum og geiminum

Helgi Hrafn hefur greinilega mikinn áhuga á pólitík, enda væri undarlegt ef þingmaður hefði það ekki. En það er ekki eina áhugamálið hans, líkt og tónsmíð hans bendir til. Langt í frá.

„Mín helstu áhugamál eru allt sem varðar höfundarrétt,“ segir Helgi og hlær dátt. „Líka tækni og vísindi, tónlist, tónlistargerð – ég sem tónlist á píanó og gítar sem er ólíklegt að ég gefi nokkurn tímann út, heldur á bara fyrir mig. Ég hef líka áhuga á öllu sem varðar mannkynið. Ef þú værir Marsbúi og værir sendur til jarðarinnar til að kanna það hvernig þessi jörð virkar og fara svo að segja fólki frá því aftur á Mars. Allt sem þessi Marsbúi þyrfti að rannsaka finnst mér áhugavert. Allt sem varðar jörðina, en ég hef líka samt áhuga á geimnum. Svo í rauninni er það allt sem ég hef áhuga á. Allt.“

Mamma reddaði konunni
Mynd/Sigtryggur Ari

Mamma hjúskaparmiðlari

Helgi Hrafn er giftur Ingu Auðbjörgu K. Straumland og saman eiga þau eitt barn. Á meðan margir kynnast maka sínum á ölstofum eða í gegnum stefnumótaforrit þá fór Helgi nokkuð ólíka en gamaldags leið til að kynnast konu sinni.

„Mamma mín kom okkur saman. Þær unnu saman í Samfylkingunni og hún var búin að hafa orð á því við mig að hún yrði svo góð tengdadóttir og við hana að hún yrði svo góð tengdadóttir. Og svo bauð hún okkur báðum í mat, hellti okkur full og sendi okkur í partí. Og núna erum við gift. Henni leist bara svo vel á þessa konu og ég er mjög ánægður með val hennar. Við erum mjög lík á þann hátt sem virkilega skiptir máli. Við drekkum sama kaffið og drekkum sama bjórinn.“

Gjarnan þykja það nokkur viðbrigði að eignast sitt fyrsta barn, en sonur Helga og Ingu fæddist árið 2018. Helgi segir ekki hægt að tala um að lífið hafi tekið stakkaskiptum með nýju viðbótinni.

„Ég held að það sé að ég er orðinn svo gamall þegar ég eignast barn. Ég var 37 að verða 38 ára. Ég hugsa að þetta hefði verið stórkostleg umbreyting á lífi mínu hefði þetta gerst þegar ég var 25 ára, en nú er ég bara búinn að umturna lífinu mínu svo oft og svo mikið að þetta eru ekki stór viðbrigði. Maður hefur líka verið í kringum aðra sem hafa átt og alið upp börn og það er færra sem kemur á óvart.“

Helgi lumar ekki á neinum sérstökum uppeldisráðum sem hann vill deila, öðru en mikilvægi þess að virða barn sitt sem einstakling.

„Ég passa rosalega vel að muna að barnið mitt er einstaklingur. Hann er alveg jafn sjálfstæður og fróður og gáfaður og ég. Hann er jafn merkilegur og mikilvægur og með alveg jafn mikið af tilfinningum. Hann er einstaklingur og á að njóta fullrar virðingar sem slíkur. Þetta finnst mér gleymast oft gagnvart börnum. Maður á að bera virðingu fyrir börnum sínum.“

Það væri auðvelt að sitja endalaust á spjalli við Helga Hrafn, sem býr yfir fallegri einlægni sem mætti gjarnan einkenna fleiri stjórnmálamenn. Hins vegar er þingmaðurinn upptekinn, enda tekur borgaralega lífið ekki aftur við fyrr en liðið er á komandi ár. En Helgi segist ekki hættur í stjórnmálum, svo vonandi gefst tími til að taka upp þráðinn að nýju, jafnvel eftir að og ef Helgi snýr aftur á Alþingi. Eins og þingmaðurinn sagði sjálfur: Aldrei segja aldrei

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki