fbpx
Sunnudagur 06.júlí 2025
Eyjan

35 ára gamalt tímarit á biðstofu

Egill Helgason
Föstudaginn 13. desember 2019 20:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tímarit heyra nánast sögunni til. Einu sinni voru þau mörg og fjölbreytt, eftirsótt lesefni. Ég vann hjá tímaritum fyrr á blaðamannsferlinum, á Mannlífi, Heimsmynd og svo var ég viðriðinn tölublöðin tvö af tímariti sem hét Eintak. Við skrifuðum það saman við Gunnar Smári.

Þarna birti maður stundum greinar sem var heilmikil vinna í – löng viðtöl, pólitískar samantektir, ítarlegar menningarumfjallanir, ferðasögur.

Ég vann samt aldrei á Samúel. Það var þó alveg næstum. Einu sinni var ég án vinnu og ætlaði að fara á atvinnuleysisskrá hjá Blaðamannafélaginu. Fríða á skrifstofu félagsins tjáði mér að það væri aðeins einn blaðamaður á Íslandi sem hefði rétt á að vera á atvinnuleysisbótum, það var gamall blaðamaður sem var sagt að hefði eitt sinn átt vingott við Birgitte Bardot.

Í staðinn bauðst Fríða til að redda mér vinnu. Hún hringdi daginn eftir og sagði að ég gæti mætt á Samúel. En þá var ég kominn með annað starf – ég man reyndar ekki hvar.

Tímaritin voru margvísleg en nú eru þau flest hætt að koma út. Meira að segja Séð & heyrt heyrir sögunni til. Mér sýnist þó að Vikan komi ennþá út – hún stendur náttúrlega á gömlum merg. Ég sé á Wikipedia að hún kom fyrst út 1938 – sjálfur las ég Vikuna upp til agna þegar ég var krakki ef ég komst í hana. Blaðið var stundum með greinar um hljómsveitir og góðar teiknimyndasögur.

Maður þarf ekki að horfa langt til að sjá hvað drepur tímaritin. Ég fór á biðstofu á heilsugæslustöð í dag. Við vorum sex þar inni, það var grafarþögn, við mændum öll í símana okkar. Svo gerðist það að síminn minn varð batteríslaus – hann er kominn til ára sinna og orðinn lélegur. Ég sá að enn voru fjórir sjúklingar á undan mér svo ég sá mitt ráð óvænna og fór að lesa tímaritin sem þarna eru í sérstökum rekka.

Forsíðu fyrsta tímaritsins sem ég greip í rekkanum má sjá hér að ofan. Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta sé einhvers konar met. Umrætt blað er dagsett 7.-13. nóvember 1985. Það er semsé 35 ára gamalt. Það er næstum hálf mannsævi.

Forsíðuna prýðir hin stórbrotna söngkona Guðrún Á. Símonar. Hún er fólki sem er komið á miðjan aldur í fersku minni, vænti ég, en hún lést 1988. Inni í blaðinu var svo að finna teiknimyndasögurnar sem alltaf voru góðar í Vikunni.

Þarna eru Andrés Önd og Skuggi, The Phantom hét hann í bandarísku frumútgáfunni, en í Tímanum hét hann Dreki.

 

Og svo var þessi myndasíða sem minnir mann á að allir voru stjörnur í Hollywood.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól

Óttar Guðmundsson skrifar: Heillandi fól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið

Safna undirskriftum til að skora á Alþingsmenn að stöðva málþófið