fbpx
Þriðjudagur 11.ágúst 2020
Eyjan

The Irishman, kunnuglegur sagnaheimur Scorseses með gömlu stórleikurunum

Egill Helgason
Föstudaginn 29. nóvember 2019 07:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir eru allir of gamlir fyrir hlutverkin – nema þá alveg undir lokin. Hingað til hefur vaninn verið að fá tiltölulega ungan leikara í myndir sem eiga að spanna heil æviskeið og nota svo farða ellegar tölvutækni til að láta þá sýnast aldraða. En í The Irishman eftir Martin Scorsese er farin þveröfug leið, leikararnir eru orðnir gamlir menn, en tæknin og farðinn eru notuð til að láta þá sýnast yngri.

Þetta virkar – svona næstum. Robert de Niro er í aðalhlutverkinu, hann er líka framleiðandi myndarinnar, það er erfitt að gera hann mjög ungan, en þetta truflar ekki mikið – andlitið er lagað í tölvu en hreyfingarnar eru nokkuð stirðar. Svo eru það nokkrir aðrir uppáhaldsleikarar Scorseses, Joe Pesci, Harvey Keitel og Al Pacino. Sá síðastnefndi sleppur eiginlega best frá þessu – hlutverk hans spannar ekki svo langt árabil.

Þarna vitjar Scorsese síns gamla sagnaheims, við þekkjum hann mæta vel úr Mean Streets, Goodfellas og Casino. Þetta er mafían, skipulagðir glæpir, samfélag bófa frá því um það bil í stríðslok og fram yfir 1970. Scorsese hefur mótað þennan heim í vitund okkar, talsmáta glæpamannanna, klæðaburðinn, stífmálaðar sígarettureykjandi konurnar, ákveðið smekkleysi sem getur verið býsna myndrænt – þetta smitaðist svo yfir í sjónvarpsþætti eins og Sopranos. Það er enginn sérstakur ljómi yfir þessum skúrkum. Þeir eru líka skelfilegir hræsnarar, eru sífellt að tala um vináttu, virðingu og sóma – milli þess að þeir svíkja, pretta og plotta og fremja lákúrulega glæpi. Manni finnst eiginlega ágætt að það fer illa fyrir þeim flestöllum í lokin.

Í The Irishman er farið í tengslin milli mafíunnar, skipulagðra glæpa, og verkalýðsfélaga. Al Pacino leikur Jimmy Hoffa, foringja verkalýðsfélags vörubílsstjóra sem nefndist Teamsters. Þetta var gríðarlega voldugt félag, Hoffa var snjall maður, félagið varð mjög fjölmennt og honum tókst að bæta kjör félagsmanna mikið. En um leið var hann í nánu samstarfi við glæpaöfl – þau ásældust hina gildu lífeyrissjóði félagsins og Hoffa notaði þá til að lána fyrir alls konar vafasömum framkvæmdum líkt og hótelum og spilavítum í Las Vegas.

Hoffa hvarf á endanum, var örugglega myrtur, en það er ennþá ráðgáta. Í myndinni er sett fram skýring á brotthvarfinu, að leigumorðingi og verkalýðsleiðtogi sem hét Frank Sheeran eða The Irishman hafi drepið Hoffa – svikið hann, þrátt fyrir að þeir hafi verið nánir vinir. Sú frásögn þykir víst orka nokkuð tvímælis.

Myndin var nokkra daga í kvikmyndahúsi, ég sá hana í Laugarásbíói – ég held hún sé ennþá sýnd í Bíó Paradís. Annars er hún komin á Netflix þótt hún sé glæný. Öðruvísi tókst Martin Scorsese, einum af meisturum kvikmyndasögunnar, ekki að fjármagna þessa mynd sína. Síðasta mynd Scorsese, The Silence, floppaði illa, en þar var hann á öðrum slóðum – meðal jesúítamunka í Japan á 17. öld. Sú mynd var vanmetin, hún var hæg og ekki alveg auðveld áhorfs, en mér sýnist The Irishman ögn ofmetin. En það er auðvitað gaman á sinn hátt að sjá stórleikarana Robert de Niro og Al Pacino taka þennan slag, með nokkuð kunnuglegum persónum, svona alveg undir lok ferilsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þungar ásakanir á Vegagerðina eftir ógilta samkeppni um brú yfir Fossvog – „Endanleg staðfesting á því hversu rotið þetta er“

Þungar ásakanir á Vegagerðina eftir ógilta samkeppni um brú yfir Fossvog – „Endanleg staðfesting á því hversu rotið þetta er“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Óli Björn mun ekki greiða atkvæði með skattahækkunum

Óli Björn mun ekki greiða atkvæði með skattahækkunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn

Yngstu þingmenn 21. aldarinnar á Íslandi – Tvö jafn gömul upp á dag þegar þau urðu þingmenn