Laugardagur 28.mars 2020
Eyjan

Karl Ágúst er kominn með upp í kok – „Er þetta kannski spurning um forgangsröðun?“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 11. desember 2019 17:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Ágúst Úlfsson er kominn með upp í kok vegna þeirrar vegferðar sem Ísland er á. Í pistli sem hann skrifar á Facebook-síðu sinni fer hann yfir öll þau helstu vandamál sem eru í íslensku samfélagi og ástæðuna fyrir því að við höfum ekki ennþá leyst þau.

„Ég bý í samfélagi þar sem læsi og lesskilningur er á hröðu undanhaldi. Það sem okkur þótti sjálfsagt mál fyrir einhverjum áratugum, að börnin okkar gætu notið þeirra eðlilegu mannréttinda að lesa sér til yndis og gagns, það er ekki sjálfsagt mál lengur,“ segir Karl. „Og ástæðan? Tjah, kannski vantar fjármuni í skólakerfið. Kannski þarf að bæta kjör kennara svo þeir bestu endist í starfi og leiti ekki eitthvað annað eftir lífsviðurværi. Kannski vantar líka betra námsefni. Kannski þurfum við að forgangsraða uppá nýtt og veita peningunum þangað sem raunveruleg verðmæti liggja. Sem sagt í menntun og vellíðan æskunnar. Er það kannski þannig sem við tryggjum framtíð okkar sem þjóðar?“

„Við vitum reyndar að allir þessir fjármunir eru til. Við vitum að sem ein ríkasta þjóð veraldar gætum við hæglega eignast besta og skilvirkasta skólakerfi í heimi. En við vitum líka, því miður, að peningarnir skila sér ekki þangað sem þörf er á þeim. Þeir sitja í fjárhirslum þeirra sem hafa eignast auðlindir okkar og troða arðinum af þeim í eigin vasa.“

Næst tekur hann heilbrigðiskerfið fyrir. „Ég bý í samfélagi þar sem heilbrigðiskerfinu fer hrakandi ár frá ári. Heilbrigðisstarfsfólk flýr land í stórum hópum vegna slakra launa, kostnaður sjúklniga við lækningar á eigin meinum fer síhækkandi, lyfjakostnaður verður mörgum ofviða,“ segir Karl. „Við horfum ráðþrota uppá stjórnvöld reyna að einkavæða lækningar og gera þeim efnaminni endanlega ókleift að fá bót meina sinna á meðan þeir sem meira mega sín geta haldið heilsu ef sjóðir þeirra endast. Og ástæðan? Ætli vanti kannski fjármuni í heilbrigðiskerfið? Ætli við gætum rétt af þessa skekkju ef við bættum kjör heilbrigðisstarfsfólks svo það gæfist ekki unnvörpum upp á aðstæðum sínum? Er þetta kannski spurning um forgangsröðun? Eða liggja ekki raunveruleg verðmæti í heilbrigði þjóðar, lækningu meina og almennri vellíðan?“

„Þessir fjármunir sem uppá vantar eru til, það vitum við. Íslenska heilbrigðiskerfið gæti orðið eitt af þeim bestu í heimi, vegna þess að við eigum fólk sem stenst samanburð við færustu heilbrigðisstéttir veraldar. Meinið er bara að peningarnir sem okkur vantar til að ná þessu marki liggja á aflandsreikningum víðs vegar um heiminn og eru ekki á leiðinni að skila sér á næstunni.“

Þá er komið að vandamálum aldraðra og öryrkja hér á landi. „Ég bý í samfélagi þar sem aldraðir og öryrkjar lepja dauðann úr skel. Flest þessa fólks hefur unnið hörðum höndum áratugum saman og skilað íslensku samfélagi óendanlegum verðmætum. Við launum því með því að gera það að ölmusumönnum á efri árum, skera endalaust niður lífsgæði þess, gera það að þriðja og fjórða flokks þegnum með lífeyris- og bótakerfi sem í fæstum tilfellum býður upp á mannsæmandi lífskjör. Og ástæðan? Kannski sú að við kunnum illa að þakka það góða sem okkur er gert. Okkur er tamara að gleypa það sem að okkur er rétt og gleyma síðan þeim sem gerði okkur gott.“

„En vitaskuld hefur fólkið sem nú hjarir í kringum fátæktarmörk fært okkur slíkar gjafir bæði í veraldlegu og öllu öðru tilliti að við fáum það aldrei fullþakkað. Málið er bara að arðurinn og vextirnir af vinnu þessa fólks rataði á bankareikninga undir síbreytilegum kennitölum.“

Karl tekur því næst fyrir menningu og listir. „Ég bý í samfélagi þar sem menning og listir skapa ómetanleg auðævi hvern einasta dag, bæði í beinhörðum peningum, veraldlegum verðmætum af öðrum toga svo og andlegum,“ segir Karl og bendir á að íslensk menningarstarfsemi skilar arði til samfélagsins mörgum sinnum umfram það sem ríkið leggur til í íslenska listastarfsemi. „Þrátt fyrir það eru kjör listamanna hér á landi langtum bágari en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Og samt höfum við haslað okkur völl úti í stóra heiminum og vinnum nú hvern stórsigurinn á fætur öðrum á alþjóðavettvangi. Ef íslensk stjórnvöld áttuðu sig á þeim gríðarlegu verðmætum sem liggja í landkynningu íslenskra listamanna yrðu fjárframlög til menningarmála aukin ár frá ári í stað þess að skera þau niður.“

„Peningarnir eru til, það vitum við vel. Vegna þess að við vitum að við eigum auðlindir sem geta vel staðið undir velsæld okkar allra. Við vitum meira að segja að við erum aflögufær og getum tekið á móti bágstöddu fólki sem ekki á í önnur hús að venda. Vandamálið er bara að arðurinn af auðlindunum okkar, hvort sem um er að ræða gjöful fiskimið eða vatnsorku landsins, skilar sér aldrei á rétta staði. Hann liggur óhultur á Tortola, á Caymaneyjum, í Luxemborg eða hvar það nú er sem skattaskjólin eru öruggust.“

Að lokum tekur hann fyrir spillinguna sem hefur verið mikið í umræðunni hér á landi upp á síðkastið. „Ég bý í samfélagi þar sem spillingin er orðin svo rótgróinn partur af þjóðlífinu að það þykir óeðlegt að gera athugasemd við hana,“ segir Karl. „Þar sem orðið „fyrirgreiðslupólitík“ er bara hlýlegt og fallegt orð og engin ástæða til að amast við því. Þar sem forréttindi þeirra sem völdin hafa eru hafin yfir allan vafa og þess vegna bara dónaskapur að gera sér grillur yfir því að þeir fari á svig við lög og reglur. Þar sem sumir af valdamestu mönnum samfélagsins hafa orðið uppvísir að því að þverbrjóta leikreglur þess sama samfélags án þess að hafa einu sinni þurft að sæta rannsókn, hvað þá að svara til saka. Þar sem þegnar sem minna mega sín hafa sætt úthrópun og þyngstu refsingu fyrir brot sem hljóta að teljast margfalt léttvægari en þau sem silkihúfurnar hafa framið. Þar sem menn geta einfaldlega beðið af sér reiði almennings yfir misgjörðum sem þeir hafa framið og síðan haldið uppteknum spillingarhætti þegar veðrið er gengið yfir. Þar sem ofbeldismenn geta treyst á stuðning vina sinna í valdastöðum til að sópa níðingsverkum undir hnausþykk teppi kerfisins. Þar sem vilji þjóðarinnar skiptir svo litlu máli að þjóðaratkvæðagreiðsla er hundsuð ef hún hentar ekki hagsmunum valdastéttarinnar. Og samt er þetta kallað lýðræðisríki.“

„Og ástæðan? Tjah, hvað veit ég? En ég hef grun um að hún liggi einhvers staðar á öruggum bankareikningi í öruggu skattaskjóli.“

 

https://www.facebook.com/karl.ulfsson/posts/10157892008519169

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 22 klukkutímum

Íbúðaskortur í kortunum innan fimm ára – Mikill samdráttur í byggingu íbúða milli ára – „Afgerandi skilaboð um stöðuna“

Íbúðaskortur í kortunum innan fimm ára – Mikill samdráttur í byggingu íbúða milli ára – „Afgerandi skilaboð um stöðuna“
Eyjan
Fyrir 23 klukkutímum
Einnota umboðssvik?
Eyjan
Í gær

Þetta eru aðgerðir Reykjavíkurborgar í efnahagsmálum vegna Covid -19

Þetta eru aðgerðir Reykjavíkurborgar í efnahagsmálum vegna Covid -19
Eyjan
Í gær

Setur milljarð í Innviðauppbygging heilbrigðiskerfisins á þessu ári vegna Covid-19

Setur milljarð í Innviðauppbygging heilbrigðiskerfisins á þessu ári vegna Covid-19