Sunnudagur 26.janúar 2020
Eyjan

Hippaflugfélagið Loftleiðir – lögreglumaður þefaði af „hashlykt“

Egill Helgason
Þriðjudaginn 10. september 2019 20:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Loftleiðir voru í eina tíð stundum kallaðar hippaflugfélagið eða The Hippie Airline. Þetta var á árunum kringum 1970, Loftleiðir buðu ódýr fargjöld milli Evrópu og Bandaríkjanna. Það var flogið frá New York, millilent í Keflavík og svo lent í Luxemborg. Maður upplifði reyndar sjálfur tímann þegar Evrópuflug frá Íslandi fór að miklu leyti til Luxembourg – þaðan tók maður svo lest til Parísar til að mynda.

Það var stuð kringum Loftleiðir á þessum árum. Það er haft fyrir satt að Bill Clinton, síðar forseti, hafi flogið með Loftleiðum þegar hann fór til Evrópu. Og stundum hittir maður Bandaríkjamenn, sem gerast nokkuð aldraðir, sem rifja upp þegar þeir flugu með þessu ágæta félagi – og námu staðarí nokkuð óhrjálegri flugstöð á varnarsvæðinu á Miðnesheiði.

Hér er frétt af forsíðu Vísis frá því sumarið 1970. Þar er vitnað í umfjöllun hins víðlesna vikurits Time um Loftleiðir. Greinin er nokkuð neikvæð, segir að eina ástæðan fyrir vinsældum Loftleiða séu hin lágu fargjöld, það sé ekki þjónustan, maturinn, gæði flugvélanna eða aðstaðan á þeim hræðilega eyðistað Reykjavík.

En farþegunum er lýst svona áður en þeir fara í flugið:

„Ágætt sýnishorn af fólki því er ferðast með íslenzka flugfélaginu Loftleiðum var samankomið í síðustu viku í Luxemborg að bíða eftir fari til USA. Flestir farþeganna – örfáar fjölskyldur, margir bakpokamenn og mikill fjöldi ógreiddra hippa – höfðu beðið 6 klst. eftir flugvélinni eða lengur.

Fólkið hengslaðist um á grasflötinni og ræddi um stjarnfræðileg fyrirbæri eða skiptist á orðum inni í skýli því er þénar sem biðsalur. Örfáir farþeganna reyktu, og þeir sem gerðu það reyktu ekki endilega tóbak. Lögreglumaður kom inn í skýlið og þefaði af hashlykt, en hana er auðvelt að finna ef hash er reykt, lyktin er eins og af brennandi haustlaufi. Unglingarnir muldruðu í barm sér: Svín eru eins, hvar sem er í heiminum.““

Því er svo bætt við að þegar í flugvélina sé komið reiki hipparnir milli sæta, leitandi sér að félagsskap eða halli sér aftur í sætunum og auki við skítinn á hnakkadulunum.

Þetta var náttúrlega frekar móðgandi umfjöllun. Íslendingum þótti vænt um Loftleiðir – og þykir raunar enn, þeim sem muna. Umfjöllun Time er sögð ærumeiðandi í Vísisfréttinni. Segir Sigurður Magnússon, blaðafulltrúi Loftleiða, að greinin sé höfundi hennar og tímaritinu til skammar. Það sé dróttað að því að ungir Bandaríkjamenn séu eiturlyfjaneytendur, sem sé ærumeiðandi fyrir hina ungu og ágætu viðskiptavini Loftleiða.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Forstjóri Landsvirkjunar – „Verið að keyra þetta verkefni verulega hratt áfram“

Forstjóri Landsvirkjunar – „Verið að keyra þetta verkefni verulega hratt áfram“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Vandi Landspítalans leystur? – „Til allrar lukku hins vegar hefur ný nefnd verið skipuð“

Vandi Landspítalans leystur? – „Til allrar lukku hins vegar hefur ný nefnd verið skipuð“