fbpx
Föstudagur 14.ágúst 2020
Eyjan

Söknuður eftir hinu sérstaka listformi plötuumslögum

Egill Helgason
Sunnudaginn 24. nóvember 2019 17:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég sakna hljómplatna og ekki síður plötuumslaga. Fór að hugsa um þetta við lestur á Stöðu pundsins eftir Braga Ólafsson. Þar gegna plötur og umslög miklu hlutverki. Unglingur í bókinni pantar sér plötur frá Englandi og það er nokkuð tilstand. Þar kemur meðal annars við sögu frægt umslag plötunnar Country Life með Roxy Music sem ungmenni þorðu varla að láta foreldra sína sjá – svo hefur tíðarandinn breyst að þetta stuðar varla neinn lengur. Reyndar spurning hvort hin teprulega Facebook leyfir þessa mynd – Facebook umber ekkert sem gæti verið klámfengið en leggur blessun yfir dónaskap, heift og öfgar.

Plötuumslög döfnuðu á mjög sérstöku sviði. Þau voru ekki myndlist en samt ekki bara hönnun eða auglýsingamennska. Voru eiginlega á svæðinu þarna á milli. Þess vegna verður frelsið í gerð plötuumslaga svo mikið. Það mátti eiginlega allt. Meira að segja gera tilraunir með alls kyns smekkleysi.

Við bætist svo sá kostur plötuumslaga að þau innihalda miklar upplýsingar um gerð hljómplatna, hljóðfæraleikara, útgáfuna, söngtextana. Það er hægt að skoða plötuumslög í krók og kring. Sum plötuumslög kann maður eiginlega utanað. Umslögin þjónuðu innihaldinu og bættu við það.

Með tilkomu stafrænnar tónlistar í tölvum er þetta allt öðruvísi. Það eru gefin út lög en samstæð verk eins og lp-plöturnar voru skipa lægri sess en áður. Á Spotify eru afar litlar upplýsingar, maður verður eiginlega að gúgla það sérstaklega – það sést ekki hvenær lög voru samin eða hvenær þau voru gefin út. Þetta er eiginlega mjög ófullnægjandi.

Nú orðið er tónlistin orðin eins og vatn eða loftið sem maður andar að sér. Það er alls staðar tónlist, á veitingastöðum, í kjörbúðum. Á ensku er til orðatiltækið familarity breeds contempt. Það má kannski segja um stöðu tónlistar í samtímanum. Í sögu Braga er lífið allt öðruvísi.

Drengurinn er semsé að panta plötur frá Englandi. Þessi sögupersóna er nokkurn veginn jafnaldri minn. Hann er meira að segja alinn upp í sama bæjarhluta og ég. Ég man hvað það gat verið mikið vesen að ná í lög eða plötur sem maður vildi heyra. Maður fór til útlanda og kom klyfjaður af hljómplötum heim. Maður sætti færis að fara í heimsóknir eða partí hjá þeim sem áttu plötur sem maður þráði að heyra. Bróðir vinar míns átti herbergi fullt af plötum. Við máttum ekki fara þangað inn en stálumst einstöku sinnum til þess til að hlusta á Fleetwood Mac, Cream, Blind Faith. Eldri systkinum var náttúrlega annt um nálarnar í plötuspilurunum og að plöturnar rispuðust ekki.

Plötuumslög mæla líka tímann fyrir manni, þau eru einstakur tímavísir. Hvíta albúm er 1968, Abbey Road 1969, Bítlarnir voru frumkvöðlar í frumlegum plötumslögum eins og fleiru. Bridge over Troubled Water er 1970, Tea for the Tillerman með Cat Stevens 1971, líka Stonesplatan Sticky Fingers með rennilásnum.

Maður getur haldið svona áfram. Harvest með Neil Young er 1972, Dark Side of the Moon með Pink Floyd er 1973 – jú, og Houses of the Holy með Led Zeppelin, önnur Pink Floyd plata, Wish You Were Here er 1975. Desire með Dylan 1976. 1977 er svo Never Mind the Bollocks með Sex Pistols, en ég hlustaði reyndar meira á Aja með Steely Dan og Saturday Night Fever með Bee Gees.

Og svo má lengi telja, þetta er auðvitað minn listi, aðrir eiga allt öðruvísi lista.

En plötubúðir, plötur og plötualbúm höfðu sterka stöðu í vitundinni. Í fyrsta skipti sem ég ferðaðist til útlanda var sumarið 1973. Ég fór til Lundar í Svíþjóð og dvaldi þar fimm vikur hjá frænku minni. Ég held að varla hafi liðið dagur án þess að ég kíkti í plötubúðir bæjarins, þær voru tvær talsins, önnur í Gleerups bókabúðinni, hin í kaupfélaginu á Mårtenstorget. Ég man nákvæmlega hvaða plötur voru útstilltar – There Goes Rhymin’ Simon með Paul Simon, Red Rose Speedway með Paul McCartney, Billion Dollar Babies með Alice Cooper, Living in the Material World með George Harrison og Ted – plata með sænsku ungstirni sem hét Ted Gärdestad. Hann var undarlegt fyrirbæri sá, táningur sem hafði mikla hæfileika, bilaðist seinna geði, en samdi falleg lög, vann með Birni og Benny úr Abba.

Ég var reyndar óvenju góður í plötuumslögum. Las þau í þaula. Og af því ég er minnugur á nöfn festust í huga mér alls konar hljóðfærarleikarar, söngvarar og upptökustjórar. Þetta hefur komið sér vel. Fyrir næstum tveimur áratugum var ég á grískri eyju og var þar kynntur fyrir manni hvers nafn ég mundi af nokkrum plötuumslögum. Hann var ekki stjarnan neins staðar, nafn hans var í smáa letrinu, en hann hafði komið nálægt gerð nokkurra fjarska vinsælla hljómplatna. Ég kveikti á þessu og nú er þessi maður einn allrabesti vinur minn og öll hans fjölskylda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Óraunhæft að loka landamærum og ósanngjarnt að kenna ferðaþjónustunni um – Veiran komin til að vera

Óraunhæft að loka landamærum og ósanngjarnt að kenna ferðaþjónustunni um – Veiran komin til að vera
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Leynileg upptaka Samherja af Helga Seljan verður opinberuð – „Þú mátt ekki segja þeim frá þessu“

Leynileg upptaka Samherja af Helga Seljan verður opinberuð – „Þú mátt ekki segja þeim frá þessu“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðmundur hjólar í Sigmund – Líkir honum við stuðningsmenn Trump sem neita að nota grímu

Guðmundur hjólar í Sigmund – Líkir honum við stuðningsmenn Trump sem neita að nota grímu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Borgin verður krafin svara vegna brúarklúðursins: „Efla hf.er stór viðskiptavinur borgarinnar“

Borgin verður krafin svara vegna brúarklúðursins: „Efla hf.er stór viðskiptavinur borgarinnar“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Samherji hafnar ásökunum um arðrán

Samherji hafnar ásökunum um arðrán
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Allir dagar eiga að vera Hinsegin dagar“

„Allir dagar eiga að vera Hinsegin dagar“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðmundur Franklin opnar á þingframboð – „Tígrisdýrin breyta ekki röndunum á sér.“

Guðmundur Franklin opnar á þingframboð – „Tígrisdýrin breyta ekki röndunum á sér.“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ísland reiðubúið að styðja Líbanon eftir sprenginguna í Beirút

Ísland reiðubúið að styðja Líbanon eftir sprenginguna í Beirút