„Miðað við þann kostnað sem vantar upp á til að klára varnirnar, þá mun það taka 50 ár að klára þetta, á sama hraða og hefur verið, en þetta átti nú að klárast fyrst 2010. En það er vel hægt að spýta í lófana og klára þetta á 10 árum,“
segir Kristín Martha Hákonardóttir, ofanflóðasérfræðingur á Verkís verkfræðistofu, við Eyjuna í dag.
Hún gagnrýnir stjórnvöld fyrir seinagang í málefnum snjóflóðavarna og vonast til að ríkisstjórnin ranki við sér eftir tíðindi gærkvöldsins, þegar þrjú snjóflóð féllu á Vestfjörðum, þar af tvö á Flateyri með tilheyrandi tjóni.
Ofanflóðasjóður heyrir undir fjármálaráðuneytið, en þaðan kemur fjármagnið til uppbyggingar snjóflóðavarna. Ýmiskonar verkefni hafa verið í gangi undanfarin ár og segir Kristín að samanborið við önnur lönd sé ástandið heilt yfir gott á Íslandi.
Hún segir hinsvegar að betur megi ef duga skal því sjóðurinn sé notaður sem hagstjórnartæki:
„Þegar það er þensla í þjóðfélaginu hefur verið dregið úr fjármögnun í uppbyggingu varna því allir verktakar eru á fullu í öðru. En svo þegar er samdráttur í þjóðfélaginu, þá er líka dregið úr fjármögnun, vegna sparnaðar. Það var ekki ætlunin með lögunum um snjóflóðavarnir, sem sett voru í mjög skýrum tilgangi,“
segir Kristín.
„Það stefnir í að við verðum 60 árum á eftir áætlun, sem er óheppilegt því við verðum öll dauð sem höfum starfað í þessu og því gæti orðið ósamfella í þekkingu, sem er aldrei gott,“
segir Kristín og nefnir að upphaflega átti að ljúka uppbyggingunni árið 2010 samkvæmt reglugerð um hættumat frá árinu 2000, um hættulegustu svæðin.
Hún rifjar upp á Facebook að síðastliðið vor hafi áskorun verið send stjórnvöldum um að klára þyrfti snjóflóðavarnir. Áskorunin var send af fulltrúum Veðurstofu Íslands, fulltrúa Ofanflóðanefndar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og þremur bæjarstjórum ásamt Kristínu sjálfri.
Kristín segir að viðbrögð stjórnvalda hafi verið vonbrigði og að aðeins sé búið að verja helming hættusvæða þrátt fyrir að ekki skorti fé til að klára varnirnar:
„Get ekki annað en ítrekað að einungis er búið að verja um helming þeirra svæða þar sem snjóflóðahætta er yfir ásættanlegum mörkum – og að nægir fjármunir eru í Ofanflóðasjóði til að ljúka þessum verkefnum á næstu 10 árum.“
Ofanflóðasjóður var stofnaður 1997 til að mæta uppbyggingu á snjóflóðavörnum.