Fimmtudagur 23.janúar 2020
Eyjan

Þegar Lækjartorg var miðpunktur mannlífs

Egill Helgason
Miðvikudaginn 17. júlí 2019 23:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndirnar hér á síðunni eru allar teknar á Lækjartorgi, við klukkuna sem er á torginu miðju og má segja að á þeim tíma hafi hún verið eins konar miðpunktur bæjarlífsins. Lækjartorg var lifandi staður, strætisvagnarnir fóru þar um og í kringum torgið var alls konar starfsemi.

Ætli megi ekki segja að Lækjartorg hafi séð fífil sinn fegurri. Það er heldur dauflegt núorðið, fátt sem minnir á forna frægð. Eiginlega óskiljanlegt að fyrir löngu hafi ekki verið gert eitthvað til að lífga upp á torgið.

Myndirnar birtust á vefnum Gamlar ljósmyndir. Það er einkenni á þeim öllum hvað fullorðnir karlar eru áberandi á bekkjunum við klukkuna. Sú efsta mun vera tekin á stríðsárunum. Þar sjáum við karla drekka í sig dálksentímetrana í dagblöðunum – þetta er sjaldséð sjón núorðið. En þarna biðu menn í ofvæni eftir blöðum til að fá fréttir.

Maður getur gert því skóna að fæstir þessara karla hafi verið fæddir í Reykjavík. Þannig var það á þessum árum, borgin var að miklu leyti byggð aðkomufólki. Manni finnst eins og karlarnir hafi sveitalegt yfirbragð. Íslendingar voru ekki alveg vissir hvort þeir vildu yfirleitt vera borgarbúar.

Í baksýn er Hótel Hekla. Þar hafði áður verið rekin hin glæsilega verslun Thomsens-magasín. En þarna var húsið orðið að hóteli og fór af því frekar slæmt orð, var talið lasta- og spillingarbæli á stríðsárunum. Það var svo rifið 1961 – nú stendur þarna eitt ljótasta hús í gervallri Reykjavík.

Um Hótel Heklu var ort:

Nú drekkum við ekki framar á Hótel Heklu
né háttum þar alls konar kvenfólk ofan á dívana.
Það stafar þó hvorki af kvenfólks- né áfengiseklu,
heldur einungis af því að það er verið að ríf’ana.

Næsta mynd er tekin síðar, líklega síðla á sjötta áratugnum. Persilstúlkan er enn á klukkunni. Karlarnir á myndinni eru með sixpensara. Annar þeirra virðist vera að taka í nefið. En þarna eru líka þrjár konur, kannski að bíða eftir strætó – miðstöð strætisvagnanna var þá á Lækjartorgi. Við sjáum á stöðu strætisvagnsins að þarna hefur ennþá verið vinstri umferð.

Síðasta myndin er svo tekin þegar komin er hægri umferð. Þarna eru fjórir karlar að ræða málin, og svo tvær unglingsstúlkur. Það er komin auglýsing fyrir Ljómasmjörlíki á klukkuna. Í bakgrunni sést skilti þar sem stendur Dráttarvélar h.f. Dráttarvélar voru dótturfyrirtæki Sambands íslenskra samvinnufélaga. Það var dálítið annar tími er nú þegar þótti raunhæft að selja dráttarvélar í miðbænum í Reykjavík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Harpa segir Sólveigu Önnu ljúga í fjölmiðlum

Harpa segir Sólveigu Önnu ljúga í fjölmiðlum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Brynjar svarar: „Felst sköpunarkrafturinn, framsýnin og hugrekkið í því að hækka skatta“

Brynjar svarar: „Felst sköpunarkrafturinn, framsýnin og hugrekkið í því að hækka skatta“