fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Hart skotið á Eyþór í Silfrinu – „Eyþór hefur ennþá ekki komið hreint fram varðandi tengsl sín við Samherja“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 13. september 2020 12:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, voru gestir í Silfrinu í dag og tókust þar á um samgöngumál í borginni. Rétt áður en þeirra hlut í þættinum var lokið voru þau spurð út í gengi borgarstjórnarflokkanna í nýjum skoðana könnunum og færðist þá hiti í leika.

Fanney Birna Jónsdóttir, þáttastjórnandi, spurði Eyþór út í fylgi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en nokkuð hefur dregið úr því samkvæmt nýjustu könnunum. Eyþór benti á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi iðulega komið betur út í kosningum en skoðanakannanir hafi gert ráð fyrir og séu enn stærsti flokkurinn í borginni og það geti aldrei verið slæmt.

„Það að vera langstærsti flokkurinn getur aldrei verið lélegt. Hvað eru þá hinir?“

Eyþór segir Sjálfstæðisflokk ekki útiloka samstarf við neinn annan. „Við höfum aldrei útilokað neinn og munum aldrei gera. Við getum unnið með öllum.”

Í reynd telur Eyþór Sjálfstæðisflokkinn eina raunverulega valkostinn gegn sitjandi meirihluta.

„Ég held að við séum eini raunverulegi valkosturinn við þennan meirihluta, en það eru flokkar þarna inni sem eru með mjög ólíkar skoðanir. Við gætum alveg unnið með Viðreisn, Samfylkingunni eða hinum og þessum.“

Eyþór bendir á að sitjandi meirihluti samanstandi að ólíkum flokkum með ólíkar áherslur og það geri hann dýran í rekstri.

„En við erum með meirihluta sem er mjög dýr. Við erum með Vinstri Græna, sem eru vinstrisinnaðir mjög. Við erum með Pírata. Við erum síðan með Viðreisn sem er mjög hægrisinnaður flokkur. Og þess vegna erum við að sjá það að á góðæristímanum þá jukust skuldir gríðarlega. Bara á fyrsta heila rekstrarári þessa meirihluta þá hækkuðu þær um tuttugu og fimm milljarða umfram það sem átti að gerast. Og það er ekki hægt að kenna kóróna-kreppunni um það. Það var bara í góðærinu. Þetta er nefnilega þannig að þegar þú ert með ólíka, marga flokka þá er reksturinn oft dýr.”

Sigurborg túlkar aukinn stuðning við meirihlutann sem viðurkenningu borgarbúa á störfum hans.

„Ég get ekki túlkað það á neinn annan hátt. Ég held að það sé algjörlega þannig og við höldum bara áfram. Það er bara áfram gakk og við gerum okkar besta. Alltaf. Öllum stundum. Og að sjálfsögðu samþykkjum við góðar tillögur sama hvaðan þær koma.“

Hins vegar vildi Sigurborg benda á, í ljósi þess að Eyþór hafi opnað á umræðuna um ágæti Sjálfstæðisflokksins, að oddvitinn, Eyþór, þurfi að koma hreint fram um tengsl sín við Samherja.

„En ég verð samt að fá að segja að mér finnst áhugavert að heyra Eyþór hérna tala um Sjálfstæðisflokkinn sem stærsta flokkinn og dásama hann mikið þegar Eyþór hefur ennþá ekki komið hreint fram varðandi tengsl sín við Samherja og af hverju hann þáði fé frá fyrirtæki sem að greiddi öðrum stjórnmálamönnum, víða um heim [innskot blm– þarna vísar Sigurborg til Namibíu mútugreiðslnanna í Samherjamálinu svonefndu], ..

Eyþór greip þá frammí – „Þessi staðreynd stenst í fyrsta lagi ekki skoðun….“

En Sigurborg hélt ótrauð áfram:

„Þetta fyrirtæki sem var nýtt í þeim tilgangi að greiða stjórnmálamönnum víða um heim fé og það er nefnilega svolítið magnað að framkoma Samherja gagnvart samfélaginu gegn fjölmiðlum og t.d. Seðlabankanum er óhugnanleg og það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að oddvitinn skuli komast upp með það að koma ekki hreint fram. Það sýnir okkur að það er ekki mikið siðferði í flokknum og það er enginn staður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í því samfélagi sem við viljum búa í.”

Eyþór sagði að ummæli Sigurborgar dæmi sig sjálf. Þessi ummæli hennar séu til þess fallin að afvega málefnalega umræðu og standist ekki skoðun.

„já þetta er ákveðin yfirlýsingargleði og útilokunarstefna. Nú þessi eignarhlutur er náttúrulega víða skráður. Ekki bara hjá ríkisskattstjóra, fjölmiðlanefnd og náttúrulega í hagsmunaskrá borgarinnar og víða. Þannig þetta er bara gömul plata.  Þegar það er óþægilegt að tala málefnalega þá fara menn oft í þennan ham. Ég var búinn að sjá Dóru gera þetta áður. Og nú er bara Sigurborg að feta í fótspor síns oddvita. Skítkast er aldrei mjög góð pólitík. Ég vil bara nefna það.

En takk fyrir að draga okkur aftur niður.

 

Siguborg skaut þá aftur inn: „Staðreyndirnar tala sínu máli.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt