fbpx
Laugardagur 10.janúar 2026
Eyjan

Steingrímur árið 1983 – „Það ætti enginn að vera lengi á þingi í einu“ – Fannst þingmenn verða fljótt „gamlir og þreyttir“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 25. mars 2020 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það ætti enginn að vera lengi á þingi í einu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins, í viðtali við Helgarpóstinn árið 1983. Skákfrömuðurinn Hrafn Jökulsson vekur máls á þessu á Facebooksíðu sinni og deilir viðtalinu.

Þaðan rataði greinin inn í Facebook hópinn Algerlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar, fyrir tilstilli Andrésar Inga Jónssonar, óháðs þingmanns, sem var áður samherji Steingríms í VG en sagði sig úr flokknum í nóvember.

Steingrímur var yngsti þingmaðurinn á Alþingi árið 1983, þá 27 ára. Hann er nú forseti Alþingis fyrir Vinstri græna og er ekki aðeins aldursforseti þingsins, heldur einnig sá sem lengst hefur setið, eða 37 ár.

Eldast illa

Steingrímur ræddi í viðtalinu hversu fljótt og illa honum fannst þingmenn eldast:

„Mér finnst þingmenn vera fljótir að verða gamlir og þreyttir. Þeir eldast illa. Þetta er ég mest smeykur við, og ég vona, að þingmennskan breyti mér ekki á þennan hátt. Það versta sem gæti komið fyrir, er að þingmennskan breytti mér í eitthvað annað en ég vil vera,“

sagði Steingrímur árið 1983, en hann verður 65 ára í ágúst næstkomandi.

Annað umhverfi þá

Eyjan spurði Steingrím hvort hann væri enn sömu skoðunar og árið 1983, um að enginn ætti að vera lengi á þingi í einu. Hann segir margt hafa verið öðruvísi í þá daga:

„Mér finnst þetta nú, í fyrsta lagi, nokkuð gott viðtal. Ætli margir hafi verið að tala um umhverfismál, samskipti ríkra þjóða og fátækra, afvopnunarmálin o. s. frv. á þeim nótum og ég þarna geri á þessum tíma? Það hefur staðist tímans tönn,“

segir Steingrímur og bætir við:

„Í öðru lagi þá var Alþingi allt önnur stofnun og allt öðru vísi saman sett þegar ég kem þar fyrst inn 27 ára gamall. Meðalaldurinn var hár, aðeins fimm eða sex konur ef ég man rétt og hafði tvöfaldast með tilkomu þriggja kvennalista þingmanna. Þetta voru sem sagt virðulegir miðaldra og eldri karlar, endurnýjun var hæg (ég var t.d. yngstur mitt fyrsta kjörtímabil og næst yngstur næstu tvö ef ég man rétt), og mér fannst ég, háskólaneminn og róttæklingurinn ganga inn í einhvern allt annan heim frá öðrum tíma.“

Bjóst ekki við þessu ævistarfi

Steingrímur segist ekki hafa gert ráð fyrir 37 ára þingsetu árið 1983:

„Ég átti als ekki von á því, þegar ég sló til og féllst á að taka 1. sæti á lista ABL. fyrir norðan, að þetta myndi verða mitt ævistarf. Frekar að ég yrði í 1-2 kjörtímabil og héldi svo í framhaldsnám eða eitthvað. En, mér var snemma sýndur trúnaður, varð þingflokksformaður strax 1987, og síðan ráðherra, varaformaður og formaður stjórnmálaflokks, síðan aftur ráðherra og loks forseti Alþingis 2016 og aftur 2017. Ég hef notið mikils trausts og fylgis í mínu kjördæmi, verið treyst fyrir því að leiða framboðslista í 11 síðustu alþingiskosningum og tekið þátt í 13, allt frá 1978,“

segir Steingrímur við Eyjuna og nefnir að það sé engin leið að hætta:

„Það hefur sem sagt ekki reynst eins auðvelt að hætta og ég hélt, en það er auðvitað annarra að meta hvort ég hafi verið of lengi. En, það eru óvart félagar mínir í kjördæminu og kjósendur sem ráða en ekki álitsgjafar. Ég held að reynsla mín hafi ekki komið sér illa, sérstaklega á erfiðum tímum eins og nú og eftir hrunið, 2008-2013. Þingið hefur einnig endurnýjast á margföldum hraða frá og með 2009 og það svo að mörgum þykir nóg um. Svona lít ég nú á þetta,“

segir Steingrímur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Vilhjálmur Egilsson: Tilbúinn lóðaskortur keyrir upp lóðaverð og hækkar íbúðaverð

Vilhjálmur Egilsson: Tilbúinn lóðaskortur keyrir upp lóðaverð og hækkar íbúðaverð
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Háskólaprófessor: Innrás frá Íslandi blasir við – Ísland á bara einn vin

Háskólaprófessor: Innrás frá Íslandi blasir við – Ísland á bara einn vin
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kosningar 2026: Örn vill fjórða sætið í Hafnarfirði

Kosningar 2026: Örn vill fjórða sætið í Hafnarfirði
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Mótframbjóðandi kvartar yfir framboði Vilhjálms – „Kemur verulega á óvart“

Mótframbjóðandi kvartar yfir framboði Vilhjálms – „Kemur verulega á óvart“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Áhrifavaldar dottnir úr tísku

Nína Richter skrifar: Áhrifavaldar dottnir úr tísku
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilhjálmur Egilsson: Evrópusambandið snýst um frið, lýðræði og mannréttindi, ekki bara peninga

Vilhjálmur Egilsson: Evrópusambandið snýst um frið, lýðræði og mannréttindi, ekki bara peninga
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Fokið í flest skjól í Hádegismóum – skrímsladeildin endanlega tekin við

Orðið á götunni: Fokið í flest skjól í Hádegismóum – skrímsladeildin endanlega tekin við
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vilhjálmur Egilsson: Kannski er þetta tímabil í sögu Bandaríkjanna bara liðið

Vilhjálmur Egilsson: Kannski er þetta tímabil í sögu Bandaríkjanna bara liðið