fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Epískasta kvikmynd allra tíma

Egill Helgason
Mánudaginn 26. ágúst 2019 14:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef verið að horfa á einhverja ævintýralegustu kvikmynd allra tíma. Þetta er sjö klukkutíma löng mynd sem gerð var í Sovétríkjunum á árunum 1965-67 eftir hinni miklu skáldsögu Tolstojs, Stríði og friði. Þarna var ekkert til sparað, má næstum segja að orrusturnar við Austerlitz, Borodino og Moskvu hafi verið endurgerðar í fullri stærð.

Á tíma þíðunnar í valdatíð Krúsjovs var bandarísk útgáfa af Stríði og friði sýnd í Sovétríkjunum. Audrey Hepburn lék Natösju Rostovu en Henry Fonda Pierre Béshukov. Þetta var stórmynd, leikstýrð af King Vidor og mæltist vel fyrir.

En ráðamönnum í Sovétríkjunum þótti ekki gott að Bandaríkin hefðu síðasta orðið í kvikmyndun hins mikla skáldverks. Þetta var í Kalda stríðinu og metingur stórveldana í fullum gangi. Leikstjórinn Sergei Bondartsjúk, var fenginn til að gera mynd eftir Stríði og friði. Til þess fékk hann nær ótakmörkuð fjárráð, aðstoð frá Rauða hernum, aðgang að söfnum, gömlum munum og sögufrægum byggingum. Ekkert var sparað til að gera verkið eins stórt og hægt væri.

Bondartsjúk þótti frekur og yfirgangassamur og margir vildu ekki vinna með honum. En honum tókst safna um sig gríðarlegri sveit kvikmyndatökumanna og tæknifólks auk þess sem aðstoð Rauða hersins tryggði honum endalausan fjölda af aukaleikurum, eins og sést í styrjaldaratriðunum. Þetta er fyrir tíma tölvutækni, en maður sér herina teygja sig eins langt og augað eygir. Sagt er að Bondartsjúk hafi notað 120 þúsund statista – hermennirnir eru allir í búningum sem eru eins nálægt því að vera upprunalegir og hægt var.

Myndin var tekin með breiðtjaldstækni og í fínustu litum sem völ var á. Það eru ekki bara orrusturnar sem eru stórar í sniðum, heldur líka dansleikir og veislur hefðarfólksins, úlfaveiðar úti í skógi – allt þurfti að vera ekta, meira að segja hundategundin sem var afar   hestaferðir og ferðalög um vetur á sleðum yfir snjóbreiður. Stundum skilur maður ekki alveg hvernig atriðin hafa verið í framkvæmd, Bondartsjúk byggði krana og teina fyrir kvikmyndavélarnar og gat notað flugvélar og þyrlur eins og hann vildi.

Sjálfsálit hans var svo mikið á þessum tíma að sjálfur lék hann aðalkarlhlutverkið í myndinni, sjálfan Pierre Béshúkov. Ballerínan Ljúdmíla Saveljéva lék Natösju. Hún var reyndar undarlega lík Audrey Hepburn.

Það er í raun ekki hægt að reikna út hvað öll þessi feikn kostuðu, því aðstoðin sem Bondartsjúk naut frá ríki og her verður varla metin til fjár. Það hefur þó verið metið að kostnaðurinn hafi verið allt að milljarður dollara að núvirði.

Myndin var sýnd í fjórum hlutum á árunum 1965-67. Hún varð gríðarlega vinsæl í Sovétríkjunum, sló aðsóknarmet, og fékk Óskarsverðlaun sem besta erlenda kvikmyndin. Stærð hennar var þó slík að erfitt var að sýna hana, bara þyngdin á kvikmyndaspólunum sem þurfti að flytja var óskapleg. Intelligensían í Sovétríkjunum hafði alltaf dálítið horn í síðu þessa verkefnis, fannst það útblásið og bera vott af sýndarmennsku, og myndin féll smátt og smátt í gleymskunnar dá. Nokkrum árum síðar gerði Bondartsjúk mynd á ensku ásamt framleiðandanum Dino de Laurentis, hún fjallaði um orrustuna við Waterloo, stríðssenurnar voru stórkostlegar sem fyrr, Rod Steiger lék Napóleon af mikilli innlifun, en myndin gekk ekki vel.

Það er Stríð og friður sem er því bautasteinn Bondartsjúks. Hann var að mörgu leyti óþolandi maður, en það hefur þurft mikinn viljastyrk og kraft til að koma þessu ógurlega verki saman. Hann nýtur líka hins listræna frelsis – í myndinni eru alls konar tilraunir með kvikmyndavinnslu, í bland við hin nauðsynlegu skot af trjám og himninum og nokkuð ýkta tjáningu í leik sem var óhjákvæmilegt í sovéskri kvikmyndagerð. Það er ekki bara hin mikla sviðsetning sem er stórbrotin, heldur líka dirfskan, og það að Bondartsjúk skuli ná að halda utan um þetta allt án þess að missa tökin – og um leið koma skáldsögunni býsna vel til skila.

Kvikmyndagagnrýnandinn frægi Robert Ebert skrifaði um Stríð og frið á sínum tíma og kallaði hana stórkostlega og einstaka – mestu epísku kvikmynd allra tíma, fremri en Gone With the Wind. Hann sagðist hafa búist við því að honum myndi leiðast á myndinni, en svo hafi alls ekki verið, hún sé ekki bara stór í sniðum heldur nái kvikmyndin líka að sýna í persónur sögunnar og lifa sig inn í þær.

Helst þyrfti maður náttúrlega að sjá Stríð og frið á breiðtjaldi í stóru kvikmyndahúsi. Hún hefur nú verið endurgerð með stafrænni tækni, það var gríðarlegt verk, enda hafði ýmislegt týnst af upprunalegu útgáfunni og það þurfti að leita í söfn víða um heim til að koma saman sem heillegastri útgáfu. Það tókst, myndin vakti mikla athygli þegar hún var sýnd í Lincoln Center í New York síðastliðið vor og nú er hægt að sjá hana á kvikmyndaveitunni Criterion Channel. (Mér tókst að gerast áskrifandi að henni þegar ég var í Bandaríkjunum í sumar.)

Var þessi kvikmynd nokkurn tíma sýnd hér á Íslandi – fyrir utan í nokkur skipti í gamla sal Menningarsamskipta Íslands og Ráðstjórnarríkjanna eða MÍR-salnum?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?

Guðjón Auðunsson: Enn sérstakt áhættuálag á Ísland hjá erlendum fjárfestum – krónan þjóðhagslegt vandamál?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?

Óttar Guðmundsson skrifar: Rétthugsun?