fbpx
Fimmtudagur 26.nóvember 2020
Eyjan

Segir vini sína hafa útskúfað sér er hann gekk í Samfylkinguna – „Ég tók þetta nærri mér“

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 29. október 2020 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óþarft er að kynna landsliðsfyrirliðann, KR-inginn, alþingismanninn og ritstjórann Ellert B. Schram. Hann hefur komið víða við á langri ævi og hvarvetna verið í forystuhlutverki. Ellert hefur meðal annars starfað sem formaður KSÍ, forseti ÍSÍ, varaforseti Knattspyrnusambands Evrópu og hefur nýlega látið af störfum formanns Félags eldri borgara. Í dag kemur út bókin endurminningar Ellerts en þær skráir Björn Jón Bragason, sagnfræðingur og lögfræðingur.

„Af hverju gekkstu til liðs við kommana?“

Í bókinni fjallar hann meðal annars um það þegar hann yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn fyrir Samfylkinguna. Hann segist hafa farið „í fýlu“ út í Sjálfstæðisflokkinn, en að hans mati ríkti þöggun þar. Í bókinni stendur:

„Ég er stundum spurður: Af hverju gafstu upp á Sjálfstæðisflokknum? Sumir spyrja jafnvel: Af hverju gekkstu til liðs við kommana? Ekki er alveg sanngjarnt að kalla Samfylkinguna kommaflokk en vissulega var hann og er vinstra megin í pólitíkinni og þegar ég gekk til liðs við Samfylkinguna var hún höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins. Þetta voru „turnarnir tveir“ í pólitíkinni eins og þá var stundum sagt. Það má segja að ég hafi farið „í fýlu“ þegar mér var hafnað sem ráðherra eða þingflokksformanni 1983 og ýtt til hliðar. Það liðu tuttugu ár frá því að ég strunsaði út af þingflokksfundinum þar til mér þótti kominn tími til að kveðja Sjálfstæðisflokkinn. Ég gekk til liðs við Samfylkinguna 2003.“

Ellert spyr sig út hvers vegna enginn hafi mótmælt umdeildum ákvörðunum á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hann spyr hvar hafi kjarkurinn eða „hið margrómaða frelsi einstaklingsins“ verið þegar Ísland studdi árás Bandaríkjamanna í Írak, þrátt fyrir yfirgnæfandi andstöðu landsmanna.

„Í stórum þingflokki sjálfstæðismanna ríkti þöggun þegar komið var fram um aldamótin og fyrstu ár nýrrar aldar. Enginn gagnrýni heyrðist á flokksforystuna og var af mörgum umdeildum málum að taka: Kárahnjúkavirkjun, ríkisábyrgð deCode, frjálst framsal kvótans, fjölmiðlalögin og svo mátti lengi telja. Af hverju reis enginn upp á landsfundi flokksins og mótmælti því að Ísland hefði verið sett á lista með þeim þjóðum sem voru staðfastar og viljugar þegar Bandaríkjamenn gerðu árás á Írak? Áttatíu prósent þjóðarinnar voru andvíg aðild Íslands að þessari árás. Hvar voru landsfundarfulltrúar í hópi yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar? Sjötíu prósent þjóðarinnar kölluðu þá eftir breytingum á kvótakerfinu. Enginn þingmaður talaði í þá veru. Hvað var orðið um hið margrómaða frelsi einstaklingsins eða kjarkinn til að hafa skoðun og láta hana heyrast? Blasti ekki við að þingmenn, jafnt sem aðrir flokksmenn, óttuðust að lenda upp á kant við forystuna? Hræddust valdið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, helsti leiðtogi vinstrimanna, gagnrýndi þetta ástand sem hún kallaði stjórnlynt lýðræði. Hún kom orðum að misnotkun valds og því hvernig stjórnvöld byggðu á fælingarmætti. Ég hreifst af hennar framgöngu og varð endalega ljóst að blessaðan Sjálfstæðisflokkinn gat ég ekki lengur kosið, hvað þá starfað þar.“

Ellert segist strax hafa kunnað vel við sig með nýjum vinum í Samfylkingunni. Þó hafi honum fundist skrýtið að vera allt í einu kominn í lið með þeim sem áður höfðu verið í „óvinaliðinu“.

„Mér var tekið með kostum og kynjum og þegar kom að kosningabaráttunni var ég með Ingibjörgu Sólrúnu og fleira mektarfólki á fundum og heimsóknum hringinn í kringum landið og hafði gaman af. Þeir gerðu mig líka að formanni samtaka eldri flokksfélaga, 60 plús, og ekki gat ég kvartað undan þeim verkefnum sem mér voru falin á nýjum vettvangi. Mér var sem sagt tekið vel þótt mér fyndist dálítið skondið að vera kominn í lið með mörgu fólki sem var lengst til vinstri og hafði verið í „óvinaliðinu“ meðan ég var hægra megin í pólitíkinni. En hvorki ég né mínir nýju félagar áttum í neinum vandræðum með að samlagast.“

„Hvorki sáu mig lengur né sinntu“

Ellert segir að margir gamlir vinir hafi útskúfað hann þegar fregnir af stuðningi hans við Samfylkinguna spurðist út. Hann nefnir svokallaðan Miðvikudagshóp á nafn, en einungis einn að sögn Ellerts voru einungis tveir úr þeim stóra hóp sem héldu áfram að hafa samskipti við hann. Ellert segist hafa tekið þetta nærri sér, allavega til að byrja með.

„Því er ekki að neita að það varð uppi fótur og fit þegar ég opinberaði inngöngu mína í Samfylkinguna. Ekki síst hjá þeim sjálfstæðismönnum sem ég hafði starfað með og ég taldi til vina minna. Við höfðum haft með okkur félagsskap undir nafninu Miðvikudagshópurinn. Þar voru Birgir Ísleifur Gunnarsson, borgarstjóri og seðlabankastjóri, Ólafur B. Thors, forstjóri Almennra trygginga, Friðrik Sophusson ráðherra, Björgólfur Guðmundsson, forstjóri Hafskips og síðar bankaráðsformaður Landsbankans, Valur Valsson, bankastjóri Iðnaðarbankans og síðar Íslandsbanka, Pétur Sveinbjarnarson athafnamaður, Gylfi Þór Magnússon, framkvæmdastjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Ragnar Kjartansson, stjórnarformaður Hafskips, Sigurður Hafstein, framkvæmdastjóri Sambands sparisjóða, Eggert Hauksson, forstjóri Plastprents, og lögmennirnir Ragnar Tómasson og Jón Magnússon. Blessuð sé minning þeirra sem látnir eru. Við höfðum lengi haldið hópinn, hist í hádeginum og stundum á kvöldin með eiginkonum og borðað saman. Jafnvel ferðast saman. Eftir að stuðningur minn við Samfylkinguna spurðist út var mér úthýst úr öllum þeirra samkundum, félagslega var ég útskúfaður og þessir strákar sem ég hafði umgengist áratugum saman hvorki sáu mig lengur né sinntu. Símhringingum var ekki svarað, mér ekki heilsað. Bara tveir þeirra héldu sambandi við mig og svöruðu símanum, þeir Ragnar Tómasson og Jón Magnússon. Mér skilst að þessi hópur sem hér er upptalinn sé enn að hittast. Þó það nú væri, allt greindir og glaðir menn á mínum aldri!

Að einhverju leyti skildi ég þessi viðbrögð vina minna hvað stjórnmálin varðar en einhvern veginn hélt ég öðrum þræði að við værum vinir og samferðarmenn án tillits hvar við værum í pólitík. Ég tók þetta nærri mér til að byrja með en svona er lífið. Það gengur á ýmsu. Hver og einn verður að fá að ráða sinni hegðan og sínum skoðunum.“

Hér má svo sjá mynd af kápu bókarinnar og svo mynd af Ellerti ásamt skrásetjara hennar Birni Jóni Bragasyni.

Mynd/Eva Schram
Mynd/Eva Schram
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólga í Miðflokknum fyrir aukalandsþing – Sagðir vilja halda Vigdísi frá völdum

Ólga í Miðflokknum fyrir aukalandsþing – Sagðir vilja halda Vigdísi frá völdum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Skjóta fast til baka á Áslaugu – „Orð ráðherra um að fréttamaður hafi ekki greint rétt frá eru tilhæfulaus“

Skjóta fast til baka á Áslaugu – „Orð ráðherra um að fréttamaður hafi ekki greint rétt frá eru tilhæfulaus“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir meirihlutann fórna almannahagsmunum fyrir stundargróða

Segir meirihlutann fórna almannahagsmunum fyrir stundargróða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kjartan er látinn – Merkur ferill

Kjartan er látinn – Merkur ferill
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðmundur segir að Bjarni sé pirraður – „Eins og hann sé yfir þetta allt saman hafinn“

Guðmundur segir að Bjarni sé pirraður – „Eins og hann sé yfir þetta allt saman hafinn“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ómerkilegur popúlismi“ segir Morgunblaðið um fyrirspurn Þorgerðar

„Ómerkilegur popúlismi“ segir Morgunblaðið um fyrirspurn Þorgerðar