Þrír þingmenn Framsóknarflokksins vilja að ríkið nýti forkaupsrétt á hlutum í Arion banka. Í þingsályktunartillögu vilja þingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson að Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra nýti forkaupsréttinn og gangi inn í kaup vogunarsjóðanna Taconic Capital, Attestor Capital, Och-Ziff Capital og Goldman Sachs á 30% hlut í Arion banka.
Í greinargerðinni með þingályktunartillögunni segir að þegar litið sé til nýjasta uppgjörs Arion banka fari verð hlutanna undir 80% af eigin fé og því verði ekki annað séð en að. Hafði RÚV eftir Sigmundi að þingmönnunum þyki verðið undarlega lágt:
Og margt benda til þess að þessi viðskipti séu að eiga sér stað fyrst og fremst til þess að komast hjá því að láta ríkið hafa eðlilegan umsaminn skerf af verðmæti bankans. Og það má bera þetta saman við söluna á Íslandsbanka, sem var í rauninni bara afhentur ríkinu í heilu lagi. Í tilviki Arion banka átti að fara aðra leið, það er að segja gefa mönnum tækifæri til að selja bankann, en ríkið átti síðan að taka megnið af því sem kæmi fyrir. En með þessu má segja að það sé nánast verið að snuða ríkið,
sagði Sigmundur og bætti við að það væri æskilegast að ríkið myndi einfaldlega eignast alla bankana:
Frekar en að menn missi þetta til einhverra vogunarsjóða sem við vitum ekkert hvernig ætla að fara með bankann, en eru kannski ólíklegir til þess að vilja standa hér í bankarekstri til framtíðar, þá sé bara betra að ríkið yfirtaki þetta um tíma og noti þá tækifærið til að klára þá vinnu sem var ókláruð við endurskipulagningu fjármálakerfisins.
Stærra mál en salan á Búnaðarbankanum
Sagði Sigmundur við Morgunblaðið að salan á Arion Banka sé að mörgu leyti stærra mál en salan á Búnaðarbankanum 2002 og 2003, vonast hann til að þingsályktunartillagan verði rædd á þinginu:
Það er búið að eyða miklum kröftum í að takast á um og ræða sölu Búnaðarbankans fyrir 14 árum síðan. Hér er hins vegar um að ræða sölu sem er á margan hátt miklu stærri en það mál. Vonandi munu menn fara í gegnum þessa umræðu núna, frekar en að ætla sér að gera það eftir 10-15 ár.