fbpx
Föstudagur 19.ágúst 2022
Eyjan

Dóra Björt vill ekki bólusetningaskilyrði: „Ég neita að taka þátt í svoleiðis skemmandi forræðishyggju“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 11. apríl 2019 15:07

Dóra Björt Guðjónsdóttir. Mynd/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tekist var á um bólusetningar á fundi borgarráðs í dag og hvort þær þyrftu að vera skilyrði fyrir leikskólavist barna, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður lagt til, til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma á borð við mislinga.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, Pírötum, segir nú sem endranær að hugmyndir Sjálfstæðismanna um boð og bönn muni einungis jaðarsetja börn foreldra sem stríði við skort á upplýsingum:

„Að neita börnum sem ekki eru bólusett um aðgang að leikskólum eins og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til á fundi Borgarráðs í dag með margendurtekinni tillögu sinni er til þess fallið að jaðarsetja börn foreldra sem líklega vantar flesta bara réttar upplýsingar um bólusetningar barna og betri aðstoð. Það myndi þýða frekari jaðarsetningu barna og foreldra sem þurfa frekar hjálp okkar. Miðað við núverandi stöðu er þessi harkalega aðgerð óþörf. Ég neita að taka þátt í svoleiðis skemmandi forræðishyggju og kaus því gegn þessari tillögu í dag.“

Segir Dóra Björt að líta beri til skýrslu sóttvarnarlæknis um málið:

„Boð og bönn Sjálfstæðisflokksins eru ekki svarið. Við viljum öll velferð barna. Við viljum að þau séu örugg. Besta leiðin til að auka þátttöku í bólusetningum er betri eftirfylgni og ráðgjöf heilsugæslunnar. Þessu er sóttvarnarlæknir sammála. Í skýrslu embættisins frá 2018 kemur fram að unnið er að því að auka eftirlit heilsugæslunnar með bólusetningum.“

Mildari hugmyndir Hildar

Fyrri tillagan sem Hildur lagði fram í dag er sú sama og hún lagði fram í fyrra og var þá felld af meirihlutanum meðal annars með þeim rökum að engin alvarleg tilfelli hefðu komið upp. Er það tillagan sem Dóra Björt gagnrýndi í færslu sinni.

Hildur sagði í samtali við Eyjuna að sú tillagan hafi verið lögð fram að nýju vegna þess að í millitíðinni hefði komið upp tilfelli með mislinga sem leiddi til mikillar umræðu um smitvarnir og bólusetningar og vísaði hún til þess að samkvæmt öllum þeim könnunum sem gerðar hefðu verið um bólusetningar, væri yfirgnæfandi meirihluti sammála því að setja bólusetningar sem skilyrði.

Hildur lagði hinsvegar fram aðra, mildari tillögu, eftir að sú fyrri var felld hið annað sinn. Hún tekur mið af gagnrýni meirihlutans og gerir Hildur sér von um að hún verði samþykkt. Verður kosið um þá tillögu á næstu vikum að sögn Hildar.

Tillagan er eftirfarandi:

 „Frá því meirihluti borgarstjórnar felldi tillögu mína um að gera almennar bólusetningar að inntökuskilyrði á leikskólum borgarinnar hef ég unnið að mildari útfærslu – útfærslu sem þó gæti náð því markmiði að auka þátttöku í almennum bólusetningum.

? Ég hef nú lagt til að borgin leiti samstarfs við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um aukna þátttöku barna í almennum bólusetningum. Þannig verði tryggð viðvera hjúkrunarfræðings í leikskólum borgarinnar með sambærilegum hætti og tíðkast í grunnskólum landsins. Hjúkrunarfræðingi leikskólanna yrði falið að framkvæma almennar bólusetningar leikskólabarna, að höfðu samráði og gefnu samþykki foreldra.

? Eins yrði kannað hvort fela mætti hjúkrunarfræðingi þroskamat og þroskaskimun inni á leikskólunum enda má ætla að skólarnir séu æskilegra og afslappaðra umhverfi fyrir slíka skimun.

? Sóttvarnarlæknir hefur tekið undir þessi sjónarmið og mælst til þess að borgin leiti eftir slíku samstarfi. Það er sérstaklega ánægjulegt og vekur von um samþykki tillögunnar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt