Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, leggst gegn hugmyndum Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem hún kynnti í gær, um að bólusetning barna væri skilyrði fyrir leikskólaplássi þeirra. Þórólfur segir í Fréttablaðinu í dag að hann telji óþarfi að beita slíkri „hörku“:
„Á mörgum sviðum vildum við vissulega hafa betri þátttöku í bólusetningum. Ástæðan fyrir því að þátttakan er ekki nógu góð er samt að okkar mati ekki sú að svona margir foreldrar séu á móti bólusetningum. Það eru til staðar ákveðin kerfislæg vandamál sem tengjast skráningu og innköllunarkerfi á ákveðnum aldri. Ég tel óráðlegt að fara fram með svona hörku þó ég skilji málflutninginn og áhyggjurnar. Við erum á fullu að reyna að laga þetta í samvinnu við heilsugæsluna. Þátttökutölur eru samt meiri en við erum að birta vegna ákveðinna skráningarvandamála.“
Hugmynd Hildar var sett fram vegna aukningar í mislingasmitum í Evrópu síðastliðin tvö ár og áhyggjum sóttvarnarlæknis af minni þátttöku í bólusetningum hér á landi. Þórólfur segir enga dreifingu á sjúkdómnum hér innanlands:
„Við höfum verið að sjá eitt og eitt mislingatilfelli koma að utan en það er engin dreifing á sjúkdómnum innanlands. Ef okkur tekst ekki að auka þátttöku í bólusetningum og förum að sjá einhverja dreifingu sjúkdóma innanlands, þá getum við skoðað aðrar leiðir.“
Á síðasta ári lagði Karen E. Halldórsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fram svipaða hugmynd, en niðurstaðan varð sú að bærinn hafði ekki heimild til að neita óbólusettum börnum um leikskólavist:
„Ég trúi því staðfastlega að sveitarfélög eigi að hafa þessa heimild. Við þurfum sterkari lagagrundvöll en þetta stendur upp á Alþingi,“
segir Karen við Fréttablaðið.
Halldór Auðar Svansson, fyrrum borgarfulltrúi Pírata, var afar gagnrýninn á hugmynd Hildar í gær, en hann sagði að líta ætti á bólusetningar sem barnaverndarmál, í stað þess að úthýsa óbólusettum börnum úr leikskólum:
„Að nota aðgengi að leikskólum eitt og sér í þessu skyni er fáheyrt, í besta falli plástur sem tekur engan veginn á rót vandans. Það er í algjöru ósamræmi við aðferðafræði barnaverndar, þar sem þvingandi aðgerðir eru aftast á forgangslistanum.“
„Úthýsing úr leikskóla gerir í sjálfu sér ekkert til að bæta úr þessu og er engan veginn nauðsynleg til þess að úr þessu verði bætt. Þetta eru einfaldlega alveg aðskildir hlutir. Við þurfum ekki að nota þá sleggju á foreldra að þau fái ekki leikskólapláss fyrir óbólusett börn þegar aðrar leiðir eru í boði og þegar þau eru alveg tilbúin í þetta.“
„Úthýsing ein og sér er þá samt vond hugmynd því pælingin virðist eingöngu vera sú að vernda sum börn fyrir öðrum. Hin óbólusettu eru ennþá óbólusett þó þau séu ekki á leikskóla.“
Alls 41.000 manns smituðust og 37 hafa látist vegna mislingasmits á þessu ári, en flest tilfellin voru í Úkraínu, Grikklandi, Frakklandi og Ungverjalandi. Þar eru hópar sem vilja ekki láta bólusetja sig eða börn sín, ýmist vegna trúarlega ástæðna eða ranghugmynda um að bólusetningar séu verri heldur en sjúkdómarnir sem þær eigi að verjast.
Í nýlegri skýrslu Landlæknisembættisins kemur fram að þátttaka í bólusetningum við mislingum, hettusótt og rauðum hundum hafi verið 91 prósent á síðasta ári en bólusetningin fer fram við 18 mánaða aldur. Æskilegt er talið að hlutfallið sé 95 prósent.
Á heimasíðu landlæknis eru sjúkdómar á borð við mislinga sagðir áhyggjuefni og hætt við faraldri berist smit inn á leikskóla:
„Sóttvarnalæknir hefur gefið út skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2017 sem birt hefur verið á vefsíðu Embættis landlæknis. Eins og fram kemur í skýrslunni þá var þátttaka á árinu 2017 svipuð og á árinu 2016, þar sem þátttaka yngstu árganganna í bólusetningum er lakari en áður hefur verið.
Ef þátttaka minnkar enn frekar má búast við að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Sérstaklega eru mislingar áhyggjuefni en þeir hafa nú geisað af krafti víða í Evrópu um nokkurra ára skeið
Mikil flugumferð um Ísland gerir það að verkum að sóttvarnalæknir fær reglulega spurnir af því að einstaklingur með smitandi mislinga hafi verið í flugvél með viðkomu á Íslandi. Meðgöngutími sjúkdómsins er um 10-14 dagar en getur verið allt að 3 vikur og með dvínandi þátttöku yngstu árganganna í bólusetningum er hætt við að faraldur geti komið upp ef smit berst inn á leikskóla hér á landi.
Höfnun bólusetninga er fremur sjaldgæf hér á landi. Miklu algengara er að skoðun í ung- og smábarnavernd falli niður af óljósum orsökum. Á undanförnu ári hefur verið lagt í vinnu við að auðvelda heilsugæslustöðvum að fylgjast með stöðu mála hjá þeim börnum sem eru skráð á stöðina og gefur það tækifæri til að kalla inn börn sem ekki hafa mætt í skoðun. Frekari úrbætur eru í undirbúningi til að auðvelda skráningu og fleira.“