Kjördæmadagar standa nú sem hæst og þá bregða ráðherrar og þingmenn undir sig betri fætinum og heimsækja kjördæmis sín til að hitta kjósendur.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, birti mynd á Facebook í dag þar sem sést í þá Ásmund Friðriksson, Sjálfstæðisflokki og Sigurð Inga Jóhannsson, samgönguráðherra Framsóknarflokksins. Vitaskuld er Ásmundur við stýrið, enda eflaust þeirra reynslumesti bílstjóri.
Athygli vekur þó að fyrir miðju mælaborðsins í bílaleigubílnum sést glitta í radarvara, en þeir eru notaðir til þess að komast hjá því að verða fyrir barðinu á lögreglunni vegna hraðaksturs, þar sem þeir gefa frá sér viðvörun ef þeir nema radargeisla yfirvaldsins. Það vita þó ekki allir að lögreglan getur mælt hraða bíls úr allt að 5 kílómetra fjarlægð, en margir radarvarar ná ekki að greina geisla lögreglu frá slíkri fjarlægð.
Aðspurður hvort menn væri aðeins að „gefa í“, sagði Ásmundur við Eyjuna:
„Nei nei, þetta er bara einskær áhugi minn á tækjum. Ég á þetta tæki og ég hef bara ekkert um þetta að segja skilurðu, ég er bara ágætlega heiðarlegur ökumaður. Við höfum alltaf keyrt saman og samnýtt bíla í kjördæmaviku, þetta eru góðir ferðafélagar. Það eru sagðar sögur og létt yfir mannskapnum.“
Í samtali við Fréttablaðið sagði Oddný:
„Ef þetta er radarvari þá heyrðist ekkert í honum. Ég var bara farþegi.“
Aðspurður um radarvarann sagði samgönguráðherra:
„Ég veit ekkert um það.“