Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra Stundarinnar, gagnrýndi í gær Fréttablaðið fyrir að slá upp á forsíðu hörðum ummælum Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, um gagnrýni Gylfa Magnússonar, formanns bankaráðs Seðlabankans, á frumvarp til laga um einföldun á samkeppnislöggjöfinni.
Gylfi telur að frumvarpið sé mjög að skapi fákeppnismógúla sem vilji forðast samkeppniseftirlit. Orðrétt sagði hann að „blautir draumar fákeppnismógúla væru að rætast“ með því.
Þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða Halldórs Benjamíns á þessari gagnrýni bankaráðsformannsins þá voru þau viðbrögð mjög hörð:
„Formaður bankaráðs verður að gæta þess að vegna stöðu hans er á hann hlustað, orð hans metin bæði hér á landi og erlendis. Það stendur upp á hann að skýra hvernig þetta samræmist stöðu hans og ég vænti þess að gengið verði eftir þeim skýringum.“
Jón Trausti gagnrýnir í pistli sínum í Stundinni að Fréttablaðið hafi kosið að slá þessum ummælum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins upp á forsíðu og veltir því fyrir sér hvort þar sé ný ritstjórnarstefna blaðsins að raungerast í fréttaflutningi. Nýráðinn ritstjóri Fréttablaðsins, Jón Þórisson, kynnti ritstjórnarstefnu blaðsins í leiðara um síðustu helgi. Samkvæmt henni er það stefna Fréttablaðsins að halda uppi borgararlegum viðhorfum, víðsýni og frjálslyndi. Frelsi er gert hátt undir höfði og hag neytenda haldið á loftið. Jafnframt aðhyllist Fréttablaðið alþjóðlegt samstarf Íslendinga á breiðum vettvangi og horft sé til þess að dýpa slíkt samstarf til framtíðar. – Er þar talið að vísað sé til mögulegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Höfundur umræddrar forsíðufréttar Fréttablaðsins er Björn Þorfinnsson. Hann svarar gagnrýni Stundarinnar í viðhorfsdálkinum „Frá degi til dags“ í dag. Notar hann millifyrirsögnina „Dramatísk hjá Stundinni“ og virðist þar henda gaman að Stundinni. Hann gefur síðan skýringu á forsíðuuppslættinum:
„Forsíðufrétt blaðsins í gær var talin marka tímamót í fjölmiðlasögu Íslands að mati ritstjóra Stundarinnar. Í stuttu máli vegna þess að blaðið væri augljóslega orðið verkfæri Evrópusinnaðra auðmanna.
Raunveruleikinn er þó sá að stuttu fyrir prent vantaði skyndilega forsíðufrétt og blaðamaður á vakt er mikill áhugamaður um svæsin rifrildi valdamanna.“