fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Eyjan

Páll valtar yfir Miðbæjarfélagið – „Hæpið að þeir geti kallað annað fólk lygara“

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 21. nóvember 2019 14:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðustu mánuði hafa lokanir gatna í miðborginni verið mikið í umræðunni. Tekist hefur verið á um ágæti þess að götum miðborgarinnar verði breytt í göngugötur en ekki eru allir á sama máli. Páll Tómas Finnsson skrifar skoðanapistil í Fréttablaðið í dag þar sem hann fer yfir rangfærslur hins svokallaða Miðbæjarfélags.

Páll fer yfir hinn umtalaða undirskriftalista Miðbæjarfélagsins en félagið hefur haldið því fram að 92% rekstraraðila á Laugavegi, Bankastræti og Skólavörðustíg séu á móti lokunum gatnanna. Páll fór yfir listann en hann vill meina að um stórlegar ýkjur sé að ræða af hálfu Miðbæjarfélagsins. „Ekkert af þessu stenst nánari skoðun,“ segir Páll.

„Söfnun undirskrifta hófst haustið 2018 og var listinn afhentur borgarstjóra í mars 2019. Nýlega birtist svo auglýsing í Morgunblaðinu, þar sem fyrirtækin voru sögð á móti lokunum gatna í miðborginni. Í kjölfarið hafa komið fram rekstraraðilar sem eru ósáttir við að nöfn fyrirtækja þeirra séu notuð í þessu samhengi – að þau hafi skrifað undir á allt öðrum forsendum á sínum tíma. Á listanum eru 246 undirskriftir frá 212 manns. Um er að ræða 35 einstaklinga sem ekki eru skráðir í fyrirtækjaskrá, 40 sem skráðir eru sem einstaklingar í atvinnurekstri, og 171 undirskrift frá fyrirtækjum sem skráð eru á 142 fyrirtækjakennitölur.“

Páll segir að við nánari skoðun þá komi margt í ljós. Hann segir 10 rekstraraðila hafa skrifað tvisvar undir, þar af þrír sem voru strikaðir út áður en listinn var afhentur til borgarstjóra.

„Mistök, gæti einhver sagt, en það vekur ákveðna athygli að einn þeirra sem skrifa tvisvar undir er stjórnarmaður í Miðbæjarfélaginu. Tveir aðilar hafa aldrei verið með rekstur á því heimilisfangi sem forsvarsmenn listans tengja þá við, átta eru hættir rekstri og að minnsta kosti 18 eru fluttir af svæðinu. Minnst tíu aðilar hafa lýst því yfir að þeir séu ósáttir við að vera á listanum eða í vafa um hvort þeir myndu skrifa undir í dag.“

Þegar litið er á staðsetningu fyrirtækjanna sem eru á listanum segir Páll að mörg þeirra séu utan þess svæðis sem fyrirhugað er að breyta í göngugötur.

„Vissulega munu breytingarnar hafa einhver áhrif á fyrirtæki í næsta nágrenni svæðisins, en hins vegar er erfitt að sjá að þær breyti nokkru um aðgengi að bókaverslun og veitingastað í Austurstræti, hársnyrtistofum í Bergstaðastræti, dýralæknastofu efst á Skólavörðustíg eða fyrirtækjum við Lækjargötu, Hafnarstræti, Hverfisgötu og Freyjugötu. Allt eru þetta dæmi af lista Miðbæjarfélagsins.“

Páll segir þá að fjölmörg fyrirtæki komi fyrir oftar en einu sinni á listanum. Hann segir 46 undirskriftir vera frá sjálfstætt starfandi listamönnum og hönnuðum á sex stöðum. 12 þeirra eru frá einu listagalleríi á Laugavegi og samtals sextán eru frá tveimur fyrirtækjum á Skólavörðustíg, galleríi og hönnunarbúð. Auk þess eru margir einstaklingar að skrifa undir fyrir sömu fyrirtækin.

„26 undirskriftir, yfir 10% [af öllum undirskrifunum], eru frá hárskerum og hársnyrtistofum. Þar af er 21 frá einyrkjum sem í mörgum tilfellum starfa fleiri saman á stofu. Sem dæmi má nefna að fjórir hárskerar á hársnyrtistofu sem nýlega flutti af Skólavörðustíg skrifa undir listann, og 15 undirskriftanna eru frá aðilum sem starfa á fimm stofum, þrír og þrír saman.“

Páll vill taka það fram að hann ber mikla virðingu fyrir fólki sem er í sjálfstæðum atvinnurekstri, gagnrýni hans snýr alls ekki að þeim. Hann segir það hins vegar vera augljóst að framsetning Miðbæjarfélagsins er einungis gerð til þess að ýkja andstöðuna gegn lokunum gatna í miðbænum.

„Talan sem Miðbæjarfélagið hefur haldið á lofti varðandi starfsmannafjölda virðist vera algjörlega úr lausu lofti gripin. Hún er í raun mun hærri en sú tala sem kemur út séu allar upplýsingar um starfsmannafjölda lagðar saman – þar með talið þau fyrirtæki sem eru oft á listanum, telja sig ekki eiga þar heima, eru flutt, hætt rekstri eða staðsett utan þess svæðis sem um ræðir.“

Páll segir það sama eiga við um fullyrðingu Miðbæjarfélagsins, að 92% rekstraraðila á Laugavegi, Bankastræti og Skólavörðustíg mótmæli lokunum gatna á svæðinu. Hann kemur síðan með útreikningana sína sem sína fram á að mun færri rekstraraðilar séu í raun og veru á móti þessum lokunum.

„Fyrirtækin sem skrifa undir í þessum þremur götum eru 121, sé hverju þeirra gefið eitt atkvæði og að frátöldum þeim sem ekki ættu að vera á listanum að ofantöldum ástæðum.

Samkvæmt talningu sem Rannsóknarsetur verslunarinnar framkvæmdi í júní 2019 eru útsölustaðir verslunar og þjónustu í þessum götum 289 talsins, sem er fjölgun um níu frá árinu 2015. Skrifstofuhúsnæði og fasteignafélög eru þar ekki talin með, en átta slík fyrirtæki á svæðinu eru á lista Mið­bæjar­félagsins.

Niðurstaðan er því sú að af 289 útsölustöðum verslunar og þjónustu við Laugaveg, Bankastræti og Skólavörðustíg eru 113 á undirskriftalistanum. Það eru því ekki 92% fyrirtækja í þessum götum sem skrifa undir listann, heldur að hámarki 39%. Það er því augljóst að Miðbæjarfélaginu gengur eitthvað annað til en að stuðla að upplýstri og málefnalegri umræðu um göngugötur í Reykjavík.“

Hann segist sjálfur vera hlynntur því að götunum verði breytt í göngugötur en hann telur að það verði gott fyrir miðborgina og þá sem þar starfa. Auk þess segir hann að það sé að sjálfsögðu mikilvægt að taka tillit til mismunandi sjónarmiða hjá rekstraraðilum.

„Hins vegar er afleitt að umræðan byggist á úreltum undirskriftalistum og misvísandi upplýsingum eins og þeim sem Miðbæjarfélagið hefur ítrekað sett fram. Það er óneitanlega hæpið að þeir sem halda uppi slíkum málflutningi geti útnefnt sjálfa sig boðbera sannleikans og kallað annað fólk lygara.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ímynd Samherja var svo stórsködduð að hún gat varla orðið verri – Samt er hún orðin það segir Kolbrún

Ímynd Samherja var svo stórsködduð að hún gat varla orðið verri – Samt er hún orðin það segir Kolbrún
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

RÚV fordæmir Samherja – „Helgi Seljan er einn öflugasti rannsóknarblaðamaður landsins“

RÚV fordæmir Samherja – „Helgi Seljan er einn öflugasti rannsóknarblaðamaður landsins“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Helgi Seljan sakaður um lögbrot – Sjáðu þátt Samherja

Helgi Seljan sakaður um lögbrot – Sjáðu þátt Samherja