Þingmenn úr stjórn og stjórnarandstöðu hafa lagt fram tillögu til þingályktunar á Alþingi um að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í greinargerðinni segir að öll skynsamleg rök hnígi í þá átt að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni en ef það eigi að breyta því fyrirkomulagi sé nauðsynlegt að öll þjóðin fái að koma að þeirri ákvörðun á beinan og lýðræðislegan hátt. Vilja þingmennirnir, sem koma úr Sjálfstæðisflokknum, Pírötum, Framsóknarflokknum og Vinstri grænum, að eftirfarandi spurning verði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu:
Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík?
Segja þingmennirnir að flugvöllurinn gegni lykilhlutverki í tengingu landsbyggðarinnar við opinbera grunnþjónustu og mikilvægar opinberar stofnanir sem og almenna verslun og þjónustu. Jafnframt sé nauðsynlegt að tryggja sjúkra- og neyðarflug til Reykjavíkur.