fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Karl Th. um landakaup útlendinga: „Það skiptir barasta engu máli hvort eigendur viðkomandi jarða hafa íslenzka kennitölu eða ekki“ – Ögmundur bregst við

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 24. júlí 2018 16:30

Karl Th. Birgisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar, fer mikinn í pistli sínum um þá umræðu sem hefur átt sér stað varðandi landakaup erlendra auðkýfinga á Íslandi. Hann segir að undirliggjandi tónn í umræðunni sé sá að því fleiri jarðir sem útlendingar eignist, eigi þjóðin minna og minna af landinu sjálfu.

Hann segir slíkar forsendur í umræðunni vera „rómantískan misskilning“ og „óskhyggju“ þar sem Íslendingar hafi í raun aldrei átt Ísland:

„Sko. Þjóðin hefur aldrei átt Ísland, sumsé landið sjálft. Ef „þjóðin“ merkir almenningur, alþýða manna, allir ríkisborgarar eða bara ríkisvaldið. Ef Ari fróði lýgur ekki þeim mun meiru, þá helguðu einstaklingar sér land forðum daga og eignuðust það þannig. Síðar varð kaþólska kirkjan stærsti landeigandinn. Við siðaskiptin hirti kóngurinn þær jarðir flestar og þær urðu eign hinnar nýju lútersku kirkju. Og eru ótrúlega margar enn. Um þessar jarðir hafa ríki og kirkja gert fleiri en einn samning, sem eru undirstaða ríkisrekinnar þjóðkirkju. Stærsta hindrunin fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju hefur nefnilega ekkert með guðfræði að gera. Hún snýst um þessar kirkjujarðir, eignarhald, leigu, afnot, hlunnindi og óheyrilega fjármuni. Þetta er sagan í mjög einfaldaðri mynd. En staðreyndin er samt sú, að íslenzka þjóðin hefur aldrei og ekki í neinum skilningi átt Ísland. Allar veigamestu nytjajarðir á Íslandi hafa verið í eigu einstaklinga, trúfélaga, stundum danska kóngsins og aðeins í litlum mæli ríkisins síðustu áratugina. Þess vegna er eyjan Vigur nú til sölu. Og (jörðin) Hellisfjörður. Og svo framvegis. Einstaklingar eru að selja Ísland. Af því að þeir eiga það.“

 

Ekki skal veifa útlendingaspilinu eins og þjóðernisfantar

Þá nefnir hann að Ögmundur Jónasson sé talsmaður sérkennilegra skoðana, en Ögmundur var innanríkisráðherra þegar Huang Nubo gerði misheppnaða tilraun til landakaupa um árið og hefur talað gegn því að útlendingar kaupi upp landið:

„En – og þetta er ákaflega mikilvægt en – það skiptir barasta engu máli hvort eigendur viðkomandi jarða hafa íslenzka kennitölu eða ekki. Ekki bara af því að EES-samningurinn bannar að við mismunum fólki vegna þjóðernis, sem ætti þó að vera nóg og sjálfsagt. Fleira kemur til. Þá kemur að mínum elskulega Ögmundi Jónassyni, sem í þessu eins og öllum fyrri jarðakaupamálum er kröftugasti talsmaður ákaflega sérkennilegra skoðana. Ég hef hlustað á Ögmund í viðtölum ýja hraustlega að því, að við ættum að endurskoða EES-samninginn – eða jafnvel segja honum upp – af því að útlendingar séu að eignast Ísland. Sú sára tilfinning ætti að snerta sjálfstæðisstrenginn í okkur öllum – ef vinur hans Steingrímur Joð hefði ekki klúðrað fullveldisafmælinu svona eftirminnilega. […] Þegar Ögmundi er bent á hið augljósa, að íslenzkir kapítalistar séu í engu skárri en útlenzkir kapítalistar, jafnvel þvert á móti eins og nýleg dæmi sýna, – það var jú okkar fólk sem setti hér allt á hliðina, en ekki útlendingar, og hér skal nú ekki einu sinni bent á heimsmet í Panamaskjölum – þá grípur Ömmi til forvitnilegrar röksemdar. „Hvað gerum við þegar jarðir og auðlindir landsins ganga kaupum og sölum í erlendum kauphöllum eftir að útlendingar hafa eignazt þær?“ spyr hann. Vel spurt, félagi Ögmundur. Við gerum það sama og þegar íslenzkir kapítalistar hafa keypt þessar sömu jarðir og auðlindir. Þeir hafa nefnilega aðgang að kauphöllum líkt og allir hinir kapítalistarnir – þar er jafnan ekki spurt um vegabréf. Við setjum almennar lög og reglur, þrengjum þær til muna ef þurfa þykir, lögum það sem þarf að bæta. En þetta eigum við að gera án þess að veifa útlendingaspilinu eins og þjóðernisfantar af ódýrustu sort.“

Ögmundur svarar fyrir sig

Ögmundur svarar Karli Th. í athugasemdarkerfinu og nefnir að eignarhald á landi hafi aðra merkingu í dag en áður:

„Getur verið að þetta sé svolítil íhaldsemi hjá þér Kalli minn, að horfa aftur í tímann og ganga síðan út frá því að allt verði eins og það var? Eignarhald á landi hefur allt aðra þýðingu nú en í landbúnaðarþjóðfélagi liðinna tíma, þegar spurningin snerist fyrst og fremst um beitarlönd. Nú snýst eignarhald um einokun lax- og silungsveiðinnar, hugsanlegan afrakstur af núttúruperlum og síðan um gull framtíðarinnar, vatnið og orkuna. Hvoru tveggja fylgir eignarhaldi á landi. Ég tel það skipti máli að eignarhaldið hvíli sem næst landinu og að það skipti máli hvar það er vistað. Auðvitað á eignarhald á vatni og orku að hvíla hjá þjóðinni, almenningi sem byggir þetta land. Í framtíðinni verður hugað meira að almannarétti enda mun hann skipta sífellt meira máli. Svo er náttúrlega stóra málið að koma í veg fyrir samþjöppun í eignarhaldi, skipir hún þá ef til vill engu máli ef regluverkið er til staðar. Nú þarf að horfa fram á veginn, leita ekki einvörðungu leiðsagnar í því sem liðið er.“

Þá nefnir Ögmundur misskilningin sem Karl talar um:

 „Svo er náttúrlega þetta sígilda með „misskilninginn“. Á námsárum mínum voru leshringir í tísku á mínum væng stjórnmálanna. Þar var oft að finna í forsvari nokkuð stjórnlynda menn sem töldu sig gjarnan vera handhafa sannleikans, hins eina rétta. Einhverju sinni setti ég fram skoðun sem gekk þvert á hinn pólitíska rétttrúnað. Þá varð þögn, þar til einn hinna sjálfskipuðu foringja kvað upp úr á eftirfarandi hátt: „Til að leiðrétta þennan misskilning…“. Ekki sótti ég fleiri fundi í þessum hópi sem afgreiddi „rangar“ skoðanir á þennan hátt.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki