fbpx
Föstudagur 14.ágúst 2020
Eyjan

Johnson með þreyttu brandarana og Corbyn bara þreyttur

Egill Helgason
Miðvikudaginn 30. október 2019 23:59

Jeremy Corbyn og Boris Johnson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í Bretlandi verður farið í kosningar 12. desember – á degi þar sem er talið ólíklegt að ungir námsmenn geti notað atkvæði sín – og þær munu væntanlega snúast nær eingöngu um Brexit. Það er kaldhæðnislegt, því fyrir fáum árum var veran í ESB eða útganga úr sambandinu neðarlega á lista yfir þau mál sem kjósendum í Bretlandi fannst mikilvægust.

Líklega mun Verkamannaflokkur Corbyns reyna að koma öðrum málum að – en það er ekki sérlega líklegt að honum verði kápan úr því klæðinu. Skoðanakannanir mæla lítið fylgi Verkamannaflokksins og skort á trausti hjá Corbyn. Nýjabrumið sem var af honum í kosningunum 2017 er farið. Stór hluti flokksmanna er sáróánægður með hann – sagt er að hann muni reyna að koma vinstrisinnuðum frambjóðendum í þingsæti og muni njóta til þess stuðnings Momentum, hreyfingar sem styður hann.

Í nýjustu skoðanakönnunum er Íhaldsflokkurinn með 8 og upp í 16 prósentustiga forskot á Verkamannaflokkinn.

Kosningakerfið í Bretlandi er þannig skapað að allt bendir til Boris Johnson muni vinna drjúgan meirihluta á þingi. Honum nægir að fá 35 prósenta fylgi – sökum þess hversu stjórnarandstaðan er sundruð. Með því getur hann framkvæmt hið harða Brexit sem stuðningsmenn hans dreymir um, þótt líklega verði það ekki samningslaust. En það vill gleymast að þótt Brexit gangi í garð eiga Bretar enn eftir að semja við Evrópusambandið um ótal hluti og það þarf líka að setja nýja löggjöf til að leysa af hólmi lög sem koma frá ESB. Það er spurning hversu nálægt Bandaríkjunum Johnson reynir að færa Bretland.

Hann á náttúrlega ekki von á neinum þingsætum í Skotlandi. London er vafi – meirihluti íbúanna þar er á móti Brexit. Hins vegar getur Johnson herjað á kjördæmi þar sem Verkamannaflokkurinn hefur haft meirihluta en eru höll undir Brexit. Það hefur líka orðið vart við tilraunir Íhaldsflokksins til að dæla út peningum til að kaupa fylgi þar sem hann hefur staðið höllum fæti.

Á sinn hátt verður forvitnilegt að sjá Johnson og Corbyn takast á. Johnson með sinn eilífa leikþátt og þreyttu brandara. Og Corbyn sem virkar bara þreyttur. Eftir japl, jaml og fuður í þinginu neyddist Corbyn til að samþykkja kosningar sem hann mun nær örugglega tapa stórt. Verkamannaflokkurinn, Frjálslyndir demókratar og Skoski þjóðarflokkurinn hefðu getað komið í veg fyrir kosningarnar, en tveir síðarnefndu flokkarnir sjá fram á að vinna á í þingkosningunum og virðast ánægðir með það – jafnvel þótt fórnarkostnaðurinn sé líklega heilt kjörtímabil af Johnson og hörðum Brexitsinnum í Downingstræti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“