Laugardagur 22.febrúar 2020
Eyjan

Hæstaréttarlögmaður hjólar í vinstrimenn – „Hætt er við að skynseminni sé fórnað á kostnað tilfinninganna“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 21. janúar 2020 11:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstaréttarlögmaðurinn Einar S. Hálfdánarson virðist ekki hafa miklar mætur á vinstrimönnum, ef marka má grein hans í Morgunblaðinu í dag hvar hann fjallar öðrum þræði um loftslagsmál.

Þar fær RÚV, Morgunblaðið, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Líf Magneudóttir, oddviti VG í borgarstjórn, Píratar og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra væna útreið auk þess sem Einar kemur með nokkrar hressilegar alhæfingar um vinstrimenn almennt, sem hann telur ekki merkilegan pappír.

RÚV

Einar byrjar greinina á því að fetta fingur út í frétt hjá RÚV um klolefnislosun:

„Orðalag fréttarinnar var fremur undarlegt. Lagt var upp með að Bandaríkin væru aðalþrjóturinn í loftslagmálum vegna þess að „sögulega“ hefðu þau losað mest kolefni allra ríkja. Af hverju þessi orwellíska? Hm, best að kynna sér þetta aðeins,“

segir Einar og rekur síðan áhrif fólksfjölgunar á kolefnislosun og hvernig Bandaríkin séu undir í öllum samanburði þegar kemur að fólksfjölda, samanborið við Evrópu og Asíu til dæmis, enda séu svo margir aðfluttir í Bandaríkjunum. Einar telur því að fullyrðing RÚV sé hæpin.

Logi og umhverfissóðarnir

Einar segir þó baráttuna gegn kolefnislosun af hinu góða:

„En Evrópumenn, einkum Íslendingar þurfa ekki að hafa samviskubit og taka á sig byrðar og stórversnandi lífskjör almennings vegna umhverfisins umfram það sem efni eru til. Fjarri því. Rök Loga sem uppnefnir eigin þjóð umhverfissóða, líkt of jafnan án gilds rökstuðnings, höfða ekki til mín. Og ef hugsað er út í það þá eru líkurnar á skynsamlegum rökum frá Loga ekki beint til að veðja á þær,“

segir Einar um Loga Einarsson.

Mbl og vinstripopúlistarnir

Einar rekur stuttlega hvernig Kína er ábyrgt fyrir næstum þriðjungi kolefnislosunar heimsins þó þar búi innan við 20% heimsins:

„Samt segja vinstripopúlistar eins og blaðamenn mbl.is að Kína sé til fyrirmyndar í loftslagsmálum. Losun á mann er þar meiri en í Bretlandi og miklu meiri en í Frakklandi. Samt heldur Kína áfram að auka kolefnislosun sína eins og það hefur raunar fulla heimild til og þarf ekkert að gera fyrr en 2030!“

Ekki er víst að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, fallist á þessa skilgreiningu Einars um ritstjórn sína, en hver veit.

Vinstrimenn berji sér á brjóst

„Vinstrimenn hafa forystuna þ.e. í orði þegar kemur að baráttunni gegn mengun og verkefnum henni tengdum. Það veit sjaldnast á gott. Hætt er við að skynseminni sé fórnað á kostnað tilfinninganna,“

segir Einar um vinstrimenn og nefnir að arðsemi sé grundvallaratriði þegar velja eigi eitt umfram annað:

„Hvaða árangur næst fyrir hverja krónu sem eytt er í eitt verkefni fram yfir annað? Til dæmis hversu mikil minnkun á kolvetnislosun næst með reiðhjólabrú í snjóþungu og mjög svo vindasömu landi miðað við byggingu jarðvarmavirkjunar í Afríku, krónu fyrir krónu? Þannig má endalaust áfram halda. Á hinn bóginn þykir vinstrimönnum eins og Loga og Degi miklu mikilvægara að geta barið sér á brjóst en að ná raunverulegum árangri.“

Biður ekki um kraftaverk

Einar nefnir að stóriðjan losi um 80% kolefnis hér á landi:

„Sú losun er ekki fyrir Íslendinga. Sameinuðu þjóðirnar leggja með réttu ríka áherslu á að flutningur kolefnislosunar frá einu landi til annars sé engin lausn. Flugsamgöngurnar vega þungt hjá okkur. Níutíu prósent farþeganna eru útlendingar. Hverju bættari yrði heimurinn ef Flugleiðir hættu að fljúga með farþegana og kínversk flugfélög tækju upp þráðinn?“

spyr Einar og á væntanlega við Icelandair.

Hann lýkur síðan pistlinum með dassi af alhæfingu um vinstrimenn:

 „Jafnvel vinstrimenn eiga, með hæfilegri aðstoð, flestir að geta náð megininnihaldinu. Ég bið ekki um kraftaverk. Ekki Logi, ekki Líf og líkast til enginn Pírati. – Og þegar tími vinnst til langar mig í framhaldinu að spyrja umhverfisráðherra nokkurra spurninga um efnið hérna í Mogganum. Hann virðist ekki hafa leitt hugann alltof mikið að hagkvæmni eða samræmi orða og gerða; enda vinstrimaður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Í gær

Nú er Davíð reiður – „Hver leyfði þessum bjálfum að bía út þjóðina?“

Nú er Davíð reiður – „Hver leyfði þessum bjálfum að bía út þjóðina?“
Eyjan
Í gær

Segir Mannréttindadómstól Evrópu ógna lýðræðinu með skapandi lagatúlkun – Ályktaði gegn lögum sem áttu að koma í veg fyrir þvinguð hjónabönd

Segir Mannréttindadómstól Evrópu ógna lýðræðinu með skapandi lagatúlkun – Ályktaði gegn lögum sem áttu að koma í veg fyrir þvinguð hjónabönd