fbpx
Mánudagur 18.október 2021
Eyjan

Sveinbjörg Birna leiðir nýjan lista í Reykjavík: „Ég tvíeflist við allt mótlæti“

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 22. apríl 2018 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, sem setið hefur sem óháður borgarfulltrúi eftir að hún hætti í Framsókn og flugvallarvinum, hefur ákveðið að bjóða sig fram undir nýjum merkjum fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Það yrði þá fimmtánda framboðið í borginni, en framboðið hefur ekki enn hlotið nafn.

 

„Það voru uppi ákveðnar vangaveltur með nafnið. Það komu auðvitað hugmyndir um Óháðir og flugvallarvinir sem mér fannst frekar klént,“ segir Sveinbjörg og hlær. „Stungið var upp á Reykjavík er okkar. Ég hafði samband við Emmsjé Gauta út af því og hann var frekar efins með það, sem ég skil nú alveg. En þetta skýrist allt á næstu dögum, Borgin okkar, Reykjavík, kemur vel til greina,“ segir Sveinbjörg sem mun kynna frambjóðendurna í fyrstu 10–15 sætunum í næstu viku.

 

Fjöldi framboðstilboða

Sveinbjörg segist ekki hafa leitað sjálf til annarra framboða, en þó hafi Frelsisflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin og aðrir haft samband við hana að fyrra bragði: „Sjálf leitaðist ég ekki eftir framboði hjá neinum öðrum flokki, nei. En það höfðu margir samband við mig, þar á meðal Flokkur fólksins og fleiri flokkar. Forystumenn innan Framsóknarflokksins spurðu hvort ég vildi ganga aftur í flokkinn. Þá höfðu menn í Sjálfstæðisflokknum samband við mig, en mér sýnist að þeir muni ekki ná því flugi sem þeir vonuðust eftir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur horfið frá sinni gömlu stefnu og slagorði, „Stétt með stétt“.  Sveinbjörg segir hið nýja framboð vera íhaldssamt hægri framboð: „Ég myndi staðsetja það til hægri, já. Ég styð einstaklingsframtakið og vil að fólk fái að njóta þeirrar uppskeru sem það sáir. En að sama skapi vil ég öflugt kerfi sem grípur þá er minna mega sín. Ég vil hins vegar ekki algera einkavæðingu í heilbrigðis- og skólakerfinu, heldur vil ég geta átt val þar um.“

 

Háleit markmið

„Ég geri mér vonir um að ná inn þremur mönnum. Munurinn á þessu framboði og því síðasta hjá mér er að nú get ég lagt alla þá vinnu sem ég hef unnið síðastliðin fjögur ár í dóm kjósenda. Það er nefnilega alveg ljóst hverjir hafa haldið uppi gagnrýni á meirihlutann í borginni á þessu kjörtímabili, það er ég og Guðfinna Jóhanna. Það hafa Sjálfstæðismenn ekki gert, svo mikið er víst. Þeir fóru strax undir pilsfaldinn hjá Degi borgarstjóra um leið og hann lofaði að styðja Halldór Halldórsson til formennsku í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Enda vorum við ekki tilbúin að gera samkomulag með þeim í upphafi síðasta kjörtímabils um að veita meirihlutanum andstöðu.“

 

Nýjar lausnir í samgöngumálum

Sveinbjörg segist brenna fyrir fjölmörgum málum sem þurfi að taka á í borginni: „Ef ég væri að sækjast eftir þægilegri innivinnu hefði ég ekki sagt mig úr Framsóknarflokknum því með því að vera óháður borgarfulltrúi lækkuðu laun mín úr rúmlega 900 þúsundum á mánuði í 380 þúsund. Mér fannst ég hins vegar skulda mínum kjósendum að bjóða mig fram aftur, enda mörg mál sem ég brenn fyrir í borginni.“ En hvaða mál skyldu það vera? „Ábyrg fjármálastjórn, markviss sýn í skóla- og húsnæðismálum, raunhæfar lausnir í samgöngumálum og standa vörð um flugvöllinn. Ég vil hefja samtal við stærstu vinnustaðina, t.d. um að breyta vaktafyrirkomulagi Landspítalans og upphafi kennslutíma Háskóla Íslands, til að dreifa umferðarálaginu betur. Samkvæmt flæðisgreiningum myndi núverandi gatnakerfi standa undir sér næstu 10–15 árin ef ráðist yrði í slíkar breytingar og á meðan gætum við greitt niður skuldir og safnað í sjóði til að hugmyndir eins og Borgarlína og Miklabraut í stokk séu raunhæfari.“

 

Umdeild hitamál

Sveinbjörg hefur vakið athygli fyrir ýmis umdeild mál sem hafa klofið þjóðina. Að undanförnu hefur hún barist fyrir því að nemendum verði bannað að vera með snjallsíma í skólastofum sem er þó frekar léttvægt þegar moskumálið og ummæli hennar um að Reykjavíkurborg sæti uppi með „sokkinn kostnað“ vegna barna hælisleitenda sem kæmu inn í skólakerfið í stuttan tíma, eru höfð til hliðsjónar. Hún segir ummæli sín um „sokkinn kostnað“ hafa verið mistúlkuð á alla vegu: „Það sem ég átti við var að sveitarfélögin fengju ekki fjármagn frá ríkinu til að greiða fyrir skólagöngu barna hælisleitenda ólíkt því sem á við um húsnæðiskostnað, dagpeninga og strætókort, sem ríkið endurgreiðir sveitarfélögunum. Allt nema kostnaðinn við skólakerfið. Það er það sem ég gagnrýndi. Gagnrýni mín leiddi til þess að í janúar samþykkti skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar að hefja samtal við ríkið um þetta og er þetta komið inn í stefnuna hjá þeim sem samþykkt var um daginn.“ Aðspurð út í moskumálið segir Sveinbjörg: „Ég er enn þeirrar skoðunar að sveitarfélög eigi ekki að gefa lóðir til trúfélaga, en lögum samkvæmt eiga þau aðeins að gefa lóðir undir kirkjur þjóðkirkjunnar. Ég tel að það eigi að afturkalla lóðarúthlutunina, sérstaklega þegar litið er til þess að engar framkvæmdir eru hafnar á lóðinni, þrátt fyrir að liðin séu fimm ár frá því henni var úthlutað.“

 

Segist höfða til breiðs hóps

„Það er búið að manna nánast allan listann. Þetta er auðvitað heilmikil vinna og 90% þeirra sem ég hef talað við hafa sagt þetta óvinnandi verk, en ég tvíeflist við allt mótlæti,“ segir Sveinbjörg. En til hverra höfðar Sveinbjörg, hverjir eru það sem munu kjósa hana? „Ég tel mig höfða til breiðs hóps fólks sem vill skynsama rödd í borgarstjórn. Ég höfða til hóps Framsóknar- og Sjálfstæðismanna sem sveiflast á milli flokka, einnig hægri-krata sem finna sér ekki farveg í Samfylkingunni og eru kenndir við arm Jóns Baldvins. Þá finnst mér ég einnig fá meðbyr frá framsýnu ungu fólki,“ segir Sveinbjörg að lokum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðrún skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum – „Þetta er með slíkum ein­dæm­um, að lög ná ekki yfir það“

Guðrún skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum – „Þetta er með slíkum ein­dæm­um, að lög ná ekki yfir það“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Krónprins Dana kynnti sér umhverfisvæna orku á Hellisheiði

Krónprins Dana kynnti sér umhverfisvæna orku á Hellisheiði