fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Segir sveitarfélögin beitt blekkingum – Þurfa sjálf að borga fyrir sameiningarnar – „Klárlega forsendubrestur“

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 18. febrúar 2020 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ríkisvaldið hyggst ekki bæta við peningum í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til að fjármagna stóra sameiningarátakið sitt. Sveitarfélögin skulu borga sjálf fyrir sameiningarnar. Þeir 15 milljarðar sem veifað var í andlitið á sveitarfélögunum til að þau leggðu stuðning sinn við gjörninginn var alltaf blekking,“

segir forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkurkaupstaðar, Baldur Smári Einarsson, vegna frumvarpsdraga Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, þar sem markmið frumvarpsins er að lögfesta lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga við 1000 manns. Bolungarvíkurkaupstaður nær því ekki alveg, þar búa um 960 manns:

„Næsta mál á dagskrá er að gera sitt til að Bolungarvík verði a.m.k. 1.000 manna samfélag og teljist þá sjálfbært sveitarfélag í skilningi sveitarstjórnarlaga,“

bætir Baldur við en hann segir nýja klausu í frumvarpsdrögunum vera forsendubrest á því sem kynnt var á aukalandsþingi í fyrra.

Stór breyting

Frumvarpsdrögin eru nokkuð breytt frá fyrri tillögum og yfirlýsingum, líkt og héraðsmiðillinn BB.is greindi frá í gær.

Stærsta breytingin er fjármögnunin. Líkt og áður er gert ráð fyrir 15 milljörðum til þess að hjálpa til við sameiningarnar, en það er hin svokallaða gulrót sem Baldur vísaði til og átti að gera sameiningarnar álitlegri fyrir til dæmis smærri sveitarfélög sem vildu ekki sameinast þeim stærri, meðal annars af ótta við að missa mikilvæga þjónustu úr byggðarkjarna sínum.

Hins vegar á að mæta þessum kostnaði með skerðingum á öðrum framlögum til jöfnunarsjóðs, um sömu fjárhæð, eða einum milljarði á ári, til fimmtán ára.

„12. gr. Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilt að halda eftir allt að 1.000 millj. kr. af tekjum sjóðsins á hverju ári á tímabilinu 2020–2035 skv. a-lið, utan þeirrar fjárhæðar sem skal renna til málefna fatlaðs fólks, b-lið og d-lið 8. gr. a laganna, til að mæta greiðslu á sérstökum framlögum úr sjóðnum sem koma til vegna sameiningar sveitarfélaga, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. laganna,“

segir í drögunum að frumvarpinu.

Á aukalandsþingi í fyrra samþykkti meirihluti sveitarfélaga þingsályktunartillögu Sigurður Inga. Í ályktun fundarins var gengið út frá því að ríkið myndi styðja duglega við sameiningarnar fjárhagslega:

„Í tillögunni er gert ráð fyrir veglegum fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar sveitarfélaga og því er mikilvægt að ríkissjóður veiti sérstök fjárframlög til sjóðsins til að fjármagna þann stuðning.“

Baldur tekur fram að stóru sveitarfélögin hafi þó meira vægi en þau minni á slíkum landsfundi, þar sem þau eigi fleiri fulltrúa:

„Ef aðeins hefðu verið spurð þau sveitarfélög sem málið snerti og þvinguð verða í sæng með öðrum, hefði útkoman orðið önnur,“

segir Baldur við Eyjuna.

Forsendubrestur

Þannig munu sveitarfélögin sjálf þurfa að greiða fyrir sameininguna, líkt og Baldur bendir á:

„Það að halda eftir þessum fjármunum þýðir að peningarnir verða teknir af öðrum framlögum Jöfnunarsjóðs sem standa eiga undir þjónustu sveitarfélaganna. Það verður þannig minna til skiptanna í grunnskólaframlag, útgjöldajöfnunarframlag, tekjusjöfnunarframtal og svo framvegis,“

segir Baldur ennfremur við Eyjuna og bætir við að ríkið hafi aldrei beinlínis lofað þessum peningum:

„En það var veifað gulrót, sýndir peningar sem hvert sveitarfélag átti að fá við sameiningu við annað,“

segir Baldur og útskýrir að þetta komi sér illa fyrir sveitarfélög sem hafa ekki hug á því að sameinast:

„Sveitarfélög sem sameinast fá framlög, úr hægri vasa í þann vinstri. Þau sem sameinast ekki missa peninga úr hægri vasanum en fá ekkert í þann vinstri. Þetta er klárlega forsendubrestur fyrir sveitarfélögin í heild sinni.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Í gær

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Í gær

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ásdís Rán segist hafa verið óskipaður sendiherra Íslands

Ásdís Rán segist hafa verið óskipaður sendiherra Íslands
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðjón Auðunsson: Skuldsetning fasteignafélaga – þetta er eins og að snúa herskipi á andapolli

Guðjón Auðunsson: Skuldsetning fasteignafélaga – þetta er eins og að snúa herskipi á andapolli