fbpx
Fimmtudagur 31.júlí 2025
Eyjan

Lítill drengur bergnuminn á þögulli kvikmynd í mars 1969

Egill Helgason
Fimmtudaginn 5. mars 2020 12:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Saga Borgarættarinnar markar upphafið að kvikmyndagerð á Íslandi. Myndin var tekin upp á Íslandi árið 1919, það var sett upp leikmynd í Þingholtunum í Reykjavík, hér rétt fyrir ofan þar sem ég bý, á Amtmannstúninu þar sem nú stendur kirkja aðventista.  Svo var myndin frumsýnd 1921 og náði gríðarlegum vinsældum.

Hún er semsagt 100 ára þessi mynd. Erlendur Sveinsson, fyrrverandi forstöðumaður Kvikmyndasafns Íslands, fjallar um hana í mjög læsilegri grein í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. 10. maí verður svo hátíðarsýning í Hörpu þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumflytur nýja tónlist sem Þórður Magnússon hefur samið við myndina.

Í greininni kemur fram að myndin hafi verið sýnd í Nýja bíói í mars 1969. Það finnst mér skemmtilegt að lesa. Ég var einu sinni sem oftar að þvælast í bænum – það hefur þá verið í þessum marsmánuði. Man að ég álpaðist inn á samkomu hjá KFUM á Amtmannsstígnum. Leiddist þar, fór út, labbaði  niður í Lækjargötu. Var með peninga í vasanum, sá þessa mynd auglýsta, keypti miða og gekk inn í hinn fallega bíósal Nýja bíós.

Skemmst er frá því að segja að mér fannst myndin stórkostleg. Líklega myndu ekki margir upplifa spennu eða yfirleitt sterkar kenndir við að horfa á þöglar myndir í dag, en á þessum tíma var sjónvarp ennþá svarthvítt – jú, kannski mætti fara að segja að maður hafi verið til í gamla daga.

Síðan þá sitja atriði í myndinni föst í vitund minni. Messan og dauði héraðshöfðingjans Örlygs. Hinn sviphreini sonur hans Ormar – leikinn af listamanninum Muggi. Öfundsjúki presturinn Ketill Örlygsson sem iðrast eftir illvirki sín, fetar stafkarls stíg sem förumaðurinn Gestur eineygði. Þegar hann snýr heim dauðvona og fær fyrirgefningu.

Ég fór heim og las Borgarættina, semsagt bók Gunnars Gunnarssonar. Hann var víst ekki að öllu leyti sáttur við kvikmyndagerðina. En bókin rann ofan í mig eins og bráðið smér – þetta var á þeim tíma að maður samsamaði sig lesefni af fullkomnu áreynsluleysi. Hún er sjálfsagt ívið of melódramatísk þessi bók, en hún var feikilega vinsæl erlendis. Til dæmis heyrði ég eitt sinn aldraða danska konu segja frá því að hún hefði fengið hana gjöf þegar hún var fermd.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Samfylkingin og Viðreisn á flugi í nýrri skoðanakönnun – málþófsminnihlutanum refsað

Orðið á götunni: Samfylkingin og Viðreisn á flugi í nýrri skoðanakönnun – málþófsminnihlutanum refsað
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni

Orðið á götunni: Lánlítil stjórnarandstaða – ætlar aftur í slag gegn þjóðinni